12.05.1932
Efri deild: 73. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1695 í B-deild Alþingistíðinda. (1741)

217. mál, flugmálasjóður Íslands

Frsm. (Jakob Möller) [óyfirl.]:

N. hefir ekki getað orðið sammála um afgreiðslu þessa máls. Við hv. 2. þm. Eyf. leggjum til, að frv. verði samþ., en hv. 2. þm. S.-M. leggur til, að það verði fellt.

Frv. fer fram á, að lögin um stofnun flugmálasjóðs séu afnumin og þar með af tekið það gjald, sem lagt hefir verið á síldarútveginn til flugmála og numið hefir 10 aurum af hverri tunnu síldar, sem söltuð hefir verið, og 10 aurum af hverju máli, sem til bræðslu hefir farið.

Frv. er fram borið vegna eindreginna óska svo að segja allra þeirra, er við síldveiðar fást. Því er haldið fram, að síldarleitin komi að sama sem engu gagni. Hinsvegar sé það mjög ósanngjarnt að skattleggja síldveiðarnar til að halda uppi almennum flugferðum og engin ástæða til að láta þann atvinnuveg einan bera þann kostnað.

Hvað sem segja má um flugferðir hér á landi og gagnsemi þeirra, þá verður að fallast á, að þetta sé rétt. Það er ósanngjarnt að skattleggja þennan atvinnuveg einan, þegar sýnt er, að hann hefir ekki frekar gagn af flugferðum en aðrir. Því er að vísu haldið fram, að síldarleit úr lofti geti orðið að einhverju gagni . En það er þó fyrst og fremst ennþá deilt um það. Það er talið, að ekki sé auðvelt að sjá úr flugvélum, hvaða torfur það eru, sem vaða, t. d. ekki gott að greina að ufsa og síld. Leiðbeiningarnar geti því orðið jafnvel til þess að gabba veiðimennina. Þegar skip eru heldur ekki á staðnum, getur síldin líka verið horfin aftur, þegar þau koma á vettvang. Annars mun það algengast, að skip sinna þessu lítt eða ekki.

En sem sagt, það er mjög eindregin krafa allra þeirra, er veiðarnar stunda, að þessi skattur sé felldur niður. Ég legg því til, að frv. verði samþ.