24.02.1932
Neðri deild: 9. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1715 í B-deild Alþingistíðinda. (1784)

35. mál, lækningaleyfi

Pétur Ottesen:

Eins og hv. flm. tók fram, þá eru hér í þessu frv. gerðar víðtækari ráðstafanir gagnvart læknunum og störfum þeirra en áður eru til í ísl. lögum. Á ég þar við l. um þetta efni frá 1911.

Ég býst nú við, að það sé fullkomin þörf á því að endurskoða löggjöfina að þessu leyti og setja þar um fyllri lagaákvæði en nú eru til. Því það er svo um lækningastarfsemina, að hún hefir tekið miklum framförum. Það eru nú komnir sérfræðingar í ýmsum greinum, og mun vera full þörf á að setja nánari ákvæði um þá í lög en nú eru til.

Eins og hv. flm. tók fram, er hér gerð sú breyt. frá gömlu l., að allar smáskammtalækningar á nú að banna. En það orð hefir hingað til verið notað um það, er ólærðir menn hafa fengizt við meðalalækningar, þó hv. flm. hafi þótt smekklegra að uppnefna þá og kalla þá skottulækna og vilji taka upp í löggjöfina þetta orð, sem menn nota, er þeir tala í niðrandi merkingu um þessar meðalalækningar ólærðra manna.

Í l. frá 1911 sé ég ekki annað en að smáskammtalækningar séu fullkomlega heimilaðar. Enda er það kunnugt, að smáskammtalæknar hafa síðan óáreittir fengið að stunda lækningar sínar við hliðina á lærðum læknum. En samkv. frv. skilst mér, að slíkar lækningar séu nú skornar niður, og smáskammtalæknarnir megi nú ekki framar fást við þessar lækningar. Og þar með er líka landsfólkið svipt aðstoð og hjálp þessara manna, sem það hefir notið um langan aldur. Og það þarf ekki um það að deila, að lækningar þessara manna hafa í mörgum tilfellum komið að miklu liði. Það má nú reyndar segja, að í þessu efni sé orðin mjög mikil breyt. frá því, sem áður var, því nú eru læknar orðnir miklu fleiri en var, og þó er það svo enn úti um hinar dreifðu byggðir landsins, að þar eru eiginlega ekki læknar í öllum héraðslæknisembættum, svo að á hinum afskekktustu stöðum standa þau sum auð, og þeir menn, sem þar búa, eru því ekki betur settir, þótt í héraðinu eigi að heita að vera til héraðslæknisembætti, sem er autt, eða þeim sé vísað til héraðslæknisins í öðru héraðslæknisembætti, sem þeir svo ekki ná til, þegar til þarf að taka. Þrátt fyrir alla læknafjölgunina er það því svo, að enn er ekki betur séð fyrir þörfum manna sumstaðar í því efni en það, að töluvert verksvið getur verið fyrir náttúrugreinda menn, sem hafa kynnt sér þessar meðalalækningar, svo það er alls ekki tímabært að banna þær algerlega með lögum. Ég held þess vegna, að hvað þetta snertir þá sé fullkomin ástæða fyrir þá hv. n., sem fær frv. til athugunar, að taka rækilega til athugunar þetta algerða bann á smáskammtalækningum og breyta frv. svo, að ekki sé algert bann sett á þær. Því það er nú svo, með allri virðingu fyrir lærðu læknunum, að mér virðist, að í meðalalækningum slagi hinir töluvert upp í þá. Ég vil því biðja n., sem fær þetta mál, að taka þetta atriðii sérstaklega vel til athugunar.

