13.05.1932
Efri deild: 74. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1709 í B-deild Alþingistíðinda. (1777)

288. mál, varnir gegn berklaveiki

Frsm. (Jón Jónsson):

Þetta frv. felur í sér þá breyt. á berklavarnál., að leysa sjúkrasamlögin undan þeirri skyldu að greiða ákveðið tillag upp í berklavarnakostnað meðlima þeirra, en samkv. gildandi l. eiga samlögin að greiða 2/5 af meðlagskostnaði samlagsmanna, allt hvað þetta fer ekki fram úr 2 kr. á dag. Hefir þessi kvöð reynzt svo þung á sjúkrasamlögunum, að þau hafa ekki getað innt hana af hendi, og eiga þau allt ógreitt, sem þeim hefir borið að greiða í þessu efni. Hinsvegar verður það varla talið sanngjarnt að hegna svo þeim mönnum, sem sýnt hafa þann áhuga fyrir mannúðarmálum, að þeir hafa stofnað með sér sjúkrasamlag, að láta þá borga meira en aðra landsmenn vegna berklavarnanna, en eins og kunnugt er sleppa sýslurnar með að greiða 2 kr. fyrir hvern héraðsbúa. Taldi n. því sanngjarnt að fella þessi ákvæði gildandi 1. niður, enda þýðingarlaust að láta þau standa, þar sem sjúkrasamlögin geta ekki innt þessa kvöð af höndum, eins og ég áður sagði. á einstökum árum hefir þetta numið frá 4–10 þús. kr. fyrir sjúkrasamlögin, séu að hér er ekki mikils í misst fyrir ríkissjóð, þó að samlögin muni hinsvegar mikið um þetta.

Hin breyt. frv. á gildandi l. viðvíkjandi sjúkrasamlögunum er bein afleiðing af þessu, og er sú, að gefa eftir áfallinn berklavarnaskatt sjúkrasamlaganna. Hafa samlögin ekki getað greitt þennan skatt, eins og ég áður sagði, og þess vegna rétt að gefa hann upp, enda ekki um annað að gera.

Til þess að vega upp á móti því tapi, sem ríkissjóður verður fyrir vegna þessara breyt. á berklavarnál., er farið fram á það með frv., að öllum sýslufélögum sé gert að skyldu að greiða sama gjald vegna berklavarnanna, 2 kr. á hvern sýslubúa. Samkv. gildandi 1. er þetta gjald bundin því skilyrði, að það fari ekki fram úr 2/5 kostnaðar við berklavarnirnar, og ef sýslufélag hefir fyrir engum berklasjúkling að sjá, þarf það ekki heldur að borga neitt. Sýnist lítil ástæða til að vera að ívilna svo þeim sýslufélögum, sem hafa fáa sjúklinga, því að þau ættu að vera betur sett en hin, sem fyrir mörgum sjúklingum hafa að sjá, og þess vegna að vera færari um að leggja eitthvað af mörkum í þessum efnum.

Loks hefir frv. að geyma skýrari ákvæði um styrkhæfi berklasjúklinga en eru í gildandi l.

Fleiri orð þykist ég svo ekki þurfa að hafa fyrir þessu máli fyrir hönd n. N. telur þær breyt., sem í frv. felast, sumpart réttmætar og sumpart til bóta, og ræður n. hv. d. eindregið til að samþ. frv.