24.02.1932
Neðri deild: 9. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1723 í B-deild Alþingistíðinda. (1786)

35. mál, lækningaleyfi

Flm. (Vilmundur Jónsson):

Ef hv. þm. Borgf. væri dómari, sem dæma ætti um mál eftir þessu frv., ef að l. yrði, efast ég ekki um, að ráð þyrfti að gerast miklu betur úr garði en mér hefir tekizt. Hann fær svo fáranlega hluti út úr ákvæðum þess, af því að hann skilur svo nauðálitið í þeim. Það er t. d. fjarri sanni hjá hv. þm. Borgf., að smáskammtalæknar séu kallaðir skottulæknar í frv. Frv. minnist m. a. s. ekki einu orði hvorki á smáskammtalækna né skottulækna, og því fer fjarri, að smáskammtalækningar séu bannaðar eftir frv., þó að frv. hinsvegar geri ráð fyrir því, að enginn megi fást við lækningar, nema að þar til fengnu leyfi hjá heilbrigðisstj. Virðist þetta ekki vera hörð krafa borið saman við þær kröfur, sem gerðar eru til iðnstarfa. Enginn má fást við iðnaðarstörf, nema hann hafi leyst iðnbréf, sem svo er kallað. Það má t. d. enginn skraddari sauma buxur á hv. þm. Borgf., nema hann hafi bréf og pappíra í lagi til þess, en svo ætti hver og einn, án nokkurs sérstaks leyfis, að mega gefa sig við lækningum og jafnvel taka fótinn af hv. þm., sem virðist þó vera töluvert alvarlegra verk og hættulegra. Ef athugaður er kaflinn í frv. um skottulækningarnar, ætti það að vera öllum ljóst, að samkv. honum geta jafnt lærðir sem ólærðir læknar orðið sekir um skottulækningar, og er þar á engan sérstakan hátt niðrað hinum svokölluðu smáskammtalæknum, sem eiga svo öflugan talsmann í hv. þm. Borgf. eins og ólærðir læknar yfirleitt.

Ekkert þarf betur að tryggja en kunnáttu þeirra, sem mega fást við læknisstörf í þjóðfél. Náttúrugreind er að vísu mikilsvarðandi, en á þessum sviðum er hún ekki einhlít. Hún ein gerir engan mann að lækni. Hér er þekkingin aðalatriðið. Skoðanir hv. þm. Borg. á þessum hlutum eru leifar af gamalli hjátrú, sem er að engu hafandi. Ef maður vill fa

ást við lækningar, þá sækir hann um það til heilbrigðisstj. og færir fullnægjandi sönnur á, að hann hafi þá þekkingu á þessum fræðum, sem krefjast verður af þeim, sem við slíka starfsemi fást. Frv. bannar hvergi að veita mönnum lækningaleyfi, ef þeir hafa ekki fullgilt læknapróf, en gerir þvert á móti ráð fyrir því. Fyrir mitt leyti myndi ég sem landlæknir ekki hika við að mæla með slíku leyfi til handa leikmönnum, hvort heldur til smáskammtalækninga eða annara lækninga, ef viðkomandi fullnægði skilyrðum til þess. Þessi ákvæði eru einungis sett til að girða fyrir það, að menn, sem alls enga þekkingu né önnur skilyrði hafa til lækningastarfsins, geri sér það að atvinnu.

Jafnvel smáskammtalæknar geta verið of þekkingarlausir. Mér kemur í hug eitt dæmi um mann, sem var kamarmokari hér í Rvík, sem er heiðarleg atvinna og trúnaðarstarf. Nú kom þó að því, að manninum þótti þessi atvinna helzt til lítilfjörleg, gerir sér hægt um hönd, kaupir slatta af lyfjum og labbar án frekari undirbúnings norður í land og setur sig þar niður sem smáskammtalæknir. Heimildarmaður að þessari sögu er fyrirrennari minn í landlæknisembættinu, Guðmundur Björnson, þá er sagan gerðist að ég ætla héraðslæknir í Rvík. Og var honum sagan sérstaklega minnisstæð fyrir það, að það var í fæðingarsveit hans, sem smáskammtalæknirinn setti sig niður til að praktisera. Slíkt sem þetta eiga þessi lög að koma í veg fyrir.

Um aðrar aðfinnslur hv. þm. Borgf. er líkt að segja. En það var eftirtektarvert, að þau atrið, sem hann hártogaði mest, eru einmitt innskot læknafél. í frv., eins og ég gekk frá því í upphafi. Ákvæðið um það, að læknir megi aðeins auglýsa þrisvar sinnum, er þannig sett inn í frv. fyrir tilmæli læknafél, því er kunnugt um, að af slíkum auglýs. getur stafað mikil hætta fyrir stéttina, því að ef einn óprúttinn byrjar neyðast læknarnir fyrr eða ný til að auglýsa hver í kapp við annan, til þess að verða ekki undir í samkeppninni. Hinsvegar er það auðvita mál, að ef læknir flytur búferlum, þá getur hann auglýst þrisvar sinnum við hver bústaðaskipti. Útúrsnúningur hv. þm. um þetta atriði er þess vegna ekki svaraverður, og líkt má segja um þau ummæli hans, að, ákvæði frv. um lyfjaauglýsingar væru að ófyrirsynju. Það er að vísu rétt, að hingað til höfum við verið mikið til lausir við þesskonar, en erlendis er það víða orðið hið mesta böl. Í Noregi kveður svo mikið að slíkum skrumauglýsingum, að til stórkostlegra vandræða horfir. Mörg þessara skrumlyfja eru beinlínis hættuleg, en öll eiga þau sammerkt í því, að þau eru talin eiga við alla mögulega sjúkdóma og seld með óhæfilegu verði. slík lyf kaupa Norðmenn árlega fyrir um 10 millj. kr. Ég held, að sparnaðarpostular eins og hv. þm. Borgf. ættu sízt að hafa á móti því, að girt sé fyrir slíkt. Við höfum til þessa haft vandaða lyfsala og lækna, sem ekki hafa misnotað aðstöðu sína í þessum efnum, en þó hefir þessháttar auglýsingastarfsemi skotið upp kollinum í seinni tíð og mun eflaust færast mjög í aukana, ef ekki er aðgert í tíma. Það er vitaskuld mjög auðvelt að færa dæmi þess, að auglýsa þurfi ýms nauðsynleg lyf, svo sem þorskalýsi, en þá ber þess að gæta, að fyrir hverja eina þarfa auglýsing kæmu þúsund óþarfar, ef ekki hættulegar auglýsingar. Ef hv. þm. Borgf. getur bent á annað orðalag, sem einungis útilokar hinar óþörfu auglýs., þá væri það mjög gott, ég treysti mér ekki til þess.