Það eru nokkur fleiri atriði í frv., sem ástæða væri til að minnast á, en ég skal þó ekki fara langt út í það, enda er allmikill vandi á því fyrir leikmann, að gera skilgreining á svo lærðum hlutum, sem hér er um að ræða, og að tala um lækningar og slíkt. En mér skilst, að eftir 4. gr. frv. sé það lagt á vald landlæknis eins, hvort læknisefni, sem ekki hefir próf, geti í vissum tilfellum gegnt störfum embættislækna í landinu, í forföllum þeirra. Það er alkunnugt, að læknar þurfa stundum að hverfa frá embættum um stundarsakir, og þá er það nauðsynlegt að sjá fyrir því , að aðrir gegni embættunum á meðan. Hinsvegar getur það oft verið erfitt að fá fullkomlega lærða lækna, og hefir þá oft verið gripið til þess að fá stúdenta frá háskólanum til að gegna embættunum. nú getur það m. a. valdið því, að læknir verði að hverfa frá embætti sínu um hríð, að hann sé t. d. kosinn á þing, og þá getur verið, að hann eigi ekki kost á að fá nema læknisnema til að gegna embættinu á meðan. Mér finnst þá varhugavert að fela einum manni úrskurðarvald um það, hvort lækninum sé gert mögulegt að gegna þeirri köllun í alþjóðarþarfir, sem hann er kvaddur til, með því að veita honum heimild til að taka í sinn stað próflausan mann, svo hann komist burtu. Við höfum dæmi af því, að lækni nokkrum var fyrirmunað að sitja á þingi, af því að hann gat ekki útvegað lærðan lækni í sinn stað, en stjórnarvöldin neituðu honum um að fara til þings ella. Mér þykir því öruggara, að læknadeild háskólans fjalli um þetta með landlækni, en ekki hann einn, eins og 4. gr. frv. fer fram á.

Hv. flm. talaði um, að lagðar væru hömlur á auglýs., sem læknar kynnu að vilja beita sér til framdráttar, og er fatt nær sanni en að hömlur séu á þetta lagðar, því að samkv. 13. gr. frv. er læknum beinlínis bannað að auglýsa sig, nema þrisvar sinnum sé, og þá að því er virðist, aðeins þrisvar á æfinni. Finnst mér þetta ákvæði nokkuð strangt. Kann að vísu að vera, að þetta sé nóg þeim læknum, sem alla æfi sitja á sama stað, en ef læknir flytur sig um set oftar en þrem sinnum, er honum með þessu ákvæði frv. fyrirmunað að gera almenningi kunnan flutning sinn, sem og að auglýsa, að hann taki á móti sjúklingum á sínum nýja aðsetursstað, enda þótt hann að öðru leyti hafi fullt lækningaleyfi samkv. frv. Nær þetta vitanlega engri átt. — Þá er jafnframt í þessari gr. spornað við því, að skrifað sé í blóð eða tímarit um störf einstakra lækna og afrek, sem þeir kunna að vinna, og virðist þar eiga sama að gegna, hvort heldur sem um er að ræða afrek í vísindum eða í almennum læknisaðgerðum, og er tilgangurinn með þessu sá að koma í veg fyrir, að slíkt sé gert í auglýsingaskyni, enda gerir frv. ráð fyrir því; að stéttarbræður viðkomandi læknis reki aftur það, sem ofmælt kann að vera í slíkum greinum, ef fram koma eftir sem áður. nú er það alkunna, að fjöldi þeirra karla og kvenna, sem til læknis þurfa að leita, telur sér skylt að setja þakkarávarp í blöðin til læknis síns fyrir veitta hjálp. Oftast á hér hlut að máli fátækt fólk, sem læknarnir þess vegna eru vægir við í borgunarkröfum, og hefir þetta fólk þá tvöfalda ástæðu til að tjá lækni sínum þakkir sínar opinberlega, fyrst og fremst fyrir fengna lækning meina sinna, og í öðru lagi fyrir þá góðvild, sem læknirinn sýnir því með því að taka litla og jafnvel oft enga borgun fyrir aðgerð sína. Ef 12. gr. er tekin bókstaflega eftir orðanna hljóðan, er fólki með öllu meinað að birta slík þakkarávörp, og virðist satt að segja engin ástæða til þess liggja, að hið opinbera fari að gera ráðstafanir til að girða fyrir, að fram komi þakkarávörp fyrir velgerðir, sem einn eða annar kann að sýna náunganum. (MG: það er ekki frjálslegt). Nei, slíkt er í hæsta máta ófrjálslegt og tekur satt að segja engu tali.

