27.04.1932
Neðri deild: 61. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1636 í B-deild Alþingistíðinda. (1697)

217. mál, flugmálasjóður Íslands

Frsm. meiri hl. (Sveinn Ólafsson):

Ég get að mestu vísað til nál. meiri hl. á þskj. 503 um þetta mál, þar sem tekið er fram það, sem máli skiptir, og ástæður færðar fyrir því, að eins og nú stendur er ekki gerlegt að leggja flugmálaskattinn niður. Ástæðurnar eru þær, að nú eru á döfinni samningar við vestræna flugfélagið, sem fengið hefir hér sérleyfi til viðkomu og fyrir lendingarstaði á millilandaflugi. Félag þetta hefir gefið í skyn — eða jafnvel gefið fyrirheit um að taka upp flug innanlands, eða framhald af innanlandsflugi því, er hér hefir verið undanfarið, og þá jafnframt að kaupa eignir innlenda flugfélagsins, sem starfað hefir undanfarið, en nú orðið að hætta störfum vegna fjárskorts. Meðan ekki er útséð um þessa samninga, sem bundnir eru við það, að félaginu vestræna verði tryggður flugskattur sá, er innlenda flugfélagið, hefir notið undanfarið, er ógerlegt að fella skattinn niður með lögum. Slíkt gæti orðið til þess, að ekkert yrði úr innanlandsflugi vestræna fél. hér, og auk þess myndi það baka innl. flugfélaginu tilfinnanlegt tjón að geta ekki losnað viðeignir sínar og skuldir með haldkvæmri sölu flugvéla og flugtækja. Þótt ef til vill sé ekki hægt að benda á mikinn árangur af starfsemi hins innlenda flugfélags, munu þó allir kannast við, að það sé og hafi verið fyrsti vísir til innlends flugs og bættra samgangna eftir loftleiðum, sem stuðnings sé verður, þó eigi væri nema með því móti, að gera félaginu mögulegt að selja eignir sínar. Á þetta er ljóslega bent með þskj. 503, og vona ég, að hv. þm. hafi kynnt sér það. Ég hefi ekki viljað leggja til, að frv. væri fellt, af því að mér fannst mjúklegri meðferð á því að bera fram dagskrá í málinu, og sú dagskrá liggur fyrir á nefndu þskj.