26.04.1932
Neðri deild: 60. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1700 í B-deild Alþingistíðinda. (1758)

288. mál, varnir gegn berklaveiki

Þorleifur Jónsson:

Af því að ég og hv. þm. V.-Sk. eigum hér brtt. á þskj. 384, vildi ég leyfa mér að fara nokkrum orðum um hana í sambandi við þetta mál.

Frv. þetta var upphaflega sent allshn. frá Sjúkrasamlagi Rvíkur, og var aðaltilgangur þess að létta berklavarnaskattinum af sjúkrasamlögunum. Nú er svo máli varið, að sjúkrasamlögin eru mjög illa stödd, sérstaklega þó Sjúkrasamlag Rvíkur, sem greinilegast er tekið fram í aths. þeirri, er fylgir 2. gr. frv., sem ég vil með leyfi hæstv. forseta lesa upp: „Sjúkrasamlög eiga fullt í fangi með að standast útgjöld sín og berjast í bökkum, þó þau þurfi ekki sérstaklega að greiða fyrir þá samlagsmenn, sem veikjast af berklaveiki. Auk þess er sú upphæð, sem þeim ber að greiða, mjög lítil, borin saman við hina miklu fúlgu til berklavarnanna, en fyrir sjúkrasamlögin sjálf alltilfinnanleg. Sjúkrasamlag Rvíkur er nú sem stendur í hinum mestu vandræðum, og verður að gera aðrar og frekari breytingar á löggjöfinni um sjúkrasamlög, ef það á að geta staðizt. Að öðrum kosti mun þetta þarfa fyrirtæki að öllum líkindum verða að leggjast niður og jafnvel verða gjaldþrota, og mun þó öllum ljóst, því líkt gagn slíkt sjúkrasamlag vinnur, þar sem það oft mun forða fólki frá að lenda á sveitinni vegna veikinda og á þann hátt vafalaust spara bæði bæjar- og ríkissjóði bein fjárframlög til þurfalinga vegna veikinda þeirra. Þessi burtfelling berklavarnagjalda samlaganna myndi m. a. verða til þess að styðja samlögin í áframhaldandi starfsemi þeirra til almenningsheilla“. Í þessari aths. við 2. gr. er hvergi vikið að því, að sjúkrasamlögin heimti, að berklavarnalögunum sé breytt að öðru leyti en því, sem er þeim í hag sjálfum, og um það er n. á einu máli. Hún telur sjálfsagt að rétta samlögunum hjálparhönd með því að fella burt skyldukostnað þeirra við berklavarnirnar. En í frv. þessu er einnig ákvæði um að breyta fyrirmæli, sem gilt hefir um tillög sýslnanna vegna berklavarnanna. Í lögum frá 1927 er svo fyrir mælt, að hvert lögsagnarumdæmi greiði til ríkissjóðs 2 kr. fyrir hvern heimilisfastan mann innan lögsagnarumdæmisins. Gjald þetta gengur svo upp í berklavarnakostnaðinn. En svo eru aftur fyrirmæli um það, að þegar gjald þetta fer fram úr 2/5 kostnaðar við berklavarnir vegna sjúklinga þeirra, er heimilisfastir voru í héraðinu, þá skuli endurgreiða úr ríkissjóði það, sem umfram verður. Þessa endurgreiðsluskyldu ríkissjóðs fer frv. fram á að fella niður með öllu. fá héruðin því samkv. þessu ekkert endurgreitt, hversu lítinn berklavarnakostnað, sem þau hafa. Þessu ákvæði er ég mótfallinn, enda þótt og fylgi frv. að öðru leyti, og þess vegna höfum við hv. þm. V.-Sk. borið fram brtt. okkar. Við viljum láta þetta standa eins og það er í lögunum, því að við teljum það ekkert skylt aðaltilgangi frv., sem sé að hjálpa sjúkrasamlögunum. Því er haldið fram í grg. frv., að það sé mjög mikið verk fyrir stjórnarráðið að skipta berklakostnaðinum niður og finna út hluta hvers lögsagnarumdæmis. Þetta held ég, að sé aðeins viðbára, því að óhætt mun að fullyrða, að stjórnarráðið fær mörg mál, sem erfiðara er að leysa en þetta, enda hefir reynslan sýnt, að því hefir tekizt mætavel að reikna þetta út. Ég hefi fengið skýrslur fyrir arin 1928–1929, þar sem þetta er reiknað út, og á þeim má sjá, hvaða sýslur hafa fengið endurgreiðslur. Þær eru ekki margar, aðeins fjórar annað árið, en fimm hitt. Skýrslur fyrir árin 1930–1931 eru ekki fullgerðar enn, svo miða verður við skýrslurnar fyrir árin 1928-1929. Árið 1928 hafa sýslurnar fengið endurgreitt sem hér segir:

