24.02.1932
Neðri deild: 9. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1722 í B-deild Alþingistíðinda. (1785)

35. mál, lækningaleyfi

Sveinn Ólafsson:

Hv. þm. Borgf. hefir tekið margt það fram, sem ég vildi sagt hafa í þessu máli, en ég mun reyna að forðast endurtekningar á því.

Margir munu líta svo á, að í þessu frv. felist víðtækar réttarbætur og öryggisráðstafanir fyrir sjúka menn, en ég verð að lýsa efa mínum um, að svo sé. Ég er hræddur við, að ýmsum ákvæðum frv. kunni að verða misbeitt, t. d. ákvæðum 1. gr. um, að enginn megi fást við lækningar nema lækningaleyfi hafi. Hún er að vísu hliðstæð 1. gr. l. nr. 38 frá 1911, nema að því leyti, að heimilaðar eru smáskammtalækningar eftir 1. gr. þeirra l., eins og hv. þm. Borgf. réttilega tók fram. Er þar svo til orða tekið, að „rétt til að fást við lækningar, áður en smáskammtalækningar, hafi hér á landi þeir einir, er staðizt hafa próf í læknaskólanum í Reykjavík eða Háskóla Íslands“, og má að vísu segja, að þetta sé óeðlilegt ákvæði, þar sem svo hagar til sem hér, að víða verður að fást við lækningar af leikmönnum einum, þegar lærðir læknar eru ekki við hendina eða sérstaklega erfitt að ná til þeirra. Af margþættri og nokkuð langri lífsreynslu hefi ég komizt að þeirri skoðun, að ekki séu aðrir viðhlítandi læknar en þeir, sem það eru fyrir meðfædda innri hvöt og tilhneigingu til að hjálpa — læknar af guðs náð, ef svo mætti að orði kveða. En ýmsum þeim, sem við lækningar fást, er ekki svo farið, enda óteljandi dæmi þess, að hinum svo nefndu lærðu læknum hefir oft hrapallega mistekizt í lækningastarfinu. Og ætti ég að telja upp öll þau sorglegu atvik, sem ég hefi horft á og hafa sannfært mig um mistök og fánýti sumra þessara manna, yrði sá lestur bæði hryggilegur og óskemmtilegur. Ef fara ætti nú að lögfesta það, að þeir einir megi fást við lækningar, sem lesið hafa að nafni til læknisfræði og slampazt einhvern veginn gegnum próf, væri þar með útilokað, að leikmenn, sem af hneigð og innri hvöt til hjalpar vildu liðsinna sjúkum, mættu gera það; er ég ekki í minnsta vafa um það, að slíkt mundi til margs ills leiða. Ég vil því leggja þeirri n., sem fær þetta mál til meðferðar, ríkt á hjarta að varast öll þau orðatiltæki í frv., sem geta gefið tilefni til misbeitingar á ákvæðum þess.

Ég vil taka undir það með hv. þm. Borgf., að hér á landi hagar víða svo til, að erfitt er að ná til hinna skipuðu lækna, og því oft og tíðum óumflýjanlegt að leita liðsinnis reyndra og nærfærinna manna um hjálp og aðhlynningu við sjúklinga, enda ekki fátítt, að hinir lögskipuðu læknar eru lélegri en skottulæknarnir, sem svo eru nefndir. Það nær engri átt að setja ákvæði í l. um það, að aðrir en lærðir læknar megi ekki, hvernig sem á stendur, fást við læknisstörf. Ég hefi verið viðstaddur svo marga sorglega atburði, þar sem glapræði og fákænska svo nefndra lærða lækna hefir ýmist valdið stórtjóni eða riðið sjúklingnum að fullu, að ég hika ekki við að telja suma þá, sem skottulæknisnafnið hafa hlotið, þeim stórum fremri, enda sumir héraðslæknar fyrr og nú óreglumenn og héruðunum hrein og bein plága.

Ég fer svo ekki fleiri orðum um þetta að sinni; býst líka við, að frv. sjáist hér aftur, og mun þá tækifæri til að fara frekar út í það, en eins og frv. nú er, mun ég ekki geta greitt því atkv., ekki einu sinni til 2. umr.