23.04.1932
Neðri deild: 58. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1626 í B-deild Alþingistíðinda. (1670)

36. mál, skipun læknishéraða, verksvið landlæknis og störf héraðslækna

Vilmundur Jónsson:

Ég vil aðeins svara hæstv. forsrh. því, að allir íbúar þessa héraðs hafa haft sömu aðstöðu til þess að láta í ljós vilja sinn í þessu læknissetursmáli. Hér liggja fyrir óskir frá kjósendum í 21/2 hreppi um að hafa læknissetrið í Ögri, en aftur mótmæli gegn því frá einum hreppi.

Það er því staðreynd, að slík atkvgr. sem hæstv. forsrh. talar um hefir þegar farið fram, og liggja fyrir greinilegar skriflegar yfirlýsingar um vilja allra þeirra, er hlut eiga að máli. Nauteyrarhreppur er á móti breyt., Snæfjalla- og Ögurhreppur, þ. e. meiri hluti allra atkvæðisbærra manna í héraðinu, eru henni fylgjandi, en Reykjarfjarðarhreppur er klofinn í málinu. Þetta er líka svo þrautrætt, að ekkert nýtt kæmi fram, þó að farið yrði að greiða atkvæði um það enn á ný, en yrði hinsvegar aðeins til þess að vekja af nýju úlfúð og óþarfar æsingar.

Ég vil benda á það sem nokkra sönnun fyrir því, að hér er enginn varhugaverður reipdráttur á ferðinni, að milli mín og hv. þm. N.- Ísf. er enginn ágreiningur í þessu máli. Okkur kemur saman um það, að þar vestur frá muni aldrei verða eining um þetta mál, aldrei meiri eining en sú, sem þessi skipun gæti komið til leiðar. Ég skal einnig geta þess, málinu til enn frekari stuðnings, að fyrrv. landlæknir gerði sér ferð vestur fyrir fáum árum til þess að athuga þetta læknisbústaðarmál, og ég held, að frammi í lestrarsal liggi erindi frá honum, þar sem hann stingur upp á nákvæmlega sömu lausn og hér er farið fram á. — Viðvíkjandi því, að verið sé að leggja inn á nýja leið með því að leyfa íbúum í Álftafirði í Súðavíkurhreppi að sækja jöfnum höndum til læknisins á Ísafirði og í Ögri, er það að segja, að þetta er nákvæmlega sama fyrirkomulag og verið hefir í mannsaldur með Kjósar- og Kjalarneshrepp, eins og ég hefi áður tekið fram.

Það hefir verið svo með Álftfirðinga, að þeir sækja ekki oft lækni til Ísafjarðar, og er sjaldan, að læknir fari þangað tíðar en 3–4 sinnum á ári. Mun nokkru valda, að læknirinn á Ísafirði á sjaldan vel heimangengt vegna mikilla anna þar.

En ef Álftfirðingar hefðu lækni líka á hina hliðina, leiðir það af sjálfu sér, að læknarnir gætu oftar látið eftir héraðsbúum að fara þangað inn eftir eða út eftir þeim til hjálpar. Og vissulega gæti hinn skipaði héraðlæknir, sem sæti ætti í Ögri, haft miklu betra tóm til eftirlits með öllum heilbrigðismálum í hreppnum en nú er hægt frá Ísafirði.

Um símann er það að segja, að ég man ekki eftir því, að kallað hafi verið á lækni á Ísafirði öðruvísi en símleiðis nú í mörg ár. Súðavíkurþorpið liggur utarlega við fjörðinn, þar liggur leiðin um, og hafa menn það fyrir vana að hringja þaðan til læknisins, til þess að vita, hvernig á stendur fyrir honum. Súðavíkurhreppsbúar þurfa því hér ekki undan neinu að kvarta.