30.04.1932
Neðri deild: 64. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1672 í B-deild Alþingistíðinda. (1723)

217. mál, flugmálasjóður Íslands

Jónas Þorbergsson:

Ég hafði ætlað mér að taka lítils háttar til máls um frv. þetta við 2. umr., en gerði það þó ekki. Vil ég því nú skýra afstöðu mína til frv. Ég verð að segja það, að mig furðar dálítið á því , hve mjög hv. þm. Ak. brýndi hér raustina og hvað fast að orði við 2. umr. málsins; er hann þó gefur maður hversdagslega bæði hér á þingi og utan þings. Mér virtist, að í ræðu hans kæmu fram svipaðar úrtölur og ég varð var við á Akureyri 1907. Magnús heitinn á Grund hafði flutt inn vörubifreið, sem hann ætlaði að nota til vöruflutninga milli Akureyrar og sveitaverzlunar sinnar á Grund. Hann mun ekki hafa verið heppinn í innkaupunum. Bifreiðin var notuð, og smiði bifreiða mun þá hafa verið allmjög áfátt, miðað við það, sem nú gerist, enda tókst tilraunin ekki eins vel og skyldi. Skorti þá ekki mikið umtal um þessa misheppnuðu ráðsmennsku Magnúsar heitins, að leggja út í jafntvísýnan hlut sem þessi bifreiðakaup. En nú er komið á daginn, að Magnús var í þessu efni langt á undan sinni samtíð, eins og í mörgum öðrum hlutum. Með þessu er ég þó ekki að segja, að hann hafi flutt fyrstur manna bifreið til landsins. Umtal þetta er nú löngu hagnað. Tilraun Magnúsar var aðeins byrjun á því, sem nú er viðurkennt, að bifreiðar séu og eigi að vera aðalsamgöngutæki hér á landi. Mér virtist ræðum hv. þm. Ak. hvað hugsunarhatt og úrtölur snertir mjög svipa til umtalsins um bifreiðakaup Magnúsar heitins. Það er kunnugt, að þróun flugferðanna er á sömu leið og notkun bifreiðanna var fyrir nokkrum árum. Þær halda áfram að þróast og fullkomnast, hvað svo sem hv. þm. Ak. segir. Ég segi þetta hér vegna þeirrar yfirlýsingar, sem hv. þm. gaf, að Norðlendingar myndu gera allt, sem þeir gætu, til þess að standa á móti flugferðunum og hindra þá hreyfingu, sem hér hefir orðið á flugmálunum. Ég veit ekki, hversu víðtækt umboð hv. þm. hefir haft til þess að gefa þessa yfirlýsingu f. h. Norðurlands, en ég býst við, að hann hafi sagt þetta mestmegnis út úr eigin brjósti. Mætti út frá slíkum yfirlýsingum álykta, að hv. þm. færist næst í fang að stöðva rás tímans eða snúning jarðar og önnur þesskonar smávik. Slíkt myndi honum reynast jafnkleift eins og það, að stöðva þróun flugsamgangnanna í heiminum. mér virðist nú svo, að við getum ekki komizt hjá því með öllu að taka þátt í ýmsum framförum og umbótum, þó að þær komi til okkar nokkru síðar en til annara þjóða. Nú stendur svo sérstaklega á um þetta mál, að þingið hefir afgr. lög um heimild til þess að veita erlendu félagi leyfi til þess að setja hér upp flugstöð, og mun félag þetta hafa í hyggju að halda uppi flugsamgöngum hér á landi, að því tilskildu, að Íslendingar því einhverja viðleitni á móti. Ég hygg því , að hv. þm. Ak. hefði getað sparað mest af því, sem hann sagði um flugsamgöngur almennt, því að hann þarf ekki að ætla sér þá dul, að hann geti breytt skoðunum manna um þá hluti. En nú lá annarsstaðar fiskur undir steini hjá hv. þm., eins og sjá má á frv. því, er hér liggur fyrir, þar sem farið er fram á að fella niður síldarskattinn til flugmalasjóðs. Sú afstaða hv. þm. er skiljanleg, og það út af fyrir sig, hvort rétt sé að hafa hann eða ekki, getur verið álitamál, en það á ekki að hafa áhrif á hluttöku Íslendinga í flugmálum framvegis.

