30.04.1932
Neðri deild: 64. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1677 í B-deild Alþingistíðinda. (1724)

217. mál, flugmálasjóður Íslands

Frsm. minni hl. (Guðbrandur Ísberg):

Mér þykir leitt, hve hv. þm. Dal. hefir fylgzt illa með umr. um þetta mál við 2. umr. þess, því annars hefði hann ekki rang fært orð mín eins herfilega og hann gerði.

Ég vil byrja með því að víkja nokkrum orðum að því, sem hv. þm. Dal. sagði út af hinum fyrstu tilraunum með bifreiðar hér á landi. Er það rétt, að Magnús á Grund gerði fyrstu tilraunina með bifreið fyrir norðan, en sú tilraun misheppnaðist, af því að öll skilyrði til þess að tilraunin gæti heppnazt, vantaði, bæði vegi og nothæfa gerð bifreiða. Önnur tilraunin, sem hér var gerð með bifreið, var sú, sem Thomsen gerði hér í Reykjavík, og mistókst hún einnig, og hefði þó als vísu helzt mátt búast við því, að hægt hefði verið að þrælast í bifreið um göturnar hér í Reykjavík, þó að ekki væru þær þá orðnar malbikaðar. Þessi er sagan um tvær ótímabærar tilraunir með bifreiðar hér á landi. Það er ekki hægt að bera saman bila og flugvélar. Bílflutningarnir eru nauðsynlegir, og eru bifreiðarnar aðallega notaðar til flutninga á þungavöru, en flugvélarnar eru eingöngu notaðar til að flytja póst og farþega, enda má segja, að þær séu víðast fremur til sports en gagns. Það ætti því að liggja í augum uppi öllum heilskyggnum mönnum, að hér á landi eru litil skilyrði fyrir flugferðir, a. m. k. í nánustu framtíð, og af þeim ástæðum verður heldur enginn samanburður gerður á þessum tveim farartækjum, að því er til okkar tekur.

Þá gat hv. þm. Dal. þess til, að ég mundi aldrei hafa komið upp í flugvél, og bæri því ekkert skynbragð á þessa hluti, en ég get frætt hv. þm. því, að ég hefi einmitt flogið, og skal ég ekki neita því, að ég hafði gaman af, en það var heldur ekki nema gamanið. Var ég að vísu ekki nema hálftíma á leiðinni, í stað þess að vera 5 tíma með skipi, en ferðin var líka fjórum sinnum dýrari, og sá tími, sem mér þannig sparaðist, var ekki 15 kr. virði fyrir mig. Ég veit, að fleiri en ég einn líta svo á, að flugið hér á landi hafi verið fremur til skemmtunar en gagns, líkt og þegar menn fara í bíó eða í leikhúsið.

Hv. þm. reyndi að snúa út út orðum mínum og vildi fá það út út þeim, að ég hefði lagt á móti flugi almennt, og taldi hann, að ég hefði getað sparað mér það, sem ég hefði sagt almennt um flugsamgöngur, því að þær kæmu, hvort svo sem mér líkaði betur eða miður. Nú talaði ég að kalla eingöngu um síldarflugið og sagði sem satt er, að það hefir reynzt gagnslaust að dómi þeirra, sem flugsins eiga að njóta og bezt skyn bera á þessa hluti. Ég get að vísu ekki hampað hér vottorðum álíka og þeim, sem snöpuð hafa verið saman af flugfélaginu hjá einstökum mönnum, sem hafa látið fá sig til að gefa slík vottorð, og hv. þm. Dal. síðan er sendur með hér inn í þingið, sýnilega af því, að nú á að beita þeim vopnum, sem notuð verða, en ég ætla þó, að ég hafi ekki færri á bak við minn málstað í þessu máli en hv. þm. Dal. á bak við sinn málstað, þrátt fyrir öll vottorðin. Það er með öllu rangt, að ég hafi lagt á móti flugferðum almennt eða talið þær einskis virði, því að ég talaði eingöngu um síldarflugið, en ég vil segja þeim mönnum það, sem vilja offra einhverju til þess að koma hér upp flugferðum, að sú fórn verður að koma niður á hinum sameiginlega sjóði þjóðarinnar, en ekki sem skattur á einstaka atvinnurekendur. Síldarfluginu var óbeðið þrengt upp á síldarútgerðarmenn, og það reyndist gagnslaust, og heimta þeir því, að það sé afnumið. (JónasÞ: Hver rök hefir hv. þm. fyrir þessu?). Eins og ég áður sagði, byggi ég þetta á áliti þeirra manna, sem síldarflugsins eiga að njóta. Hefir þetta hvað eftir annað komið fram á fundum norðlenzkra útgerðarmanna, og tala ég fyrir þeirra munn í þessu máli, þó að ég að vísu hafi engar beinar skjalfestar yfirlýsingar frá þeim máli mínu til sönnunar. Norðlenzkir útgerðarmenn krefjast þess, að þessum nauðungarskatti sé létt af heim, og þeir munu taka til sinna ráða, ef Alþingi daufheyrist við þeim sanngirniskröfum.

