20.04.1932
Neðri deild: 56. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1611 í B-deild Alþingistíðinda. (1655)

36. mál, skipun læknishéraða, verksvið landlæknis og störf héraðslækna

Ingólfur Bjarnarson:

Ég hefi flutt brtt. við frv. Að efninu til eru þær aðeins tvær. Hin fyrri eru um það, að Hálssókn í Fnjóskadal sé ætlað að sækja lækni til Akureyrar. Hin síðari er, að Flateyjarhreppur eigi læknissókn til Húsavíkur. Ég hefi hér fyrir framan mig óskir viðkomandi hreppa og sóknar, og vil ég með leyfi hæstv. fors. lesa þær upp. Er þá fyrst símskeyti frá hreppsnefnd Flateyjarhrepps, svo hljóðandi:

„Óskum eindregið, að Flateyjarhreppur verði sameinaður Húsavíkurlæknishéraði. Felum yður flytja málið á Alþingi.

Hreppsnefndin“.

Hitt skeytið hljóðar svo:

„Hálssókn Hrísgerði Víðvellir Draflastaðasókn óska tilheyra Akureyrarlæknishéraði.

Oddviti Hálshrepps“.

Ég vil gera þá aths. út af þessu skeyti, að ég hefi ekki treyst mér til að taka upp till. um, að þeir tveir bæir í Draflastaðasókn, sem nefndir eru í skeytinu, verði lagðir undir Akureyrarhérað, enda álít ég, að það skipti engu máli. Ég hefi því eingöngu miðað till. við Hálssókn. Þessir tveir bæir liggja því undir Höfðahverfishérað, eins og áður hefir verið. Eins og hv. frsm. drap á, þá er hér um sanngjarna breyt. að ræða, og er í fullu samræmi við það, sem áður hefir tíðkazt. Hálssókn hefir jafnan leitað læknis til Akureyrar. Og nú er þó, vegna bættra samgangna við Akureyri síðan bílaferðir hófust, enn haganlegra en áður var að vitja læknis þangað.

Sama má segja um Flateyjarhrepp. Læknissókn liggur miklu betur fyrir heim til Húsavíkur heldur en til Grenivíkur, vegna staðhátta, enda sannar skeytið þetta. Í viðtali við landlækni hefi ég fengið vitneskju um það, að hann hefir fengið staðfestingu viðkomandi lækna á því, að þetta, sem hér er farið fram á, sé í samræmi við þá venju, sem tíðkazt hefur, og séu því brtt. réttmætar frá þeirra sjónarmiði. Veit ég, að landlæknir sannar þessa umsögn mína, ef með þarf. — Af framansögðu vona ég því, að enginn sjái neitt því til fyrirstöðu, að brtt. mínar verði samþ.