Ég skal þá snúa mér að aðalatriðinu, sem hér liggur fyrir, en það er um réttmæti þessa skatts á síldarútveginn. Ber þá fyrst að meta tvennt, annarsvegar skattinn sem útgjöld fyrir síldarútveginn og hinsvegar það gagn, sem þegar hefir orðið og ætla má að hljótist af síldarleit með flugvélum. Í grg. frv. er tekið fram, að skattur þessi hafi reynzt 50 þús. kr. tvo undanfarin ár. Af skipi, sem veiðir 20 þús. mál yfir sumarið, yrði hann 2 þús. kr., og af bát, sem veiðir 6 þús. mál, yrði hann 600 kr. Það liggur því í augum uppi, enda þótt það sé rétt í sjálfu sér, að hvað lítil upphæð sem er verður til aukinna þyngsla fyrir útgerð, sem illa gengur, að þá geta þó þessir 10 aurar af tunnu ekki haft neina verulega og sízt úrslitaþýðingu fyrir atvinnuveginn, auk þess sem miklar líkur eru til þess, að síldarleitin geri miklu meira en borga þennan skatt.

Ég skal þá gefa örlítið yfirlit yfir starfsemi flugfélagsins í þágu síldarútvegsins síðan 1930. Yfirlit þetta hefi ég fengið hjá fyrrv. forstjóra flugfélagsins. Árið 1930 voru sendar út 33 tilkynningar um síldargöngur, en kunnugir menn sögðu, að á Siglufirði hefði ekki verið fest upp nema nokkuð af þessum tilkynningum, í mesta lagi 15 þeirra. Þetta stafaði af því, að framkvæmdarstjórn síldareinkasölunnar, sem tók að sér að birta þessar tilkynningar, trassaði að gera það. Út af þessu reis eðlilega mikil óánægja það ár. Slíkan grikk sem þennan má öllum gera; við honum er ekki gott að sjá fyrirfram. 1931 voru sendar út 43 tilkynningar, en þá voru gerðar sérstakar ráðstafanir til þess að birta þær, svo þær kæmu að fullu gagni. Í þessum upplýsingum, sem ég hefi fengið frá fyrrv. forstjóra flugfélagsins, er lýsing á því, hvernig síldarfluginu var hagað, og vildi ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp dálitinn kafla. Lýsingin er á þessa leið:

„Flugvélin flýgur venjulega í 600–800 m. hæð, og sér þá greinilega yfir afarstórt svæði, t. d. allan Skagafjörð í einu, eða meginið af Húnaflóa í einu, og síldartorfurnar sjást greinilega eins og dökkir blettir hingað og þangað um sjóinn. Staðmiðunin t. d. einn til tvo km. vestur af Kálfshamarsvík eða þessháttar hefir reynzt fullnægjandi fyrir skipin. Það er auðvitað ekki hægt að sjá úr loftinu, hvort um síld eða ufsa er að ræða, en það mun hafa komið aðeins einu sinni fyrir, að send hafi verið út tilkynning um síld, þar sem um ufsa var að ræða, enda getur slíkt ekki komið fyrir nema í lok síldartímans. Það er því vísvitandi blekking að telja þetta galla á síldarleitinni. — Flugvélin sveimar yfir stór svæði á einum til tveim tímum, lendir síðan á Siglufirði og lætur samstundis festa upp tilkynningu, sem símuð er til Akureyrar og útvörpuð frá Reykjavík. Hver sjómaður veit þá, hvar síld hefir sézt og hvar ekki þann og þann daginn, og getur hagað sér eftir því. Hann getur farið alsjáandi til veiða, en þarf ekki að fylgja óljósu hugboði, hvort hann eigi að stefna í vestur eða austur. Hann getur siglt rakleiðis þangað, þar sem síldin er fyrir“.

Þessi er lýsingin á því, hvernig síldarleitinni er hagað, og sem dæmi þess, því Iíkt gagn má verða að síldarleitinni, vil ég geta þess, og getur það einkum verið til athugunar fyrir hv. þm. Ísaf., að síðastl. sumar flaug flugvélin eftir miðjan ágúst vestur á Húnaflóa, þegar allt var fullt af síld kringum Flatey og ekki var hægt að afgreiða skip á Siglufirði, vegna þess, hve ort hún barst að, og fann flugvélin þá síld með öllum ströndum frá Reykjarfirði norður að Syðra-Horni, og varð þetta til þess, að ísfirzku bátarnir fóru allir þangað vestur og fylltu sig, og höfðu stóran hag af. Ég gæti meira að segja trúað, að þessi eina för þeirra hafi gert meira en að borga síldarskattinn, sem fell í hlut þessara bata að greiða. Það liggur og í augum uppi, því líkt hagræði það er fyrir síldveiðimenn að þurfa ekki að fara blindandi til veiða, en vita það fyrirfram, hvar síldina er að finna og hvar hún er ekki. Og ég vil benda á það, að það er engu síður gagn í þeim neikvæðu upplýsingum en hinum jákvæðu.

