19.04.1932
Neðri deild: 55. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1769 í B-deild Alþingistíðinda. (1825)

35. mál, lækningaleyfi

Vilmundur Jónsson:

Ég ætla fyrst að svara fyrirspurn hv. 2. þm. Skagf. út af ákvæðum 16. gr., um að „þeim, sem hefir takmarkað lækningaleyfi, er bannað jafnt og þeim, sem ekkert lækningaleyfi hefir, að taka til meðferðar sjúklinga með kynsjúkdóma, berklaveiki, aðra smitandi sjúkdóma, eða sjúkdóma, sem sótthiti fylgir, svo og sjúklinga með krabbamein og önnur æxli“. Þetta eru ákvæði, sem finna má í öllum slíkum lögum, er ég þekki, og eru trygging gegn því, að hvaða maður sem er taki til meðferðar næma sjúkdóma, sem hætta getur verið á, að breiðist út, eða alvarlega sjúkdóma, sem nauðsyn ber til, að sem allra fyrst séu greindir, ef von á að vera um bata.

Þegar ég samdi frv. mitt, hafði ég ekki sett í 16. gr. orðin: „eða sjúkdóma, sem sótthiti fylgir“, en læknadeild háskólans eða Læknafél. Íslands — ég man ekki hvort heldur — óskaði eftir, að ég tæki þetta upp í frv., svo að enn meiri varkárni yrði sýnd um meðferð smitandi sjúkdóma. Einfaldur sótthiti getur verið byrjun á hættulegum, bráðsmitandi sjúkdómi, sem ekki er fyrir aðra en fulllærða lækna að bera kennsl á, og því fellst ég á að taka þessa ósk læknadeildarinnar eða Læknafél. til greina. Og tel ég viðbótina þó ekki hafa neina úrskerandi þýðingu.

Það er rétt, að tannlæknarnir munu telja þetta ákvæði höggva nærri sér, og var það alls ekki tilgangurinn. Annars býst ég við, að þeim búi meira í hug ótti við glaldskrárákvæðin, þó að þeir hafi ekki látið mikið á því bera og kjósi heldur að benda hv. 2. þm. Skagf. á þetta sótthitaákvæði sem óþarfa afskiptasemi af hálfu löggjafarvaldsins. Vitanlega hefir engum dottið í hug að meina tannlæknum að gera við tennur í sóttveiku fólki, en það er ekki önnur eins fjarstæða og hv. 2. þm. Skagf. heldur, að fullkominn læknir sé með í ráðum, er sótthiti fylgir tannpínu. Ígerð út frá tönnum er oft mjög hættulegur kvilli, jafnvel lífshættulegur, og hefir ung stúlka og hraust nýlega beðið bana af þeim sökum hér í Rvík, og því miður er slíkt alls ekki einsdæmi. Ákvæðið er því engan veginn neitt hlægilegt, þó að það kunni að mega missa sig, fyrir það, að greinin er einnig án þess nægilega skilmerkileg.

