14.04.1932
Neðri deild: 51. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1739 í B-deild Alþingistíðinda. (1807)

35. mál, lækningaleyfi

Vilmundur Jónsson:

Ég skal byrja með að gera grein fyrir brtt. minni á þskj. 163, við 12. gr. frv. Af vangá hafði í afritun fallið úr orðin: „á lyfseðlum“, og er þeim nú með brtt. bætt við í gr., þannig að lækni er heimilt að auglýsa á lyfseðlum með nafni, er sýni starfsgrein hans, og er það altítt, auk annara auglýsingaaðferða, sem í gr. eru taldar.

Á sama þskj. er brtt. við 20. gr.; þar er bætt við setningu sem fell aftan af gr. í vélritun. Í frv. endar gr. á því að tala um lækni, sem sviptur er lækningaleyfi, og við hana á að bætast: „en skjóta má hann þeim úrskurði til dómstólanna“. Þetta má skoða sem leiðréttingu.

Þá á ég eftir að benda á brtt. á þskj. 389, sem ég flyt eftir bendingu frá hv. 2. þm. Reykv., að í stað orðsins „heilbrigðisstjórn“, hvar sem er í frv., komi ráðherra viðast hvar, og á tveimur stöðum ríkisstjórnin, þar sem orðið heilbrigðisstjórn þykir ekki vera lagalega ákveðið hugtak, og mér skilst, að það muni vera rétt athugað, og kennir þó orðið fyrir í lögum.

Þá vil ég minnast á brtt. hv. þm. Dal. og hv. þm. Borgf. á þskj. 195. (JónasÞ: Hún er tekin aftur til 3. umr.). Þá get ég sleppt því að ræða hana fyrr en við þá umr., ef hún kemur þá fram.

Brtt. hv. 1. þm. S.-M. á þskj. 250 hefi ég ástæðu til að gera nokkra aths. við, og vil ég gera tilraun til að mæta honum þar á miðri leið. Till. hans, eins og hún er nú orðuð, breytir alveg efni 1. gr. frv. og tryggir almenning ekki gegn því, að þeir menn kunni að stunda lækningar, sem ekki eru læknar og ekki eru færir um að vera það. Ég hygg, að hv. þm. skilji það, að ef maður, sem stundar lækningar, tekur ekki laun fyrir lækningar sínar, þá sé honum heimilt að halda þeim áfram, ef brtt. hv. þm. verður samþ. Ég skal benda á dæmi til skýringar: Það er algengt, að erlendir trúboðar hér á landi geri tilraunir til að hæna fólk að sér með því að stunda ýmiskonar skottulækningar fyrir enga borgun, en fá laun frá erlendum trúboðsfélögum fyrir trúboðsstarfsemi sóna. Þessir menn eiga ekki að fá lækningaleyfi eftir frv. eins og það er nú, en samkv. brtt. hv. 1. þm. S.-M. mundi þeim vera það heimilt. Ég vil því óska þess, að hv. þm. taki þessa till. sína aftur, en ef hann gerir það ekki, mun ég bera fram skrifl. brtt. við till. hans, sem ég vona, að hæstv. forseti taki til greina, þess efnis, að í stað orðanna: Rétt til að stunda lækningaatvinnu, komi: Rétt til að stunda lækningar.

Ég skal síðan að gefnu tilefni taka það fram, að það er enginn ágreiningur á meðal lækna um þetta frv., nema að því leyti, að ýmsir læknar, sérstaklega hér í bænum, eru, eins og ég bjóst alltaf við, mótfallnir ákvæðum 13. gr. frv., um að sett skuli gjaldskrá fyrir störf lækna, annara en héraðslækna. Það kom ljóst fram á fundi Læknafél. Rvíkur, sem ég sat fyrir skömmu, því að aths. fundarmanna við frv. voru flestar lítilsháttar og smávægilegar orðabreyt., sem litlu eða engu máli skipta, nema aths. þeirra við 13. gr. Flest önnur höfuðákvæði frv. fengu þar yfirleitt ágæta dóma. Þess vegna kemur mér spánskt fyrir, að fel. hefir nú gert samþykkt um, að málinu skuli slegið á frest vegna ónógs undirbúnings. Það er vitanlega alveg rétt, að það er sjálfsagt og gott að undirbúa hvert mál sem bezt. En þetta mál fær aldrei þann undirbúning, að praktiserandi læknar hér í Rvík samþykki það ákvæði 13. gr., að sett verði gjaldskrá um störf þeirra. Hitt er fjarri sanni, að læknastétt landsins sé einum rómi mótfallin því. Ég hefi fengið símskeyti frá mörgum læknum utan af landi, og þ. á m. ýmsum hinna þekktustu í þeirra hóp, ég get nefnt t. d.: Steingrím Matthíasson, héraðslækni á Akureyri, Jónas Kristjánsson, héraðsl. á Sauðarkróki, Kristján Arinbjarnar, héraðsl. á Ísafirði, Gísla Pétursson, héraðsl. á Eyrarbakka, Finsen, héraðsl. á Akranesi, og fjölda marga aðra, alls um 20 lækna, sem eru mjög einhuga meðmæltir því, að sett verði sérstök gjaldskrá um störf lækna, ekki aðeins fyrir héraðslækna, heldur jafnframt fyrir praktiserandi lækna. Og þó að sjálfsagt flestir læknar hér í bænum séu þessu mótfallnir, þá veit ég þó um lækna hér, og jafnvel sérfræðinga, sem eru því fylgjandi, að gjaldskrá verði sett um störf allra lækna og álita það m. a. s. hagsbót fyrir sig.

