27.04.1932
Neðri deild: 61. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1647 í B-deild Alþingistíðinda. (1700)

217. mál, flugmálasjóður Íslands

Pétur Ottesen:

Mér þykir það harla undarlegt, ef Alþingi ætlar að spyrna gegn því, að þessi skattur verði felldur niður, þegar allir greiðendur hans, sem gagnsins eiga að njóta af síldarleitinni, telja sig ekkert gagn af þessu hafa. Ég verð að telja það dálitið ónærgætið gagnvart þessum mönnum að þröngva þeim til að greiða yfir 50 þús. kr. á ári fyrir það, sem þeir álíta sér einskis virði. Í mínum augum eru þau léttvæg rökin um, að svo og svo mikið gagn hafi af síldarfluginu hlotizt, þegar þau stríða gegn einróma staðhæfingu þeirra manna, sem veiðarnar stunda. Hvaða vit er í því að vera að þröngva þessari síldarleit upp á menn og leggja skatt á framleiðslu þeirra fyrir þetta, sem þeir telja sér að engu gagni koma?

Afkoma síldarútvegsins er heldur engan veginn svo, að ástæða sé til að leggja sérstakan, óþarfan skatt á þennan atvinnuveg. Hv. frsm. meiri hl. sagði reyndar, að það skipti engu, hvort þessi skattur því hvíldi á honum eða ekki. Ég skal nú benda á dæmi, sem sýnir, hvað skatturinn er samanborið við það, sem síldveiðimennirnir báru úr býtum á síðastl. sumri. skatturinn nemur 10 aurum á hverja tunnu síldar, sem söltuð er, og hvert mál, sem fer í bræðslu. Ég hefi hér í höndum reikning um afkomu tveggja báta, sem gerðir voru út á síld síðasta sumar. Ég hefi áður minnzt á þann reikning í sambandi við annað mál. Af þessum reikningi er það ljóst, að hásetarnir hafa fengið greitt sem svarar 5 aur. út á hverja tunnu síldar. Eftir var þó að draga frá allan kostnað þeirra, svo sem fæði o. fl. Brúttótekjur þeirra eru 5 aur. á hverja tunnu, en flugskatturinn 10 aurar, eða helmingi hærri en það, sem þeir báru úr býtum að ófrádregnum kostnaði. Ég ætla að vona, að þetta slái niður þessari staðhæfingu hv. frsm. meiri hl., að flugskatturinn sé ekki fjöður á fati og gæti ekki neitt um afkomu útvegsins. Hann er þung byrði á útveginum, og þar sem svo er ástatt, að síldveiðimenn telja sig ekkert gagn hafa af síldarleitinni, þá er það hin svartasta rangsleitni að ætla að kúga síldveiðimenn til að inna af hendi þessa skattgreiðslu.

Um flugferðir almennt er það að segja, að það hefir hvergi tekizt enn að reka þær svo, að ríkin yrðu ekki að leggja stórfé með heim. En með hliðsjon af því, að flugvélarnar eru stórfengleg samgöngutæki, sem standa mjög til bóta og sjálfsagt taka smám saman þeim endurbótum, að þær geti borið sig eins og skip og bílar og önnur samgöngutæki, hefir það verið talið réttmætt. En féð hefir hvarvetna verið tekið af sameiginlegum heildarsjóði landanna, ríkissjóðnum. það er ekkert við því að segja út af fyrir sig, að veitt sé nokkurt fé árlega til flugferða hér á landi úr ríkissjóði. Við fetum þá í fótspor annara þjóða. En að ætla sér að skattleggja einn einstakan atvinnuveg til þess að halda uppi almennum flugferðum, það nær engri att. Að inn á þessa braut var nokkru sinni farið, stafaði af því, að menn höfðu trú á því, að þetta gæti orðið síldveiðunum að einhverju liði. En þegar reynslan hefir sýnt, að þeim tilgangi hafi ekki verið náð, virðast síldveiðimenn eiga beina kröfu á því, að þessum skatti sé af þeim létt. En ef Alþingi telur rétt, að flugferðum verði haldið hér áfram, og veiti til þeirra sérstakan styrk, þá verður sá styrkur að koma beint úr ríkissjóði, en ekki með því að skattleggja síldveiðimenn.

Ég verð að treysta því, að Alþingi líti svo rétt og hlutdrægnislaust á þetta mál, að það felli niður skattinn með öllu og samþ. frv. Ef Alþingi vill stuðla að því, að flugfélagið geti selt ameríska flugfélaginu, sem nýlega hefir fengið réttindi til þess að setja hér upp flugstöð, t. d. með því að veita styrk til áframhaldandi flugferða hér á landi, þá er það allt annað mál, sem verður að taka til sérstakrar athugunar, en alls ekki í sambandi við þetta frv.