Hv. þm. Ak. hélt því fram í ræðu sinni um daginn, og byggði enda ræðu sína og röksemdir á því, að það hefði komið í ljós, að síldarleitin kæmi ekki að neinu gagni. Tók hann þetta hvað eftir annað fram, og aðrir hv. þm. hafa orðið til að taka þetta upp eftir honum sem óræka niðurstöðu af þessari viðleitni. Ég hefi hér fyrir framan mig umsagnir þriggja manna um þetta efni, sem ég skal leyfa mér að lesa hér upp, og þær umsagnir stinga mjög í stúf við álit hv. þm. Ak. á þessu máli, enda geri ég ekki ráð fyrir því, að þessi hv. þm. hafi einu sinni lagt á sig það ómak að fara upp í loftið til þess að kynna sér, hvernig fluginu er háttað og skapa sér rökstudda skoðun á gagnsemi þessara hluta. Einn þessara manna, sem hér er um að ræða, er Geir Sigurðsson fyrrv. skipstjóri, alþekktur og gætinn maður. Honum farast svo orð:

„Álit mitt er, að hægt sé að ákveða síldargöngur úr flugvél, ef flogið er hæfilega hátt, og má þó vera, að misjafnlega sjáist til síldarinnar, eftir því, hvernig veður er, en vafalaust tel ég, að uppivöður sjáist greinilega, og virðist mér nokkuð auðvelt að ákveða stærð þeirra, því að þar er sjórinn miklu dekkri. Það er auðvitað ekki hægt að slá neinu föstu í þessu efni eftir einstakt flug, en verði þessum athugunum haldið áfram, sem ég tel sjálfsagt, mun allt þetta koma betur í ljós með reynslunni.

Loftur Bjarnason, útgerðarmaður í Hafnarfirði, lætur svo um mælt um þetta:

„Eftir þetta flug er það sannfæring mín, að heppilegt muni vera að nota flugvélar til að athuga síldargöngur og leiðbeina fiskimönnum við veiðar. Skal það sérstaklega tekið fram, að engu síður er það áríðandi að geta ákveðið á vissum flóum og fjörðum, að engin síld sé þar. Er það hagræði fyrir fiskimenn að þurfa ekki að leita langt á þá staði, er enga veiði er að fá“.

Þriðji maðurinn er Guðmundur Jónsson skipstjóri á Skallagrími, sem er einhver hinn mesti aflakóngur á landi hér. Er ólíklegt, að hann láti hafa eftir sér ummæli um veiðiskap, sem ekki eru byggð á fullri athugun og þekkingu, en honum farast svo orð:

„Ég er ekki í neinum vafa um það, að starf Súlunnar við síldveiðar hefir verið og verður til ómetanlegs gagns“.

Menn hafa óttazt það, og má telja eðlilegt, að gagnið af síldarleitinni mundi verða lítið vegna þess, hve flugið yrði stopult vegna veðráttunnar. Það er og að vísu rétt, að ekki verður flogið nema í sæmilega björtu veðri, en að því verður að gæta, að hér er um sumarmánuðina að ræða, og þá er venjulegast stillt og gott veður, enda hefir niðurstaðan um starf Súlunnar orðið sú, að hún hefir getað flogið hverja tvo daga af þremur yfir veiðisvæðið og haft fullt skyggni til að ákveða, hvar síldin væri og hvar ekki.

Ég hefi svo ekki fleiri orð um þetta, en vildi láta þetta, sem ég hefi sagt, koma fram, áður en til atkv. verður gengið um frv. Og ég verð að bæta því við, að ég tel illa farið, ef nú verður felld niður þessi litla þátttaka síldarútvegsins fyrir þá beinu þjónustu, sem flugið hefir látið honum í té, því að ég geri ekki ráð fyrir, að hér verði á næstunni aftur tekið upp síldarflug, ef það fellur niður nú, eins og víst mun verða, ef þetta frv. nær fram að ganga. Ég viðurkenni fyllilega þá erfiðleika, sem síldarútvegurinn á nú við að etja, eins og aðrar atvinnugreinar, en mér er hinsvegar líka ljóst, að fyrir hverja þjónustu, sem atvinnuvegunum er látin í té, verður að koma einhver þátttaka af þeirra hálfu. Og hér er einmitt um að ræða slíka þátttöku af hálfu síldarútvegsins fyrir veitta þjónustu.