27.04.1932
Neðri deild: 61. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1649 í B-deild Alþingistíðinda. (1701)

217. mál, flugmálasjóður Íslands

Frsm. minni hl. (Guðbrandur Ísberg):

Síldarflugið og flugskatturinn eru frá upphafi samstæð hugtök. Um leið og upplýst er, að síldarflugið sé einskis virði fyrir síldveiðarnar og eigi þess vegna að falla niður, þá eiga síldveiðimenn kröfu á því, að skatturinn sé einnig felldur niður.

Hv. frsm. meiri hl. taldi mig hafa farið út fyrir efnið, þegar ég minntist á Eimskipafélagið. Það má vera, að ég hafi haft fleiri orð um það en strangt tekið var nauðsynlegt. En samanburður á flugfélaginu og Eimskipafélaginu, sem bæri annast flutningastarfsemi, lá svo nærri og var svo eðlilegur, að ég held, að mér verði ekki með nokkurri sanngirni gefinn hann að sök, þótt hv. þm. væri sýnilega litið um hann gefið. Það er ákaflega athyglisvert að bera saman þessi tvo félög. Eimskipafélagið var stofnað af þjóðarnauðsyn, flugfélagið algerlega að nauðsynjalausu. Hv. frsm. meiri hl. reyndi heldur ekki að andmæla þessu áliti mínu, enda stend ég ekki einn að því. Flugferðir kosta afarmikið fé, og er því óhugsandi að reka þær nema í fjölmenni. Viðvíkjandi póst- og farþegaflutningi má benda á, að hér gat ekki verið um neinar fastar ferðir að ræða, með þeim vélum, sem hér voru notaðar. Flugvélar, sem nothæfar væru til farþega- og póstflutninga hér á landi, svo að nokkurn veginn öruggt mætti telja, kosta fleiri hundruð þús. kr. Þær eru allt of dýrar til þess að skemmta sér á þeim hér í fámenninu.

Hv. þm. Borgf. sýndi fram á, hvílík fjarstæða það væri, að það stæði á sama fyrir síldarútveginn, hvort haldið væri áfram að taka 10 aura skatt af hverju síldarmáli og síldartunnu eða ekki; hann munaði hvort sem væri ekkert um svo lítið gjald. Ef þetta væri rétt hjá hv. 1. þm. S.-M., þá vildi ég leggja það til, að þessi skattur væri lagður á og innheimtur daglega. Ef ekkert munar um skattinn, þá er eins ástatt um síldarútveginn og hænuna, sem varp gulleggjunum, og því óhætt að reyta hann. En þetta er hin mesta fjarstæða. Skatturinn er mjög tilfinnanlegur. Fyrir skip, sem veiðir 5000 mál, er hann 500 kr., og er það ekki lítið, þegar tap er á útgerðinni á hverju ári. Hv. frsm. meiri hl. talaði um það, að flugfélagið hafi fórnað fé í þágu þjóðarheildarinnar. Hvaða fé hefir það fórnað? Því fé, sem það var búið að sníkja út úr þjóðinni, og þá ekki sízt frá síldarútveginum. Meginið, yfir 100 þús. kr., kom frá síldarútveginum, án þess að hann fengi nokkuð í staðinn.

Hv. þm. þótti furðulegt, að ég skyldi vilja vinna á móti eðlilegri þróun flugferða hér á landi, eins og hann orðaði það. En þetta er alls ekki rétt. (Forseti: Ég vil benda hv. þm. á, ef hann á mikið eftir . . . . ). Ég á aðeins örfá orð eftir. Ég vil vinna á móti óeðlilegri þróun. Ég sé ekki mun á því að skattleggja síldarútveginn og því að skattleggja einstakling, t. d. 1. þm. S.-M., í því augnamiði að halda flugferðum uppi. Slíka lausn á því máli tel ég óeðlilega, og óeðlilega þá þróun, sem byggð væri á þesskonar gripdeildum.

Skal ég svo ekki hafa þessi orð fleiri. Vildi ég aðeins undirstrika þessi atriði frekar, að gefnu tilefni.