11.05.1932
Efri deild: 72. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1629 í B-deild Alþingistíðinda. (1679)

36. mál, skipun læknishéraða, verksvið landlæknis og störf héraðslækna

Pétur Magnússon:

Frv. það, sem hér liggur fyrir, gerir þá breyt. á Ísafjarðarlæknishéraði og Nauteyrarlæknishéraði, að Súðavíkurhreppur verður tekinn undan Ísafjarðarhéraði og lagður undir Nauteyrarhérað. Þá á og læknissetur Nauteyrarhéraðs að verða í Ögri og héraðið að nefnast eftir því og heita Ögurhérað.

Ég geri ráð fyrir því, að hv. þdm. hafi orðið þess varir, að ákveðin mótmæli gegn þessum breyt. hafa komið til þingsins. Eru þau frá mönnum í Súðavíkurhreppi, sem ekki vilja, að sá hreppur sé skilinn frá Ísafjarðarhéraði, og telja, að það valdi þeim erfiðleikum um læknisvitjun. Og þá ekki síður af Langadalsströndinni og það af sömu ástæðu. Íbúar Súðavíkurhrepps telja, að þeir verði eftir sem áður að vitja læknis til Ísafjarðar. Telja þeir að vonum óviðfelldið að leita annars en síns eigin læknis. Einnig óttast þeir, að þessi breyt. leiði til þess, að þeir verði neyddir til að taka þátt í byggingu læknisbústaðar í Ögri. — Getur heldur ekki talizt sanngjarnt að taka þá frá læknishéraði, sem þeir hafa lengi fylgt, flytja þá til annars héraðs, sem þeir telja, að sé heim óhentugra, og láta þá taka þátt í byggingu læknisseturs í því héraði, enda þótt þeir búist ekki við að nota þann lækni, sem þar er búsettur.

Ég hefi því leyft mér að koma fram með brtt. við frv. Kveður hún á um það, að Súðavíkurhreppur skuli fylgja Ísafjarðarhéraði, eins og áður hefir verið. — Þá er einnig á sama þskj. gerð till. um það, að læknisbústaðurinn í Nauteyrarhéraði, eins og það nú er nefnt, skuli vera í Vatnsfirði og héraðið nefnast Vatnsfjarðarhérað.

Ég hefi reynt að kynna mér það eftir föngum, hvar sanngjarnast sé, að læknissetur þessa héraðs verði sett. Þetta atriði hefir verið og er hitamál milli íbúa héraðsins. Er því vandi að kveða á um þetta og vitanlega ekki hægt að gera það, svo að öllum líki vel. Íbúar Nauteyrarhrepps vilja ekki missa læknissetrið frá sér. Og þeir, sem hafa kynnt sér vegalengdir þarna og afstöðu alla, geta séð, að aðstaða manna innst úr Nauteyrarhreppi verður erfið til læknisvitjana, ef læknissetrið er ákveðið í Ögri. Því verður og heldur ekki neitað, að aðstaða manna utan til í héraðinu verður erfið, ef læknissetrið er á Langadalsströndinni. Hér er því í brtt. farið bil beggja og lagt til, að læknissetrið verði í Vatnsfirði. Þeir einir, sem þá má segja, að illa verði úti, eru þeir, sem búa á Snæfjallaströndinni utan til. Þeir eiga vitanlega enn erfiðara með að vitja þangað læknis en í Ögur. En þess ber þó að gæta, að íbúar eru þar færri og læknisvitjanir þess vegna ótíðari. Og það mun ávallt verða svo, að læknir verður ekki settur annarsstaðar en þar, að erfitt verður um læknisvitjun af Snæfjallaströndinni utanverðri. Hafa þeir og notað lækni á Ísafirði ekki síður en sinn eigin lækni. Ef sú skipun verður á þessu gerð, sem ég legg til, þá verður fyrir þá fullt eins hægt að vitja læknis til Ísafjarðar. Verður þá afstaða þeirra hin sama og áður hefir verið.

Eins og ég sagði, þá er þetta hitamál í héraðinu. Með till. hefi ég því viljað reyna að þræða meðalveg og ákveða læknisbústaðinn svo, að sem flestir megi vel við una. Ég skal svo ekki orðlengja þetta frekar. Hv. þdm. verða sjálfir að gera upp við sig, hvað þeir álita réttast í málinu. Fyrir mitt leyti þykist ég hafa valið sanngjarna leið.