29.04.1932
Neðri deild: 63. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1670 í B-deild Alþingistíðinda. (1719)

217. mál, flugmálasjóður Íslands

Frsm. minni hl. (Guðbrandur Ísberg):

Ég man ekki, hvort hv. þm. V.- Sk. var hér viðstaddur, þegar þetta mál var rætt.

Það er ólíklegt, því ef hann hefði hlustað á þau rök, sem flutt voru í þessu máli, þá get ég ekki skilið, að hann fellist á þá till. að taka málið út af dagskrá, án þess að færð sé nokkur ástæða fyrir því, nema gefið í skyn, að það kunni að koma fram eitthvað, sem geti breytt afstöðu manna, og þá sennilega eitthvað í sambandi við samninga þá, sem hér hefir verið talað um. Þegar engin ástæða er færð fram önnur en þessi, þá verður maður að lita svo á, að þetta sé gert til þess að tefja málið, eða þá til að svæfa það alveg.