04.04.1932
Neðri deild: 42. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í B-deild Alþingistíðinda. (18)

1. mál, fjárlög 1933

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Hv. þm. G.-K. rakti mörg rök kreppunnar og var allsvort mynd, sem hann dró upp af ástandinu. Sagði hann, að bæði væri kaupgjald hátt, borið saman við verðlag og allt ástand okkar og annara þjóða, svo að það má ljóst vera, að einhverjar fleiri orsakir hljóta að liggja til kreppunnar en stjórnarfar undanfarandi ára. Þá má einnig vera ljóst, að margt, sem nú gerist hér og annarsstaðar um aðgerðir og ráðstafanir, er okkur Íslendingum ósjálfrátt, Það er að vísu rétt, að hagur okkar lands hefir versnað gagnvart öðrum löndum nú á nokkrum undanförnum árum, en það er sannarlega ekki ríkisstj. né hennar aðgerðum að kenna, að almenningur hefir haft yfir svo miklu fé að ráða, að hægt hefir verið að flytja meira inn í landið en sem svarar andvirði þeirra vara, sem við höfum til útflutnings í staðinn. Vitanlega þarf þetta að breytast, en það er ekki einungis á valdi ríkisvaldsins, heldur þarf til þess sameiginleg átök allra, sem stjórna einhverjum fjármunum, bæði einstaklinga og félaga. Ég býst við því, að það séu einmitt félög og einstaklingar, sem mestu hefðu getað áorkað um að aftur yrði kornið á jöfnuði við útlönd, en hann sýnir skýrast, að heilbrigður sé þjóðarbúskapurinn og þjóðlíf allt. Það er mála sannast, að verðlag er lagt, en við ráðum ekki yfir því. En sem betur fer höfum við hjálp af þeim tilraunum, sem nú fara fram um allan heim, einnig hjá viðskiptaþjóðum okkar, til þess að laga þetta verðlag, og þótt einkennilegur boðskapur megi virðast, þá er höfuðvonin, að verðlag hækki, og þá vitanlega á öllu, ekki einungis því, sem okkar þjóð selur, heldur verður hitt og að hækka, sem við kaupum. Til þess að það jafnvægi náist, sem þarf að ríkja í atvinnu- og viðskiptalífi þjóðanna, þarf verðlagið að hækka mikið úr því, sem nú er. Hv. þm. benti líka á hina miklu alvöru, sem nú steðjaði að okkur vegna breyttrar verzlunarpólitíkur. Ýms lönd virðast nú sem óðast vera að hverfa frá „beztu kjarasamingum og frá hinni frjálsu verzlun, sem ríkt hefir til seinustu tíma. En í þessu efni er ekkert fyrir okkur að gera annað en að hafa vakandi auga og laga okkur eftir þeim breytingum, sem verða, og grípa þau tækifæri, sem við kunnum að hafa til að færa okkur þær í nyt. Í þessu efni mun margt ske á yfirstandandi ári, og ég hygg svo margt, að óvarlegt sé að ætla, að þing þurfi ekki að koma saman aftur fyrr en að ári. Annarsstaðar er eins og þetta steypist nú allt um á ný, og þær þjóðir, sem hafa haft hin frjálsustu viðskipti, loka nú hver fyrir annari og gera nýja samninga. Hið sama mun og yfir okkur koma. En útlit og ástand okkar viðskiptalifs er bjartara en hjá mörgum öðrum þjóðum. Þær þjóðir, sem helzt veita okkur lánstraust, falla eins og allar í eina heild, og eru þá líkindi til, að skapist vissar fjármálaheildir, því að einmitt þessi lönd virðast ætla að standa sem bezt saman, svo sem Skandinavía, England og jafnvel Spánn, sem þó er fjarskyldari. Það er okkur gæfa, að viðskipti vor, bæði um lán og verzlun, virðast hafa verið svo einhæf, og það einmitt við þau lönd, sem bezta eiga samleið og þurfa að mynda viðskiptaheildir áfram, þótt klofni milli annara fjarskyldari þjóða. Það er því ekki að öllu leyti svart útlit í þessu efni, heldur ýmsir möguleikar, sem opnast á þessu ári. Ég hygg, að hv. þm. hafi mælt um of, og það sennilega í tilefni dagsins, sem er nú eldhúsdagur, þegar hann sagði, að ríkissjóðurinn íslenzki væri verst staddur allra íslenzkra fyrirtækja. Eftir því, sem hann lýsti fjárhag annara, er með þessu mikið sagt þann tíma, sem ég hefi verið í fjármálaráðuneytinu, þótt það sé að vísu ekki langur tími, hafa þangað margir komið, bæði sveitar- og bæjarfélög, einstaklingar og félög, sem standa í sambandi við ríkið, og ástand þeirra margra er miklum mun lakara en sjálfs ríkissjóðsins. Og allt lendir þetta á endanum á náðir ríkissjóðs, ef heimild er fyrir því í lögum eða einhver möguleiki til þess að ná þaðan nokkurri hjálp. Ég hygg, að þeir, sem stjórna bæjarfélögum landsins nú, muni sannarlega skilja af eigin reynslu, að ríkið geti átt í nokkrum örðugleikum nú, og að þeir, sem þar eiga að bera ábyrgðina, vilji ógjarnan leggja út í næsta ár nema séð verði eitthvað fyrir tekjuhallanum, sem fyrirsjáanlegur er. Ég skal játa, að ríkið er um margt betur statt en aðrir með innheimtu margra sinna tekna, betur en sveitar- og bæjarfélög, því að þau verða að láta sér nægja með að taka það, sem þau ná af afganginum, þegar búið er að greiða tilkostnað við framleiðsluna. Það er óþarfi að inna að því, að ríkið sé verst statt. Á svona tímum er gott til þess að vita, að ríkið er ekki verst statt, og sjálfsagt að enginn stuðli að því að gera það svo úr garði, að það geti ekki mætt heim þörfum, sem mest kalla að. En það má ekki mikið versna fyrir okkur. Eina vonin er sú, að við séum nú á þessu ári í öldudalnum og að allt fari batnandi. Það er gott á góðærunum að hugleiða, að vondir tímar fari í hönd, og það er einnig gott á vondum tímum að hugleiða, að allt fari batnandi. sá jöfnuður, sem skapast af því að vera svartsýnn í góðærunum og bjartsýnn í harðærinu, er sá, sem okkur skortir. Og það er þetta jafnaðargeð, sem hv. 3. þm. Reykv. var að minnast á í sambandi við jöfnunarsjóð ríkisins og sagði, að hollur væri ríkinu. Ég skal ekki neita því. Það er ríkið, sem mest líður við þá frjálsu samkeppni, sem ríkir nú í pólitík landsmanna og gengur út á það að verja mestu fé, þegar mest er til, en svo gengur allt öfugt, þegar illa árar. Það er einmitt þessi samkeppni, sem mættj minnka; við það skapaðist meiri jöfnuður.

