23.04.1932
Neðri deild: 58. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1621 í B-deild Alþingistíðinda. (1664)

36. mál, skipun læknishéraða, verksvið landlæknis og störf héraðslækna

Vilmundur Jónsson:

Það er ekki rétt, að ég hafi viðurkennt að hafa gengið nærri rétti Súðavíkurhrepps, með því að áskilja meiri hluta hreppsbúa eftir sem áður tilkall til læknisþjónustu frá Ísafirði. Ég er viss um, að ef það lægi nú fyrir að ákveða takmörk þessa læknishéraðs í fyrsta sinn, þá yrði það gert eins og lagt er til í frv. og læknisbústaðurinn ákveðinn í Ögri. Að ég hefi lagt til í frv., að íbúar Álftafjarðar hafi rétt til að sækja Ísafjarðarlækninn sem sinn lækni, er eingöngu vegna þess, að þeir hafa til þessa átt tilkall til þess læknis — eru orðnir vanir því — og hafa ekki óskað eftir skiptum. Slíkt ákvæði er ekki óþekkt. Það er alveg hliðstætt því, sem átt hefir sér stað um íbúa Kjósar- og Kjalarneshrepps í Hafnarfjarðarhéraði. Þeirra læknir situr í Hafnarfirði, en þó eiga þeir einnig samkv. l. rétt á lækni í Reykjavík. Og þetta komst inn í lögin sökum þess, að læknirinn bjó áður uppi í Kjós, en var síðan fluttur til Hafnarfjarðar.

Það er með öllu tilhæfulaust, að læknirinn á Ísafirði vilji heldur vera laus við Súðavíkurhrepp úr héraði sínu. Hann þarf að jafnaði ekki að fara þangað nema 2–4 ferðir á ári, og um það munar hann ekkert. Honum má því alveg á sama standa og stendur áreiðanlega á sama, hvort hreppur þessi tilheyrir áfram læknishéraði hans eða er tekinn frá því. Þá er það misskilningur hjá hv. þm., að fara þurfi til Ísafjarðar í óvissu um að fá þar lækni og að menn geti átt á hættu að fá neitun þegar þangað er komið. Allt slíkt fer fram í síma, með því að símasamband er mjög gott þar vestra. Er því alls ekki farið til Ísafjarðar, nema full vissa sé fyrir um það, að læknirinn fáist. Ég held yfirleitt, að hv. dm. sé óhætt að treysta því, að hér sé ekki hallað rétti neins og eins sanngjarnlega gengið frá málinu og hægt er.

Þegar frv. þetta er orðið að l., er það aðeins einn hreppur héraðsins, sem á fremur erfiða læknissókn, en honum má aftur bæta það upp með sérstökum læknisvitjanastyrk. Með þeirri skipun, sem nú er, eru það aftur á móti tveir hreppar með meiri hluta héraðbúa, sem eiga ekki aðeins erfitt um læknissókn að hinu lögákveðna læknissetri, heldur mega að miklu leyti heita útilokaðir frá allri þjónustu þaðan. Aðalatriðið, sem liggur til grundvallar fyrir því, að farið er fram á þessa breyt. á skipun þessa héraðs, er þó það, að eins og héraðið er nú, er það svo lítið, að undir hælinn er lagt, hvort hægt er að fá þangað nokkurn lækni, og við það er verst unandi fyrir alla héraðsbúa í heild, en með því að bæta þessum eina hreppi við það, býst ég við, að sá örðugleiki sé úr sögunni.

Mér láðist áðan að geta hér um skriflega brtt., er ég hefi borið fram við frv. Nú við þessa umr. Hún er um það, að 1. gangi ekki í gildi fyrr en um áramót. Er það nauðsynlegt vegna þeirrar breyt., sem gerð hefir verið á frv., þar sem inn í það hefir verið bætt nýju læknishéraði, auk þess sem takmörkum annara héraða hefir verið breytt lítilsháttar. Vegna skýrslugerða er nauðsynlegt eða a. m. k. hagkvæmara, að slíkar tilfærslur eigi sér stað við áramót. Ég vildi því leyfa mér að fara fram á, að brtt. þessi verði samþykkt.