Ég vil gjarnan leggja út í það að endurtaka ræðu mína frá 2. umr., og það, sem ég hefi tekið upp, hefi ég tekið upp til leiðbeiningar fyrir hv. þm. Dal., sem ekkert viðist hafa heyrt eða skilið. (BJ: Það er vissara að endurtaka ræðuna). Víst virðist full þörf á því, en það er eins og það þýðir ekki að flytja þeim mönnum rök í þessu máli, sem málinu eru fjandsamlegir og ekki vilja lita á það með sanngirni.

Það er rétt hjá hv. þm. Dal., að síldarskatturinn nam ekki nema ca. 50 þús. kr, síðastl. ár, en hann hefði getað orðið 70 þús. kr., eins og segir í grg., ef síldarleitin hefði verið framkvæmd svo sem lög stöðu til, en henni var aðeins haldið uppi í tvo mánuði, í stað þriggja, sem tilskilið er í lögunum. Nú veiddust samtals 700 þús. tn. og mál af síld yfir veiðitímann, en skatturinn nemur 10 aur. á tn. og mál, svo að hann hefði numið alls 70 þús. kr., ef síldarleitin hefði verið framkvæmd allan tímann, en um það var svikizt, og af þeim ásæðum varð skatturinn ekki nema 50 þús. kr.

Hv. þm. Dal. skýrði frá því, að árið 1930 hefðu verið farin 33 síldarflug, en Siglfirðingum hefði ekki þótt það ómaksins vert að birta fregnirnar. (JónasÞ: Það var svikizt um það). Og ástæðan var vitanlega sú, að útgerðarmenn létu sig einu gilda um fregnirnar, og töldu enda, að ef þeir hefðu verið þau flón að fara eftir þeim, mundu þeir beinlínis hafa beðið tjón af því. Þetta liggur og í augum uppi, því að þótt sjást kunni síldartorfa á einhverjum stað, er ekki þar með sagt, að hún sé kyrr á þeir sama stað, þegar skipin loks eru komin á vettvang. En það, sem einkum gerir þó síldarleitina óþarfa, er það, að á öllum miðum er krökkt af skipum, og fylgjast þau með í því, hvar síldina er að fá, og vanir skipstjórar vita það upp á hár, hvar síldarinnar er að leita, og þurfa engar leiðbeiningar í því efni. mér þykir rétt að geta þess í þessu sambandi, að haft er eftir einum starfsmanni flugfélagsins, að formaður þess hafi látið svo um mælt, að þar sem sæjust 5 torfur, væru a. m. k. 50 undir, og gerði því ekkert til, þótt puntað væri upp á fregnirnar í samræmi við það. Það er að vísu rétt, að þetta er ekki haft beint eftir formanni flugfélagsins, heldur í gegnum einn af undirmönnum hans, svo að ekki verður fullyrt, að formaðurinn hafi beinlínis lagt fyrir að ýkja fregnirnar, en líkurnar fyrir því, að hann hafi gert það, eru þó allsterkar.

Ég vil enda mál mitt að þessu sinni með því að endurtaka það, að norðlenzkir útgerðarmenn hafa hvað eftir annað gert ályktanir um það, að þeir telji, að síldarleitin hafi ekki komið að neinu gagni, og að þeir krefjist því þess, að síldarskatturinn verði numinn úr lögum, og ef þessir menn, sem síldarflugið á að vera gert fyrir, hafa ekkert í þessu máli að segja, veit ég ekki, til hverra málið kemur. Og ég fæ ekki skilið það, þótt tekizt hafi að fá þrjá menn úr hópi allra þeirra manna, er síldveiðar stunda, til þess að gefa síldarfluginu meðmæli samkv. beiðni, að vitnisburður þeirra eigi að vega meira í málinu en vitnisburður allra annara.