Ég endist ekki til að elta ólar við allar hártoganir hv. þm. Borgf. því fer mjög fjarri, að t. d. Jónasi Kristjánssyni yrði meinað að skrifa fróðlegar ritgerðir um mataræði, þótt þessi ákvæði yrðu samþ. Þau ná einungis til skrumlyfjaauglýsinga í verzlunarskyni. Um þakkaravörpin, sem hv. þm. var að tala um, er það að segja, að þau yrðu alls ekki bönnuð, eftir þessu frv. nema þau væru beinlínis dulbúnar auglýsingar, en annars held ég, að flestir læknar kysu helzt að vera lausir við þau, og væri að því lítill skaði, þótt þau hyrfu úr sögunni.

Þá átti það að vera eitthvað hættulegt að semja við stéttarfélag lækna um gjaldskrána. Ég hélt nú þvert á móti, að það væri vinningur að fá samkomulag við stéttina í heild um þessa hluti, en slíkt er ógerningur með því að tala aðeins við einn og einn lækni. Hv. þm. virtist misskilja, hvaða félagsskap væri hér átt við. Vitanlega er það Læknafél. Ísl., önnur félög koma eins og er ekki til greina.

Þá var hv. þm. að reyna að gera 16. gr. frv. hlægilega, en sú gr. bannar þeim, sem ekki hafa fullt lækningaleyfi, að taka til meðferðar sjúklinga með kynsjúkdóma, berklaveiki og aðra smitandi sjúkdóma, eða sjúkdóma, sem sótthiti fylgir, svo og sjúklinga með krabbamein og önnur æxli. Samsvarandi ákvæði eru í lögum flestra landa og þykja alveg sjálfsögð, til þess að koma í veg fyrir, að skottulæknar fái til sín hættulega sjúklinga, sem vegna t. d. smithættu þyrftu strax að komast undir læknishendi. hér er því um öryggisráðstöfun að ræða gegn þeirri þjóðfélagshættu, sem stafað getur af skottulæknum í þessu tilliti. Vitanlega er um þetta ákvæði sem önnur þegjandi gert ráð fyrir skynsamlegri framkvæmd, og verður því tilraun hv. þm. til að leiða þetta ákvæði út í öfgar að skoðast sem misheppnuð fyndni. Ég vil einungis benda hv. þm. á það dæmi, að kólera kæmi upp uppi í Borgarfirði og „nátttúrugreindur maður“ gæfi hinum veika manni aspírin og léti við svo búið standa, þá gæti svo farið, að þessi aspirínlækning, sem hv. þm. virðist leggja svo mikið upp úr, yrði nokkuð dýr þjóðinni, ef kóleran fyrir hana breiddist út um kjördæmi hv. þm. og dræpi t. d. hann sjálfan og marga aðra ágæta Borgfirðinga.

Hv. 1. þm. S.-M. tók mjög í sama streng og hv. þm. Borgf. um hina ólærðu lækna og talaði um það, að lærðir læknar fremdu mörg glapræði. Sjálfsagt er það rétt, en margt af því, sem hv. þm. kallar glapræði, er vafalaust ekki það glapræði, sem hann heldur. Um það er hann svo illa dómbær. En ef það hendir hina lærðu lækna að fremja glapræði, hvað er þá líklegt um hina, sem enga þekkingu hafa, ekkert nema hina svokölluðu „nátttúrugreind“. Ummæli hv. þm. um glapræði læknanna eru í góðu samræmi við þá viðleitni þessa frv. að herða á kröfunum til þeirra, sem við lækningar fást, og gera þá ábyrga gerða sinna. Það er hinsvegar auðvitað mál, að fyrir mistök og „glapræði“, eins og hv. þm. kallar það, verður aldrei fyllilega girt með lagasetningu. Í því efni miðar þetta frv. þó tvímælalaust í rétta átt.

Hv. þm. Borgf. áleit ákvæði frv. um svipting lækningaleyfis mjög varhugaverð. Því fer mjög fjarri, því að hér er um mikla umbót að ræða. Í lögunum frá 1911 getur landlæknir svipt mann lækningaleyfi fyrirvaralaust og síðan ráðherra að fullu. Þá á viðkomandi ekki aðra útvegi en að leita til dómstólanna. En þess er varla að vænta af þeim, að þeir geti dæmt af fullri sanngirni um slík mál, sem krefjast alveg sérstakrar fagþekkingar. Í þessu frv. er ætlazt til, að læknadeild haskólans fái málið til athugunar, ef heilbrigðisstj. samkv. kæru landlæknis sér ástæðu til þess að taka hana til greina. Þegar leyfissviptingin hefir þannig gengið gegn um þessi þrjú stig, er varla hætta á misbeiting þessa ákvæðis.