14.04.1932
Neðri deild: 51. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1734 í B-deild Alþingistíðinda. (1804)

35. mál, lækningaleyfi

Sveinn Ólafsson:

Ég á hér brtt. á þskj. 250. Hún er að vísu ekki mikilvæg og má fremur kallast orðabreyt., þar sem hún haggar að engu efni frv.

Í 1. gr. frv. stendur, að enginn megi fást við lækningar né kalla sig lækni, nema hann hafi fengið leyfi til þess hjá heilbrigðisstj. Ég legg til, að í stað þessa, að fást við lækningar, komi: stunda lækningaatvinnu. Þetta orðalag frv. er tekið upp úr lögunum frá 1911 og hefir aldrei verið annað en hortittur, þar sem á allra vitorði er, að fjöldi manna hefir fengizt og fæst við lækningar hér, sem vonlegt er í svo strjálbýlu landi. Ólærðir menn og konur hafa jafnan reynt eftir föngum að aðstoða og lækna sjúka, þegar ekki hefir náðst til læknis. Því er með öllu óviðurkvæmilegt og óviðeigandi að banna mönnum að fást við lækningar. Svo má heita, að á hverjum bæ séu menn, sem binda um sár og fægja sár, opna smákýli, kippa í lið o. s. frv., og ljósmæður nær í hverri sveit, sem hjúkra sjúkum, ef svo ber undir, og veita sjúkum ýmsa hjálp. Ég veit líka vel, að það er ekki tilgangur hv. flm, né nokkurs annars, sem málið ber undir, að aftra því, að slík hjálp sé veitt, þótt af ólærðum sé.

Hv. flm. taldi betra orðalag að „stunda lækningar“ en stunda lækningaatvinnu. Ég verð að halda því fram, að það sé jafnóljóst og orðalag frv. Samkv. málvenju þýðir „stunda“ og „fást við“ nær hið sama. En orðið „lækningaatvinna“ tekur af öll tvímæli. Lækningaatvinnu geta ekki aðrir rekið en þeir, sem fengið hafa leyfi til þess eftir frv. þessu. Hjálp annara við sjúka menn er að jafnaði kauplaus og fellur ekki undir atvinnu. Ég get þess vegna ekki látið að ósk hv. frsm. um að taka aftur þessi orð í brtt. minni á þskj. 250. Hér er nær að halda því fram, að eins og á stendur, sé þetta það orðalag, sem rétt og sjálfsagt er að viðhafa, til þess að fyrirbyggja, að þetta ákvæði verði misnotað.