Þá þarf ég að svara hv. þm. G.-K. nokkrum orðum. Hann sagði, að ég mundi ekki hafa flutt frv. í því formi, sem það er fram borið í, ef ég hefði áður heyrt umsögn Læknafél. Rvíkur. Nú var það svo, að ég hafði leitað álits læknadeildar háskólans og Læknafél. Ísl. En að leita til Læknafél. Ísl. er nokkurn veginn það sama sem að leita til Læknafél. Rvíur, því að skilyrði fyrir því að geta orðið meðlimur í Læknafél. Rvíkur er að vera í Læknafél. Ísl. Allir meðlimir Læknafél. Rvíkur eru þess vegna jafnframt meðlimir í Læknafél, Ísl., og þegar stj. þessa fél. talar og kemur fram, þá verð ég að álíta, að hún geri það í nafni allra lækna, sem í fél. eru, líka meðlima Læknafél. Rvíkur. Stj. Læknafél. Ísl. athugaði frv. grein fyrir grein og gerði við það aths. og till. um breyt., sem ég hefi tekið til greina h. u. b. allar. Þegar ég kom á fund Læknafél. Rvíkur, til þess að ræða um þetta mál, varið það líka bert, að hið bezta samræmi var í afstöðu félaganna, því að ekkert ákvæði frv. sætti verulegum ágreiningi nema gjaldskráin ein. Að vísu var nokkuð rætt um vitnisburðarskyldu lækna og lítilsháttar meiningarmunur um, hvernig með skyldi fara, en ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að n. sú, sem síðan hefir haft málið til meðferðar, hafi engar brtt. gert um það atriði. Allt nemur staðar við gjaldskráratriðin, sem ágreiningurinn er um. En að þetta er nú flutt af Læknafél. Rvíkur með meira kappi en forsjá, má bezt sjá á því, að það dirfist að fullyrða, ef rétt er hermt eftir bréfi því, sem hv. þm. G.-K. las hér upp, að frv. sé eingöngu samandregið úr eldri lögum og engin nýmæli þar að finna. Þetta eru því blygðunarlausari ósannindi, sem frv. má heita algert nýmæli frá upphafi til enda. Lög, sem um þetta efni gilda, eru örfáar stuttar greinar. Hér í frv. eru heilir kaflar um efni, sem þar er alls ekki minnzt á. Og ákvæðum gömlu laganna er flestum algerlega umturnað. Ég ætla nú með nokkrum orðum að víkja að helztu nýmælum frv., þó að það verði lítið annað en endurtekning á því, sem ég hefi áður útskýrt fyrir hv. d.

Í fyrsta lagi er svo fyrirmælt nú í lögum, að allir, sem læknispróf hafa, eigi rétt til að fást við lækningar hér á landi. Ef frv. verður samþ., hefir enginn fengið rétt til lækninga, þótt hann taki fullgilt próf. Hann verður að því búnu að sækja um sérstakt leyfi til ráðh., eigi hann að öðlast þann rétt. Þetta er nýmæli, sem ekki hefir staðið í lögum áður. Auk þessa verður hver sá, sem leyfi á að fá til að heita læknir, að stunda framhaldsnám í sjúkrahúsum í fleiri greinum en fæðingarhjálp, sem áður hefir verið tilskilið, og er gert ráð fyrir fastari reglum um allt að þessu lútandi en áður hafa tíðkazt. Þetta er þýðingarmikið nýmæli. Tilsvarandi ákvæði eru um sérfræðingana, en um þá hafa engin lagafyrirmæli verið til áður. Að ég ekki tali um þau nýmæli, sem eru í síðari málsgr. 2. gr. og mikla eftirtekt hafa vakið, að ekki megi mæla með lækningaleyfi til handa þeim, sem eru heilsulausir á þann hátt andlega eða líkamlega, að stafað geti hætta af heim við læknisstörf, eða kunnir að drykkjuskaparóreglu eða eiturlyfjanotkun, eða hafa kynnt sig að alvarlegu hirðuleysi og ódugnaði í störfum sínum. Ekkert af þessu hefir staðið áður í logum. Það eru því ekki aðeins nýmæli í hverri gr., heldur mörg í sumum.

Í II. kafla frv., um réttindi og skyldur lækna, er um alger nýmæli að ræða. Það hefir ekkert staðið um það í lögum, að læknar skuli vanda framferði sitt, ekkert um vottorðagjafir þeirra, sem geta ekki aðeins verið þeim til vansa, ef illa er frá þeim gengið, heldur og hættuleg fyrir þá, sem á þeim þurfa að byggja. Mun svo verða mælt, að á þessu sé full þörf, því að þó að ekki sé vansalaust frá að segja, er það farið að tíðkast, að til vottorða lækna er ekki tekið það tillit, sem vera ætti, og því miður ekki að ástæðulausu.

Nú hvílir engin skylda á praktiserandi læknum að gegna, þegar þeirra er vitjað, en með frv. þessu, ef að lögum verður, er sú skylda lögð heim á herðar, og er hér um allmerkilegt nýmæli að ræða. Eftir því á hverjum þeim almennum praktiserandi lækni, sem hefir opna lækningastofu, að vera skylt að gegna aðkallandi sjúkravitjunum Mun þetta vera nýmæli í löggjöf yfirleitt.