Ákvæði 13. gr. eru mikil réttarbót frá því, sem nú er, þar sem þar er gert ráð fyrir, að hinum praktiserandi læknum sé sett sérstök gjaldskrá að fara eftir, svo sem embættislæknar verða að gera. Vitanlega verður að taka tillit til þess aðstöðumunar, sem er með þessum tveim flokkum lækna, þar sem embættislæknarnir hafa föst laun auk hinna sérstöku greiðslna, sem þeir taka af sjúklingunum fyrir hjálp sína, enda gerir og frv. ráð fyrir þessu. Þykist ég að vísu vita, að ágreiningur sé um þetta innan læknastéttarinnar, eins og hv. flm. og einnig tók fram, að væri, en ég held, að með þessu sé rétt spor stigið gagnvart almenningi, og enda nauðsynlegt. Hinsvegar felli ég mig ekki við þá leið, sem með frv. er farin til að ná þessu marki, þar sem verið er að smeygja því inn í löggjöfina, að hið opinbera semji við stéttarfélög. Hafa að vísu áður verið gerðar tilraunir í þessa átt, en þær hafa aldrei náð fram að ganga, og vildi ég beina því til þeirrar n., sem væntanlega fær þetta mál til meðferðar, að hún gjaldi fullan varhuga við þessu ákvæði frv. Liggur og betur við að fara aðra leið í þessu efni, og sú leið kenni m. a. s. fram í sjálfu frv., því að þar er gert ráð fyrir, að gjaldskráin sé sett með sama hætti sem er gjaldskrá héraðlækna, ef ekki verður samkomulag um gjaldskrana samkv. ákæðum gr. En ég tel mjög varhugavert að fara inn á þá braut í þessu efni, sem frv. markar, fyrst og fremst af þeim ástæðum, hvað þessi stéttarfélög virðast geta verið mörg innan læknastéttarinnar. Frv. talar um allskonar sérfræðinga, svo sem tannlækna, nuddara o. fl. o. fl., og mér virðist það ekki heppileg leið fyrir löggjöfina að fara út á þá krákustígu að semja við öll tilsvarandi stéttarfélög þessara sérfræðinga, t. d. væntanlegt verkamálaráð nuddaranna! Virðist mér ólíkt heppilegra að fara um þetta sömu leið sem farin er við ákvörðun gjaldskrár héraðslæknanna, en ef ekki sýndist nóg, að landlæknir og heilbrigðisstj. hefðu þetta með höndum; mætti jafnframt leita um það álits t. d. læknadeildar háskólans.

Þá vildi ég skora á þá n., sem frv. fær til meðferðar, að hún tæki til rækilegrar meðferðar ákvæði 16. gr. frv., en þar segir svo m. a., að öllum, sem hafa takmarkað lækningaleyfi, og jafnframt öllum þeim, sem ekkert lækningaleyfi hafa, sé bannað að taka til meðferðar sjúklinga með kynsjúkdóma, berklaveiki og aðra smitandi sjúkdóma, sem sótthiti fylgir, svo og sjúklinga með krabbamein o. s. frv. Ég veit að vísu ekki, hvað vakir fyrir hv. flm. með orðunum „að taka til meðferðar“, því að þar er um mjög teygjanlegt hugtak að ræða, en um sótthita er það vitanlegt, að hann fylgir oft t. d. kvefi, svo að ekki séu nefndir alvarlegri sjúkdómar, eins og t. d. lungnabólga, og verð ég að segja það að mér þykja firn mikil, að við skuli liggja tugthúsrefsing, ef ólærður maður gerir eitthvað til að draga úr þjáningum hitasóttarsjúklinga, t. d. með því að ráðleggja honum aspirín eða önnur kælandi meðul. Slík „húsráð“ eru oftast hendi næst, ef einhver verður veikur, enda jafnan til þeirra gripið, áður en til læknis hefir náðst, en samkv. frv. verða hverjir þeir húsbændur brotlegir við lögin, sem til slíkra aðgerða grípa vegna veikinda heimamanns síns. Slíkt nær auðvitað engri átt, enda sjálfsagt ekki meining hv. flm., en samkv. orðalagi frv. getur til þessa leitt.

