14.04.1932
Neðri deild: 51. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1699 í B-deild Alþingistíðinda. (1754)

288. mál, varnir gegn berklaveiki

Frsm. (Bergur Jónsson):

Þetta frv. er samið af skrifstofustjóranum í atvmrn. og flutt af allshn. skv. beiðni Sjúkrasamlags Rvíkur. Frv. fer fram á að fella niður skyldu ríkissjóðs til að endurgreiða sýslufélögunum þann hluta af 2 kr. gjaldinu, sem umfram verður 2/5 af berklavarnakostnaðinum þeirra vegna. Virðist ástæðulaust, að sum sýslufélög sleppi þannig að meira eða minna leyti við að greiða þetta 2 kr. gjald á hvern heimilisfastan mann vegna berklavarnanna, og enda réttmætast, að öll sýslufélög taki að sínu leyti þátt í útrýmingu þessa þjóðarböls án tillits til þess, hvort sýkin er mikil í héraðinu hvert einstakt ár. Í öðru lagi fer frv. fram á það, aðfelld verði niður skylda sjúkrasamlaganna til að greiða sérstakt gjald vegna berklaveikra sjúklinga, sem í þeim eru, enda er samlögunum að hinu leytinu jafnframt gert að greiða til berklavarnanna fyrir meðlimi sína skv. 4. mgr. 14. gr. berklavarnalaganna. Er þetta þannig tvöfaldur skattur, sem lagður er á sjúkrasamlögin í þessu skyni, og sjálfsagt að fella hann niður, auk þess sem það er nauðsynlegt til þess, að samlögin verði ekki féþrota og verði af þeim ástæðum e. t. v. að leggja niður hina mjög svo þjóðhöllu starfsemi sína með öllu. Einkum á þó Sjúkrasamlag Rvíkur nú í vök að verjast fjárhagslega. Í samræmi við þetta er ennfremur farið fram á það, að allur áfallinn, en ógreiddur berklavarnaskattur sjúkrasamlaganna verði felldur niður.