26.02.1932
Neðri deild: 14. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1609 í B-deild Alþingistíðinda. (1652)

36. mál, skipun læknishéraða, verksvið landlæknis og störf héraðslækna

Flm. (Vilmundur Jónsson):

Frv. þetta inniheldur ekki nýmæli í hlutfalli við fyrirferð. Það eru aðallega þrjú atriði í því, sem eru breyt. frá núgildandi l. Fyrsta atriðið er það, að farið er fram á að nema það ákvæði úr launalögunum, sem er því til hindrunar, að hægt sé að semja nýja gjaldskrá fyrir héraðslækna.

Annað atriðið er að koma nýju sniði á læknaskipun Rvíkurbæjar. Og þriðja atriðið er ákvæði um að setja landlækni og héraðslæknum ný erindisbréf, sem ekki mun verða talin vanþörf, með því að þau erindisbréf, sem nú gilda, eru orðin á annað hundrað ára gömul og því ærið úrelt.

Á sjálfri skipun læknishéraðanna er ekki farið fram á aðra breyt. en þá, að einn hreppur er tekinn frá einu læknishéraði og færður til annars. Um þetta og allar ástæður til þess er getið nægilega greinilega í aths. við 1. gr. frv.

Ég skal geta þess, að ég hefi ekki hirt um við upptalningu hreppanna innan hvers læknishéraðs, að taka tillit til nafnbreytinga á hreppum né þeirra sundurskiptinga á hreppum, sem orðið kunna að hafa, síðan hin ýmsu lög um héraðsskipunina hafa verið sett. Ég hefi tekið hreppana upp í frv. eins og þeir eru taldir í gildandi 1. Um þetta atriði vildi ég mega biðja hv. þm., hvern fyrir sitt hérað, að gefa n. þeirri, er málið fær til meðferðar, sem greinilegastar upplýsingar. Býst ég svo ekki við, að frekari umr. þurfi um mál þetta nú, og óska því vísað til 2. umr. og allshn., að þessari umr. lokinni.