09.05.1932
Neðri deild: 70. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1604 í B-deild Alþingistíðinda. (1641)

156. mál, barnavernd

Frsm. (Einar Arnórsson):

Ég þarf fáu að svara þessum vinsamlegu ummælum hv. samþm. míns um þetta mál.

Viðvíkjandi 1. brtt., sem hann minntist á, skal ég taka það fram, að í n. var ég persónulega nokkuð sama sinnis og hv. samþm. minni. En hv. samnm. mínir, a. m. k. sumir og líklega meiri hl. þeirra, álitu, að rétt væri að fara ekki lengra en þetta fyrst um sinn, og þótti það vel gerlegt að fela skólanefndum þetta starf til að byrja með, og ég beygði mig þar fyrir vilja meiri hl. Ég held líka, að það megi vel leggja upp með þetta. Það má þá alltaf breyta þessu, ef það kemur í ljós, að skólanefndirnar eru ekki þessu starfi vaxnar. Ég vona, að í mannfærri stöðum verði ekki mikið að gera í þessum málum. Það koma kannske ekki nema eitt eða tvö tilfelli á ári, sem hver n. þarf verulega að taka til athugunar. Skólanefndum er því sennilega vel trúandi fyrir þessu til að byrja með. Svo er þess að gæta, að ef yfirbarnaverndarráð verður skipað, þá getur það, ef því sýnist svo, haft fulltrúa sína á þessum stöðum, einn eða fleiri, sem litu eftir störfum nefndanna.

Ég býst því ekki við, að n. vilji að svo stöddu taka þessa brtt. aftur, enda eru ýmsar aðrar brtt. miðaðar við það, að hún verði samþ., og þess vegna er ég hræddur um, að frv. yrði hálfgerður óskapnaður, ef þessi till. yrði felld, en ýmsar aðrar till. samþ., sem eru samdar með tilliti til hennar. Hinsvegar getur n., ef svo sýnist, tekið þetta til nánari athugunar til 3. umr.

Viðvíkjandi því, hvort hægt sé að fyrirskipa þetta tvennt, að viðhafa hlutfallskosningu og hafa svo og svo margar konur í hverri nefnd, skal ég upplýsa það, að það var tekið til athugunar í n., hvort hægt væri að samríma þetta tvennt, og við álítum, að aldrei mundu verða vandræði út úr þessu, því að allir þeir, er fram kæmu með lista, mundu alltaf hafa eina eða fleiri konur á lista sínum.

Þetta fyrirmæli er líka hvöt fyrir flokkana til að hafa konur á lista. Hinsvegar er það ekki lögbrot, þó að engar konur séu í nefndunum. Við því er sleginn varnagli í gr. með því að segja, að þær skuli vera þetta margar „að jafnaði“. En ég er þess fullviss, að það verða alltaf kosnar konur í þessar nefndir, því að þetta starf er þannig lagað, að það virðist sjálfsagt, að konur séu kosnar til þess, og líklegt, að sumar greinar þessara starfa verði a. m. k. eins vel, ef ekki betur ræktar af konum en körlum. Það er því frá praktísku sjónarmiði alveg sjálfsagt, að í þessum barnaverndarnefndum verði alltaf einhver kona eða einhverjar konur.

Það er alveg rétt, sem hv. samþm. minn tók fram, að b-liður 5. brtt. er ofurlítil efnisbreyt. Hann skildi það alveg rétt, að það mundi verða óvinsælt, að barnaverndarnefnd færi að hefja rannsóknir á einhverjum stað utan síns umdæmis, þó að hún hefði komið einhverju barni þar fyrir. Hitt er annað mál, að þótt það sé ekki lögskipað, þá geta barnaverndarnefndirnar vitanlega hafizt handa um eftirlit með meðferð barna á heimilum utan síns umdæmis, en aðallega mundi það þó vera gert við barnahæli, sem eru utan kaupstaðanna, þar sem líklegt er, að allmörg börn yrðu úr kaupstöðunum. T. d. er eitt slíkt hæli komið á fót austanfjalls, og eru þar þó nokkuð mörg börn úr Reykjavík.

Ég þarf svo ekki að hafa fleiri orð um málið, en ég vil mælast til þess, að hv. þd. samþ. eftir atvikum líka fyrstu brtt.