27.04.1932
Neðri deild: 61. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1657 í B-deild Alþingistíðinda. (1704)

217. mál, flugmálasjóður Íslands

Frsm. minni hl. (Guðbrandur Ísberg):

Hv. frsm. meiri hl. hefir orðið tíðrætt um, að við, sem höfum mælt með frv., værum mjög á sama máli og hefðum allir byggt á þessu eina atriði, að við teldum réttmætt að nema flugskattinn úr gildi, af því að síldarleit með flugvélum hefði ekki komið og mundi aldrei koma að því gagni, sem ætlazt var til í upphafi. Svipað má segja um ræður hv. frsm. meiri hl. Þær hafa snúizt um eitt atriði, sem sé það, að útflutningstollur á síld hefði í fyrra verið lækkaður úr kr. 1.50 í 1 kr. á síldartunnu, og þess vegna væri 10 aura flugskatturinn aðeins smáræði eitt, sem útgerðarmenn munaði ekkert um.

Þegar skatturinn var lagður á, var síldin í margfalt hærra verði; þess vegna gat sá útvegur borið hærra gjald þá. En nú, þegar síldarverðið er fallið, eins og raun er á orðin, er einnar krónu útflutningsgjald af hverri tunnu síldar a. m. k. þrisvar sinnum of hátt, miðað við annað útflutningsgjald af sjávarafurðum, og er því ástæðulaust að láta lækkun útflutningsgjaldsins af síld á síðasta þingi vaxa sér svo mjög í augum sem hv. þm. gerir. Hv. frsm. meiri hl. finnst svo mikið til um lækkunina, að hann endurtekur það hvað eftir annað í báðum sínum ræðum, að það sé ekki mikið að borga eina 10 aur., þegar útflutningsgjaldið sé komið niður í 1 kr.

Þá fannst hv. frsm. það of djarft talað af mér, að ginnt hefði verið fé út úr landsmönnum. Ég veit ekki, hvað mikið hann vill leggja í orðið að ginna. Því var haldið fram strax í byrjun, þegar flugfél. var stofnað, að hægt mundi að nota flugvélar bæði vetur og sumar og svo að segja í hvaða veðri sem væri. Því til sönnunar gæti ég vitnað í blaðagreinar um þetta mál frá þeim tíma. Allt þetta hefir brugðizt; það hefir ekki verið hægt að nota flugvélarnar nema í logni og björtu veðri. Í nokkurri teljandi golu, svo ég ekki tali um í stormi, hefir aldrei verið hægt að fljúga, og heldur ekki í þykkviðri og þoku. Og þegar reynslan hefir orðið þessi og þeir menn, sem stofnuðu flugfélagið, hlutu að sjá það fyrirfram, að svona hlyti að fara, þá finnst mér ekki kveðið of rammt að, þó notað sé orðið að ginna.

Þá minntist hv. frsm. á það, eins og hann gerði áður í sinni fyrri ræðu, að til boða stæðu samningar um það, að amerískt félag yfirtæki eignir og skuldir flugfélagsins, að því tilskildu, að flugskatturinn héldist, og héldi síðan uppi flugferðum. Ég veit ekki til, að neinir samningar hafi verið gerðir um þetta. Hv. frsm. las upp skeyti áðan, sem átti að sanna, að þessir samningar væru líklegir. En það er einkennileg tilviljun, að einmitt núna fyrir fáeinum mínútum barst mér í hendur blað, sem út kom í dag, „Vísir“, og í því er skeyti um það, að nú sé lokið samningum þessa flugfélags við Dani um að fá leyfi til að fljúga yfir Grænland. Og þar segir, að náðst hafi við stjórn Dana samningar um það, að flugfélagið fengi að gera veðurathuganir á Grænlandi næstu 2 ár, til undirbúnings undir flugferðir. Þetta útilokar, að ameríska flugfélagið geti hafizt handa um flug fyrr en a. m. k. eftir 2 ár. Þetta útilokar ennfremur, að samningar geti tekizt milli okkar Íslendinga og þessa félags, því að ég geri ekki ráð fyrir, að það ætli sér að hefja flugferðir milli hafna innanlands með flugvélagörmum þeim, sem búið er að nota hér síðustu 2–3 árin. Það er hagfræðlegt lögmál, að allir hlutir, sem verzlað er með, hafa sitt gengi. Þegar um vörur er að ræða, þá er gengi þeirra það verð, sem fyrir þær fæst á opnum markaði á hverjum stað og tíma. Og þegar um einstakan hlut er að ræða, þá er gengi hans það verð, sem hann er seljanlegur fyrir. Ef ég kæmi inn í búð, sem seldi t. d. málverk, og ég sæi þar málverk, sem ég vildi gefa 70 kr. fyrir, og enginn vildi gefa meira á sama stað og tíma, þá er hið framboðna verð — 70 kr. — gengi hlutarins, þó að það kynni að vera verðlagt á 170 kr. Fengi ég ekki malverkið þá gengi ég út. En hugsanlegt er, að til væru þeir menn, sem í stað þess að ganga út, keyptu malverkið, ef þeir gætu komið því við að fá það skrifað á reikning náunga síns, þannig að hann þyrfti að borga, en ekki kaupandinn. Flugferðir hafa einnig sitt gengi. Þegar leitað var styrks til ríkissjóðs á þingi 1930, þá sýndu fulltrúar þjóðarinnar, hvað mikið þeir mátu gengi þeirra, á 70 þús. kr. Nú er félagið gjaldþrota, og hvert er nú gengi þess? Hvað vilja menn gera til þess að reisa það við aftur? ég veit ekki, hvað hv. 1. þm. S.-M. mundi vilja gera, ef farið væri fram á styrk úr ríkissjóði. Ég efast um, að hann mundi greiða því atkv. að borga nokkurn hlut, og yrði þá gengi Félagsins = 0 frá hans sjónarmiði. En ef hægt er að láta náungann borga, sem í þessu falli er síldarútgerðin, þá má vera, að málið horfi öðruvísi við.

Hv. 1. þm. S.-M. endaði ræðu sína með því, að hann tryði ekki fyrr en hann tæki á því, að menn fylgdu því máli fram að nema úr lögum styrkinn til flugferða. En ég vil enda mína ræðu með því að lýsa því yfir, að ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því, að menn vilji leika hlutverk varmennisins, sem ég nefndi í dæminu áðan, með því að koma því yfir á náungann að borga það, sem þeir vilja ekki borga sjálfir.