Þótt illa sé nú komið fyrir okkar atvinnuvegum, þá eru til möguleikar utan við þá, og það eru þeir, sem skapast við skemmtana- og nautnalíf fólksins og þeim föstu tekjum, sem ern óháðar atvinnuvegunum og geta jafnvel á vondu tímunum borið þá skatta og tolla, sem bregðast á hinum venjulegu liðum. Ég vil t. d. nefna tóbaksnautn. Ég held, að menn taki í nefið og tyggi sitt „skraa“ jafnt í vondum og góðum árum, og finnist þeir þjóðlegri, þegar þeir styðja ríkið um jeið og þeir njota sinnar agætu voru. Þannig eru um fleiri nautnameðul, að þau gefa einhvern skatt í ríkissjóðinn. Hér er farið fram á að festa nokkra þessara skatta til lengdar. Ég myndi láta mér nægja með, að allt, sem við væri bætt, væri miðað við árslok 1933, en þá fellt úr gildi, ef góðir tímar yrðu. Það er rangt, að ég hafi verið að hóta verkamönnum hér að fella niður atvinnu. Ég hefi alls ekki hótað neinu verkfalli, en það eru staiðeyndir, að ef ríkissjóði er ekki séð fyrir þeim tekjum, er hann þarf til þess að standast þær framkvæmdir, sem fyrirhugaðar hafa verið og búið er að ákveða, þá falla þær niður, og eðlilega fyrst hinar verklegu framkvæmdir. En eins og ég hefi tekið fram, þá er hér ekki farið fram á fé nema til hinna allra nauðsynlegustu hluta.

Ég skal svo ekki drýgja þá sömu synd og áðan, að fara fram yfir með tímann, því ég vil ekki halda vöku fyrir því marga fólki, sem til okkar heyrir úti á landsbyggðinni, enda líka gott að vera tekjuhallalaus að þessu leyti. Áheyrendur hafa nú komizt að raun um, að þingheimur er ekki eins samhuga sem skyldi á svona tímum, en ég vil minna þá á, að samkomulagið er oft betra í raun og veru en það kemur fram í ræðum þingmanna, og ennfremur það, að til eru þeir kraftar hér, sem geta skapað betri tíma, en það er ekki eingöngu okkar, sem sæti eigum á Alþingi, heldur er það alls landslýðsins að leggja einnig fram alla krafta sína til þess mikla verks. Vænti ég svo, að áheyrendur sofni rótt í fullri vissu um það, að batnandi tímar séu framundan, og að undir árslokin 1933 getum við hafizt handa um nýjar og auknar framkvæmdir og að þeir tímar megi aftur koma, að við fáum tækifæri til þess að deila á landsstjórnina fyrir að vera of bjartsýn og láta vinna of mikið.