30.04.1932
Neðri deild: 64. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1693 í B-deild Alþingistíðinda. (1731)

217. mál, flugmálasjóður Íslands

Jón Auðunn Jónsson:

Mig undrar það, hve miklar umr. hafa orðið um þetta mál nú. Ég hélt, að heim hefði verið lokið í gær. Ég hélt, að allir myndu sjá, hve fáránlegt og fráleitt það er að ætla sér að halda uppi flugferðum hér á landi með tillagi frá örpíndum atvinnuvegi, sem ekki vill hafa síldarleit með flugvélum og telur sig ekkert gagn af loftferðum hafa fram yfir allan almenning. Ég er hlynntur því, ef hægt væri að halda uppi flugferðum hér á landi. En ég vil ekki taka peningana til þess úr vösum hinna verst stæðu allra illa stæðra, atvinnurekenda og verkamanna hér á landi. Við verðum eflaust að neita okkur um þessi gæði eins og svo mörg önnur, meðan ástandið er jafnerfitt og nú er, nema þá að hið erlenda flugfélag, sem var að semja við okkur í vetur, taki að sér ferðirnar. Það er eina vonin um, að hér verði haldið uppi flugferðum næsta sumar. Væri rétt að heimila nokkurt fé í fjárlögum til þess, en ekki að fara ránshendi í vasa þessa atvinnuvegar. Vona ég, að það verði ekki gert.