Það er alveg rétt, að víða erlendis hafa nefndir unnið að undirbúningi samskonar löggjafar og setið lengi að störfum, en það kemur okkur að góðu haldi, því að fyrir það var hægt að hafa góð not af rannsöknum þeirra og reynslu. Hér er það ljóst, að þetta frv. hefði tæplega verið undirbúið á svo stuttum tíma, nema af því að hægt var að styðjast við hinn góða grundvöll erlendrar löggjafar og þ. á m. frv. og nál. dönsku n., sem að þessum málum hefir starfað.

Ég skal upplýsa það, að í dönsku n. kom það t. d. mjög til tals að setja öllum læknum gjaldskrá, eins og sest á grg. við danska frv. N. ræddi sem sé mikið um að setja öllum læknum gjaldskrá, en þó að það yrði ekki ofan á í þetta sinn, var það ekki af því, að ríkinu væri talið það óheimilt, eða af því, að það þætti brot á stjskr., eins og hér hefir komið til tals. Það var ekki heldur af því, að það þætti ósanngjarnt, eða að á því gæti ekki verið full þörf. Ástæðan var eingöngu sú, að í bili („for Öjeblikket“ eins og þeir segja) væri minni þörf á gjaldskrá vegna almennings, þar sem meiri hl. þjóðarinnar, 60–70%, er í sjúkrasamlögum, sem standa vel að vígi að gæta réttar sjúklinganna gagnvart læknunum. Það er eins og n. gefi í skyn, að síðar geti komið til þess. Aðhaldið að læknum í Danmörku er miklu meira í þessu efni heldur en að læknum hér á landi. Sjúkrasamlögin eru þar svo voldug og semja við læknana. Hér megna sjúkrasamlögin enn ekkert í þessum efnum, og þess vegna þarf almenningur hér sérstaka vernd.

Hv. 2. þm. Reykv. hélt því fram, að ákvæði þessa frv. um gjaldskrána, ef að lögum yrði, mundi ekki vera bindandi fyrir þá lækna, sem nú hafa lækningarétt, og vildi mótmæla mínum skilningi á því.

Ég held því fram, að ákvæðin hljóti einnig að ná til þeirra. Ég skil þetta svo, að því aðeins setji hið opinbera læknunum gjaldskrá, að hún eigi að vera almenningi til verndar. Það er lagaboð, sem horfir til almenningsheilla og á að tryggja rétt fólksins gagnvart ósanngjörnum kröfum frá læknunum. Þannig á þetta lagaboð stóð í 65. gr. stjskr.

Upphaflega voru allir læknar hér á landi skuldbundnir til að hlíta einni gjaldskrá. En þegar hún var sett, var aðeins um héraðslækna að ræða og viðast einn lækni á hverjum stað, sem fólkið gat leitað til. Eflaust hefir verið litið svo á, að hann gæti orðið erfiður í viðskiptum, ef löggjöfin setti ekki takmörk fyrir því , hvað hann yrði að sætta sig við fyrir störf sín. Nú má að vísu segja, að þetta horfi öðruvísi við um hina praktiserandi lækna, sem aðallega eru í bæjunum, og að læknafjöldinn þar leiði til þess, vegna samkeppninnar, að þeir hljóti að verðleggja verk sin sanngjarnlega. En samtökin vega væntanlega upp á móti samkeppninni, og þrátt fyrir læknafjöldann getur fólk yfirleitt ekki haft nein not af samkeppni læknanna. Það heldur ekki uppboð á sjúkdómum sínum.