Í 17. gr. er haldið áfram bannsöngnum yfir auglýsingastarfsemi Lækna og hér jafnframt lyfsala, og bannaðar allar auglýs. á lyfjum og lækningaáhöldum, sem og tilsvarandi auglýs. um lækningakraft drykkja og matvæla. Ég veit ekki, hvað segja á um annað eins ákvæði sem þetta. Samkv. því virðist vera bannað, að maður, sem t. d. selur nýmjólk eða matvæli, megi auglýsa, hversu mikill heilsukraftur fylgir þessum fæðuteg., t. d. hvað í þeim sé mikið af fjörvi o.s.frv. Yfirleitt virðast allar auglýs. vera bannaðar samkv. ákveðum þessarar gr, um allt það, sem hollt er fyrir mannlegan líkama að neyta. Ég held því, að nauðsynlegt sé að breyta orðalaginu á þessari gr., svo að ekki verði dregnar út úr henni svo víðtækar takmarkanir á auglýs. í þessu efni. Það nær t. d. engri átt að banna aulýs. á þorskalýsi, sem mönnum er mjög hollt að neyta, einkum börnum og unglingum, eins og væri gert að orðalagi gr. óbreyttu. Yfirleitt er mjög varhugavert að setja slíkar takmarkanir sem þessar. Fólkinu er bezt að fá sem beztar unulýsingar um það, hveriar fæðuteg. séu hollastar, og ég held þvert á móti, að læknarnir ættu að skoða það skyldu sína að nota hvert tækifæri til að auglýsa þetta fyrir fólkinu. Er það sérstaklega einn af læknum landsins, sem skilið hefir köllun sína að þessu leyti, Jónas Kristjánsson fyrrv. alþm. Hefir hann verið ótrauður, bæði í ræðu og riti, til að fræða almenning í þessum efnum, og sé honum þökk fyrir. Ég sé, að nú er að vakna sterk alda til að vinna að því betur en verið hefir, að landsmenn noti meira þær afurðir, sem framleiddar eru í landinu sjálfu, en nú gera þeir. Eitthvert áþreifanlegasta sporið í þessa átt er stigið með ísl. vikunni svokölluðu, sem hér á að hefjast 1. apríl næstk., og er þá gert ráð fyrir því, að í hverjum búðarglugga og alstaðar annarsstaðar á mannamótum verði brýnt fyrir mönnum, hve hollar okkar innlendu afurðir eru, auk þess sem sýnt verði fram á það, því lík þjóðhagsleg nauðsyn okkur er sem öðrum þjóðum að búa að því, sem okkar er. Þetta sýnir ljóslega, að ekki nær nokkurri átt að setja hömlur við því að l. að það sé predikað fyrir fólkinu, hversu góðar okkar ísl. vörur eru, heldur á þvert á móti að hvetja fólkið til að nota þær sem mest. — Í niðurlagi þessarar gr. (17. gr.) er gerð sú undantekning frá þessu auglýsingabanni, að birta megi slíkar auglýs., ef rækilega er um það búið, að þær berist ekki fyrir augu nema læknanna einna. Skal ég ekki neita því, að Læknunum sé nauðsynlegt að kunna skil á þessum hlutum, en ég fæ ekki séð, hver nauður rekur til þess að fara með þetta á laun fyrir öllum almenningi. Slíkt minnir á það, þegar kaþólskir eru að predika á latínu fyrir ólatínulærðum almenningi, enda vafalaust af svipuðum rótum runnið. Sé ég ekki, að nauðsynlegt að að halda þessum auglýs. svo stranglega leyndum fyrir öllum almenningi, sem þetta snertir vissulega ekki síður en læknana sjálfa.

Ég hefi þá bent á þau fjögur atriði frv., sem ég einkum tel varhugaverð, og leyfi mér að vænta þess, að n., sem málið fær til meðferðar, geti tekið þessar aths. mínar til greina.

Að lokum vil ég svo drepa nokkrum orðum á ákvæði 20. gr. Þar ræðir um missi lækningaleyfis, og er allt vald í þeim efnum lagt í hendur landlæknis og læknadeildar háskólans. Er þetta að því leyti breyt. frá núg. l, í þessu efni, að samkv. núg. l. getur hlutaðeigandi læknir skotið málum sínum til dómstólanna. en er sviptur heim rétti samkv. frv. þykist ég vita, að þetta sé gert af því, að svo sé litið á; að sérfræðinga þurfi til að dæma um í slíkum málum, en ég vil þó benda á það, að afbrot læknis geta legið utan þessa sérfræðisviðs og verið almenns eðlis, og verð því að telja vafasamt, að rétt sé að sleppa því ákvæði niður, að læknir megi skjóta málum sínum til dómstólanna, ef svo stendur á, og tel það enda sjálfsagt, að þessi réttur sé ekki af honum tekinn. Vil ég beina því til n., að hún einnig taki þetta til athugunar, og vil svo enda mál mitt að þessu sinni eins og ég byrjaði, að ég skil ekki, að það fáist samþ. að skera allar smáskammtalækningar niður við trog að svo komnu.