12.05.1932
Efri deild: 73. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1696 í B-deild Alþingistíðinda. (1742)

217. mál, flugmálasjóður Íslands

Ingvar Pálmason:

Ég hefi ekki getað fallizt á að samþ. frv. þetta. Það er þó ekki af þeirri ástæðu, að ég viðurkenni ekki, að flugskatturinn sé þungur. Það viðurkenni ég fyllilega. En til þess að létta sköttum af síldarútveginum tel ég ekki þessa leið þá einu heppilegu. Enn er ekki nægileg reynsla fengin um það, að hvaða gagni flugvélar geti komið við síldarleit. Ég sé heldur ekki ástæðu til að samþ. frv. nú, vegna þess, að í lögunum um stofnun flugmálasjóðs er svo fyrir mælt, að gjaldið skuli ekki innheimt nema síldarleitin fari fram. En það er nú nokkurnveginn vitað, að hún fer engin fram í ár. Það er því á engan hátt brýn nauðsyn að afnema lögin nú. Hefði ég viljað, að lögunum væri breytt svo, að skatturinn yrði lækkaður frá því, sem hann er nú, og fénu varið til stuðnings síldarútgerðinni með flugferðum á einn eða annan hátt, síldarleit og öðru. Þar sem og vitanlegt er, að skatturinn verður ekki innheimtur í ár, tel ég rétt, að þessu máli verði frestað nú, en tekið til athugunar á næsta þingi og l. þá breytt. En ekki geri ég þetta að kappsmáli, og snertir enda kjördæmi mitt lítið, á hvorn veginn málið fer, því að ekki er útlit fyrir, eins og ástandið er nú, að menn á Austurlandi muni hafa áhuga fyrir síldarleit. Ég tel þó ekki rétt af Alþingi að fella l. úr gildi nú og kveða þannig upp hann dóm í málinu, að síldarleit með flugvélum geti ekki komið útveginum að lið.