02.05.1932
Neðri deild: 65. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1707 í B-deild Alþingistíðinda. (1767)

288. mál, varnir gegn berklaveiki

Vilmundur Jónsson:

Samkv. síðari brtt. minni er það skýrt fram tekið, að stjórnarráðið eigi að semja við sjúkrahúsin, þau, sem til þess teljast hæf að taka á móti berklasjúklingum. Ég býst við, að um það mat á sjúkrahúsunum verði að hlíta dómi ríkisstj. En ég geri jafnframt ráð fyrir, að ekki sé mikil ástæða til að óttast hlutdrægni í því efni. Það er yfirleitt ekki svo mikill munur á sjúkrahúsunum, ekki þeim stærri a. m. k. Hinsvegar minnir till. á, að eigi skuli semja við sjúkrahús, sem eru verulega ófullkomin, illa sett eða innréttuð, svo að ekki sé hægt að einangra þar sjúklinga o. s. frv. Þó er gert ráð fyrir undanþágu frá þessu um stundarsakir, meðan sjúklingurinn getur ekki fengið vist á fullkomnara sjúkrahúsi. Að sjálfsögðu verður fyrst og fremst samið við þau sjúkrahús, sem hafa öll tæki, þ. á m. ljóslækningatæki, og bezt væri, ef hægt væri að semja um eitt ákveðið daggjald fyrir allt, sem sjúklingnum er látið í té, vist, læknishjálp, lyf og ljóslækningar. Í 14. gr., eins og hún nú er, stendur, að greiða megi úr ríkissjóði lækningakostnað fyrir þá berklasjúklinga, sem dvelja utan sjúkrahúss, þar með taldar ljóslækningar. Till. mín, sem hér liggur fyrir, hreyfir ekki við því ákvæði, en sjálfsagt er að gera jafnframt samninga um þá læknishjálp.