23.04.1932
Neðri deild: 58. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1620 í B-deild Alþingistíðinda. (1663)

36. mál, skipun læknishéraða, verksvið landlæknis og störf héraðslækna

Magnús Guðmundsson:

Hv. þm. Ísaf. áleit andstöðu Súðavíkurhreppsbúa gegn því að falla undir Nauteyrarhérað á misskilningi byggða. Um það býst ég við, að íbúar Súðavíkurhrepps vilji ekki hlíta hans dómi. Hitt virðist mér skína ú úr frv., að hv. þm., sem er flm. þess, telji einhverja sanngirni bak við þessar kröfur, þar sem hann leggur til, að íbúar Álftafjarðar, sem er í Súðavíkurhreppi, skuli hafa jafnt tilkall til héraðslæknisins á Ísafirði eins og til þess héraðslæknis, sem er þó þeirra læknir. Slíkt er ekki venja. Það virðist því benda til þess, að hv. flm. sé ekki viss í sinni sök, telji sig jafnvel hafa gengið eitthvað á snið við rétt íbúa Súðavíkurhrepps. Þessi réttur, að vitja læknis til Ísafjarðar, er aðeins bundinn við þá, sem búa í Álftafirði, og nær því ekki til allra íbúa hreppsins. Það má vel vera, að takmörkum læknishéraðsins eigi að breyta, sökum þess að læknirinn á Ísafirði vilji heldur vera laus við Súðavíkurhrepp. En það eru ekki óskir læknanna, sem eiga að ráða í þessum efnum, heldur óskir héraðsbúa sjálfra. Að segja, að menn þarna geti farið út í Ögur og sótt lækni, þegar þeir eru búnir að fara til Ísafjarðar og læknirinn þar vill ekki fara, er meira en hæpið, því að þau tilfelli geta komið fyrir, að ekki sé sama, hvað lengi er verið að ná í lækni. Auk þess sem það myndi hafa mikinn aukinn kostnað í för með sér að þurfa að senda í báða staðina.

Annars þarf ekki mikið um þetta að ræða. Hv. flm. hefir með aths. sinni í frv. um hin sérstöku hlunnindi fyrir íbúa Álftafjarðar viðurkennt, hve nærri hann hefir gengið rétti Súðavíkurhreppsbúa, og því viljað slétta bót yfir það með þessu ákvæði frv.