14.04.1932
Neðri deild: 51. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1733 í B-deild Alþingistíðinda. (1803)

35. mál, lækningaleyfi

Einar Arnórsson:

Hv. 1. þm. Rang. og ég höfum skrifað undir nál. með fyrirvara. Stafar það þó ekki af því, að við séum á móti frv. í heild, heldur af því, að nokkur atriði eru í frv., sem við töldum þurfa nánari athugunar við.

Ég geri ráð fyrir, að það, sem læknastéttin telji nokkru máli skipta í frv., séu ákvæði 13. gr., þar sem svo er ákvæðið, að um borgun fyrir störf lækna, annara en héraðslækna, fari eftir því, sem um semst milli stéttarfél, þeirra og ríkisstj., en héraðslæknar taki laun eftir gjaldskrá. En hvernig fer, ef samningar takast ekki milli stj. og stéttarfél. lækna? — Þeir, sem þegar hafa fengið lækningaleyfi, verða líklega ekki skyldir til að beygja sig undir taxta. En þeir, sem fá lækninaleyfi eftir að lög þessi hafa öðlast gildi, verða væntanlega að hlíta þeim taxta, er síðar kann að verða settur. Hvernig á að fara að, ef ekki semst? Það væri ástæða til að víkja að því , hvernig taxtinn ætti þá að vera gerður. — Mér finnst allhæpið að miða taxta praktiserandi lækna við meðaltekjur héraðslækna. Ég er að vísu ekki vel kunnugur þessu máli, en ég ætla, að meðaltal af árstekjum héraðslækna verði ekki hátt. Héruðin eru mörg fámenn og rýr, svo að vafasamt er, hvort duglegum praktiserandi lækni er ekki sýnd ósanngirni með því að miða taxta þeirra við tekjur héraðslækna. Ég skal fúslega játa, að engin ástæða er til að ýta undir lækna til að draga sjúklinga sína upp, en hinsvegar álit ég, að fara megi varlega í það að skammta þeim um of úr hnefa borgun fyrir störf sín, einkum sérfræðingum. Við þurfum á mörgum sérfræðingum að halda, og hætt er við, að lágur taxti yrði til að draga úr hvötinni til að gera sig vel færan til starfsins, en slíkt gæti auðvitað orðið til hins mesta tjóns. Nú er hér enginn almennur taxti til, nema fyrir héraðslækna, ef ágreiningur verður milli sjúklings og læknis um borgun. Annars er taxti héraðslækna eingöngu á pappírnum, nema ef vera skyldi, er þeir vinna fyrir hið opinbera. Ég vil beina þeirri spurningu til hv. flm., hvort hann vilji ekki gera taxta héraðslækna svo úr garði, að hægt sé að halda sér við hann, ef læknar setja of hátt upp, og þá jafnframt að athuga, hvort sá taxti skyldi ekki aðeins ná til hins opinbera.

Erlendis hefir ekki þótt fært að setja taxta fyrir embættislausa lækna. Skal ég þó játa, að ég hefi ekki kynnt mér það mál sjálfur. En praktiserandi læknar líta svo á, að eigi að fara að setja þeim taxta, megi alveg eins setja taxta á verk smiðsins og jafnvel allra þeirra, sem vinna ákveðið verk. Og þessi skoðun þeirra virðist hafa við talsverð rök að styðjast.

Ýms önnur fyrirmæli eru í frv., sem e. t. v. væri ástæða til að gera breyt. á, og má vel vera, að lagfæringar geti orðið milli 2. og 3. umr. þyrfti t. d. að athuga sektarákvæðið í 18. gr. En þó ætla ég, að ekkert af þessu sé svo vaxið, að ástæða sé til að fella frv. eða tefja það þess vegna. En ég áskil mér rétt til að koma síðar fram með brtt. við 18. gr.