Þá hefir læknum ekki verið gert að skyldu að gæta þagmælsku fram yfir aðra menn, og enga sérstöðu hafa þeir haft að því leyti að bera vitni fyrir rétti. Hér eru í fyrsta skipti sett föst ákvæði þar að lútandi.

Engin ákvæði hafa verið til í lögum, sem banna læknum skrumauglýsingar um starfsemi sína. Einnig það eru nýmæli.

Þá ætla ég, að Læknafél. Rvíkur megi þykja nýmælisbragð að ákvæðinu um gjaldskrana. Áður hefir héraðslæknum einum verið sett gjaldskrá, en eftir frv. á hún að ná til allra lækna.

Í 14. gr. eru að mestu gömul ákvæði um skýrslugerð lækna og viðurlög, ef vanrækt er að senda fyrirskipaðar skýrslur, en þar við er bætt með öllu nýjum ákvæðum, um að það skuli einnig ná til hverskonar sjúkrahúsa, heilbrigðisstofnana, sjúkrasamlaga, heilsu- og slysatryggingarstofnana og annara tilsvarandi, svo og til tannlækna, lyfsala og lyfjabúða, nuddara, yfirsetukvenna og annara heilbrigðisstarfsmanna.

Þá er skilgreiningin á skottulækningum alveg ný í lögum og sömuleiðis ákvæðið, sem hv. 2. þm. Skagf. gerði sér að umræðuefni, að nú er búið svo um, að ólærðir læknar fá ekki leyfi til að stunda sjúkl. með sérstaklega hættulega sjúkdóma.

Nýtt er það líka að banna lyfja- og lækningaáhaldaauglýsingar, svo nýtt, að það mun e. t. v. hvergi þekkjast í víðri veröld.

Loks eru nýmæli öll ákvæði um refsingar, sviptingu lækningaleyfis og endurfengið lækningaleyfi, og þarf ég ekki að útskýra það nánar.

Ég býst við, að ég hafi með þessari upptalningu sýnt fram á, að ef Læknafél. Rvíkur hefir ekki önnur rök fyrir sig að bera gegn frv. en að hér sé eingöngu um gömul lagaákvæði að ræða, sem engin þörf sé að lögfesta á ný, séu það léleg rök, sem ekki er takandi mikið mark á. Ég hygg, að skynsamlegra hefði verið fyrir félag praktiserandi lækna í Rvík að fallast á frv. og fylgja þar dæmi annara lækna í landinu, heldur en að leitast viðað koma því fyrir kattarnef með ekki heiðarlegri vopnum.

Ég hefi hér í höndum skeyti frá meiri hl. héraðlækna, sem bæði óska eftir nýrri gjaldskrá og telja rétt, að hún gildi jafnt fyrir alla lækna. Og úr því að farið er að flagga hér með nöfnum, þá get ég líka nefnt nokkur, sem ekki er síður mark á takandi. Ég skal t. d. nefna héraðslæknana Jónas Kristjánsson á Sauðárkróki, Steingrím Matthíasson á Akureyri, Gísla Pétursson á Eyrarbakka, auk héraðslæknisins í Ólafsvíkurhéraði, Halldórs Steinssonar, sem á sæti hér á þingi sem þm. Snæf., og alls get ég talið upp 20 lækna, sem taka í hinn sama streng. Sumir þeirra eru jafnvel svo harðir í garð praktíserandi læknanna, að þeir telja, að þeir ættu að hafa nákvæmlega sömu gjaldskrá og héraðslæknarnir. Ég hefi hinsvegar lítið svo á, að rétt væri að hafa þann mun á gjaldskram praktiserandi lækna og héraðslækna, að hinir fyrrnefndu gætu uppborið sem svarar embættislaunum héraðslækna í hærri gjöldum fyrir læknisverk sín. Læknafél. Rvíkur mun fá að sanna, að það er vonlaust verk að berjast á móti sanngjarnri gjaldskrá fyrir alla lækna, og ég hygg, að hreinlegra hefði verið fyrir praktiserandi lækna og betra fyrir málstað þeirra, að flutt hefði verið brtt. við frv. annaðhvort um að fella 13. gr. og láta þar með skeika að sköpuðu, eða að breyta henni að einhverju leyti á þann hátt, að þeir hefðu betur mátt sætta sig við. Það hefði svo mátt ræða frá báðum hliðum, og ekki fullyrði ég nema takast hefði mátt á þann hátt að komast að enn sanngjarnari niðurstöðu en ég hafði numið staðar við.