Snæfellsnessýsla ........... kr. 2853,26

Seyðisfjörður .............. – 987,48

Austur-Skaftafellssýsla ..... - 2213,20

Vestur-Skaftafellssýsla ..... — 795,30

Rangárvallasýsla .......... - 3348,00

Árið 1929 hafa 4 sýslur fengið endurgreitt sem hér segir:

Snæfellsnessýsla .......... kr. 4124,01

Austur-Skaftafellsýsla ..... - 2258,00

Vestur-Skaftafellsýsla ...... - 1465,60

Gullbringu- og Kjósarsýsla . - 789,36

Skaftafellsýslurnar báðar og Snæfellsnessýsla hafa fengið endurborgað bæði þessi ár. Seyðisfjörður og Rangárvallasýsla annað árið, en Gullbringu- og Kjósarsýsla hitt. Eftir þessu er auðsætt, að það eru áraskipti að þessu. Ég býst því t. d. alls ekki við, að Austur-Skaftafellssýsla fái þessa endurgreiðslu í ár, því að nú hefir hún a. m. k. tvo berklasjúklinga. Er það því alls ekki af neinni hreppapólitík fyrir mér, að ég vil, að ákvæði þetta um endurgreiðslu haldist í lögunum. Reynslan mun verða sú, að þetta skiptist á milli sýslnanna. Ein hefir fleiri sjúklinga þetta árið, en önnur hitt.

Það er líka á fleira að líta þessu viðvíkjandi. Ég get t. d. vel búizt við, að í þeim héruðum, sem fjærst liggja heilsuhælunum, sé sjúklingunum ekki sópað eins á hælin eins og úr þeim héruðum, sem nær þeim liggja. Hin fjarlægari héruð munu því, oft sitja með þá sjúklinga sína heima, sem ekki ganga með smitandi berkla, og spara því ríkissjóði í með því mikil útgjöld.

Þá hefir því verið haldið fram, að það muni sýslurnar mjög litlu, þó að þær fái þessa endurgreiðslu. En muni það sýslurnar litlu, þá munar það ríkissjóðinn ekki heldur miklu að halda þessu fyrir sýslunum. Ég vænti því, að hv. d. sjái það, að það er engin ástæða til þess að breyta þessu ákvæði berklavarnalaganna nú. Ennfremur má minna á það, að þessi 2 kr. skattur er nefskattur, sem kemur jafnt niður á ungbörnin í vöggunni og fullorðna menn fullhrausta og vel vinnandi, og öll sýslufélög verða að greiða, jafnt, miðað við fólksfjölda, hvort sem þau eru vel eða illa stæð. Að þessu leyti er gjald þetta eigi sérstaklega sanngjarnt eða til fyrirmyndar. Er því sízt vanþörf að draga úr ákvæðum þess, eins og gert er með endurgreiðsluákvæðinu.

Skal ég svo ekki hafa fleiri orð um þetta að sinni, því ég veit, að hv. dm. skilja, hvað hér er átt við, en ég vænti þess, að brtt. okkar verði samþ. og frv. sömuleiðis, vegna vandræða sjúkrasamlaganna.