23.05.1932
Efri deild: 81. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 546 í B-deild Alþingistíðinda. (170)

1. mál, fjárlög 1933

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég skal ekki orðlengja um þær brtt., sem hér liggja fyrir. Ég vænti aðeins þess, að þótt í öðrum efnum sé hér einkennilega ástatt, lendi þó ekki allt í tómu ábyrgðarleysi við atkvgr. Út af yfirlýsingu hv. 1. landsk. um afstöðu Sjálfstæðisflokksins til fjárlfrv. vil ég segja það, að ekki verður við það miðað, þótt gert sé ráð fyrir tekjum af verðtolli, gengisviðauka o. fl. í frv., því að fjárlfrv. sjálft veitir engan rétt til að innheimta þessa tolla. Samkv. stjórnarskránni verða tollar ekki innheimtir nema þeir séu lagðir á með sérstökum lögum. Hefir það því út af fyrir sig enga þýðingu fyrir samþ. fjárlfrv., hvort gert er ráð fyrir þessum tekjustofnum í þeim eða ekki. Afstaða hv. 1. landsk. og flokks hans miðast við allt annað mál, eins og hv. þm. hefir líka tekið fram, og er þar um „demonstration“ að ræða, sem ekki verður rakin til fjárlfrv. sjálfs á neinn hátt. Skal ég ennfremur geta þess, að á meðan svo stendur, að ekki er útséð um það, hvort ekki tekst að sigla hjá þeim skerjum, verður atkvgr. um fjárlfrv. í heild sinni frestað, en aðeins látin fara fram atkvgr. um þær brtt. er nú liggja fyrir. Atkvgr. um fjárl. sjálf verður frestað í nokkra daga.