Líka getur ástandið orðið það, að í fleiri eða færri sérgreinum læknisfræðinnar sé ekki nema einn læknir í hverri grein á öllu landinu, og ef lögin setja honum engin takmörk fyrir því, hvað hann megi verðleggja læknisverk sín, þá getur farið svo, að almenningur verði algerlega ofurseldur kröfum hans, hverjar sem þær eru. Það er því vel hægt að rökstyðja það, að almenningsheill geti varðað, að öllum læknum sé sett gjaldskrá, engu síður nú en áður, þegar einn héraðslæknir var í hverju héraði.

Hv. 2. þm. Reykv. spurði að því, hvernig færi, ef ekki yrði samkomulag við stéttarfél. praktiserandi lækna um gjaldskrá þá, sem gert er ráð fyrir, að samin verði af hendi ríkisstj. Það fer á þá leið, eins og segir í niðurlagi 13. gr., að sett verður gjaldskrá, samin af landlækni og staðfest af stj. Ég skal jata, að um þau atriði, sem eiga að vera grundvöllurinn undir gjaldskránni, má lengi deila. Þar er aðeins um að ræða lauslegan grundvöll, til þess að eitthvað sé við að miða, þegar farið sé að semja um gjaldskrána. Hv. þm. G.-K. hafði þau orð, að það væri „einróma álit allra lækna, að málið væri illa undirbúið“. (ÓTh: Allra lækna Læknafél. Rvíkur). Í Læknafél. Rvíkur eru allir stjórnarmenn í Læknafél. Ísl. og þeir hafa undirbúið þetta mál. Þeir höfðu það eins lengi og þeir vildu og gerðu allar aths., sem þeir kusu, og var tekið tillit til þeirra h. u. b. allra, og allra, sem máli skiptu, nema þessarar einu, um gjaldskrana. Það má því heita undarlegt, ef þeir álita máið illa undirbúið, sérstaklega vegna þess, að ekki er stungið upp á neinu og ekki bent á neitt, sem ágreiningi geti valdið, nema þetta eina atriði.

Þá skal ég ítreka það, sem ég skaut fram í fyrir þessum sama hv. þm. um, að það væri eitthvað sérstakt, sem hér ætti að lögfesta, sem nú ekki tíðkaðist, að læknum væri undir vissum kringumstæðum skylt að bera vitni í rétti. Þetta atriði er mjög umdeilt erlendis, og gilda um það mismunandi reglur, en læknar hafa enga sérstöðu hér að þessu leyti. Ég veit ekki til, að fólk hér skirrist við að trúa læknum fyrir leyndarmálum sínum, en enn síður myndi það gera það, ef þeir fengju sérstöðu í þessu efni og væru eigi skyldir að bera vitni, nema í afarþýðingarmiklum málum, þegar vitnisburður þeirra gæti ráðið miklu um, hver úrslit málsins yrðu. Þessi millivegur er tekinn eftir till. dönsku mþn., og ég hygg, að þar sé siglt mitt á milli og hóflega og sanngjarnlega í sakir farið.

Að lokum vil ég minnast á aðra fullyrðingu frá sama hv. þm., en hún var stj. að læknishjálp væri hvergi ódýrari en á Íslandi. Þetta er rangt. Læknishjálp er víða ódýrari fyrir almenning, einkanlega þann gjaldlausa almenning, en á Íslandi. Er það einkum vegna þess, að í flestum siðuðum löndum á almenningur kost á að fá læknishjálp fyrir bókstaflega ekki neitt. Það er það, sem gerir gæfumuninn í þessu máli. Almenningur úti í löndum, t. d. í Englandi, þar sem ég hefi verið og er dálitið kunnugur, eins og t. d. í Lundinum, getur ávallt talað við hina lærðustu sérfræðinga án þess að greiða eyri, og m. a. s. á almenningur kost á að fá þar öll lyf ókeypis, án þess að leggja nokkuð til nema e. t. v. glasið. Svona er það í h. u. b. öllum stórum sjúkrahúsum í Lundúnum, og svipað mun vera í öðrum löndum, í borgunum a. m. k. Geta menn var valið um ágæta lækna ókeypis, að ógleymdum öllum sjúkrasamlögum og tryggingum. Hér er þessu ekki til að dreifa, og það er þess vegna, sem gjaldskráin er miklu nauðsynlegri hér en víða annarsstaðar.