Hv. þm. Borgf. þarf ég litlu að svara, enda hefi ég gert það nokkuð áður. Hann áleit aðstöðu mína veika, sem er skiljanlegt, ef hann leggur mikið upp úr áliti þeirra lækna, sem standa að bréfi því; er hv. þm. G.-K. las upp. En þó hann vilji halda fram, að reyndustu læknar séu á öndverðum meiði við mig í þessu máli, þá get ég fullvissað hann um, og mér er það kunnugt, að ekki einn einasti læknir hér á landi mundi fast til að greiða brtt. hans atkv.

Ég þarf varla að endurtaka það, að það er hártogun hjá hv. þm., að eftir frv. megi ekkert gera til þess að brýna fyrir mönnum hollustu matvæla. Vitanlega má skrifa fræðandi greinar um matvæli og matarhæfi manna eins og hvað annað. Með ákvæðum frv. er aðeins verið að koma í veg fyrir skrumauglýsingar um lyf og matvæli í verzlunarskyni.

Þá áleit hv. þm. Borgf. fjarstæðu að smáskammtalæknum væri gert að skyldu að sanna kunnáttu sína, áður en þeim væri veitt lækningaleyfi, og rökin voru þau, að engin stofnun væri í landinu, sem skyn bæri á slíka fræðigrein. En þetta er misskilningur og vitleysa. Látum svo vera, að lyfjafræði smáskammtalæknanna sé einhver leyndardómur. En lyfjafræði er minnstur hlutinn af læknisfræðini. Og ekki væri úr vegi — né vandi að komast að því —, hvort smáskammtalæknir, sem sækir um lækningaleyfi, ber skyn á byggingu líkama mannsins og þau helztu lögmál, sem starfsemi hans fylgir. Eða hvort hann kann að greina sjúkdóma hvern frá öðrum, svo í einhverju lagi sé. Það er satt, að erl. leggja menn stund á smáskammtalækningar, þó að slíkum læknum fari óðum fækkandi. T. d. fækkaði þeim um 11 síðastl. ár í Englandi og bættist enginn nýr við. En þess er að gæta, að þeir erlendu hómöopathar, sem nokkurt mark er tekið á, eru fulllærðir læknar, sem lokið hafa fullkomnu læknisfræðiprófi eins og hverjir aðrir læknar. Hér hefir aldrei lærður hómöopathi verið til, og allir þess vegna mátt heita skottulæknar, þó að þeim sé ekki valið það heiti í þessu frv. Ísl. smáskammtalæknar hafa engu að síður haft sitt hlutverk að vinna og orðið mörgum til huggunar í læknisleysi, og sennilega gert tiltölulega lítinn skaða. Þeim fækkar nú óðum, og er engin ástæða til að fara hart fram gegn þeim fáu, sem eftir eru, enda ekki til þess ætlazt samkv. þessu frv. En engin fjarstæða er það, ef maður setur sig niður t. d. hér í Rvík til að stunda lækningar, þó að heimtað væri eitthvað af honum, er sýndi, að hann yðri ekki gersamlega ófróður um allt að því lútandi. Ef það sannaðist t. d., að hann þekkti ekki hið minnsta til líkamsbyggingar mannsins né hinna einföldustu sjúkdóma, þá væri ekki ástæðulaust að banna honum að auglýsa, að hann legði stund á lyflækningar, rafmagnslækningar o. fl., eins og auglýst er nú daglega hér í blaði, að ég held af gersamlega vankunnandi manni. En hann setur „hómöopathi“ undir nafn sitt, og þá ná engin lög yfir hann!

Ég vona, að ég sleppi við að svara fleiru. Málið er þaulrætt, og vænti ég, að hv. d. samþ. frv., en felli dagskrártill. og allar brtt., að undanskilinni þeirri, sem við flytjum saman á þskj. 416, hv. 2. þm. Reykv. og ég.