19.04.1932
Neðri deild: 55. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1779 í B-deild Alþingistíðinda. (1830)

35. mál, lækningaleyfi

Ólafur Thors:

Það liggur í hlutarins eðli, að ef maður fer að deila við hæstv. dómsmrh., þá verður það ekki til annars en að skattyrðast, því að hann leggur ekki annað til málanna en það, sem er þess eðlis. Hann segir, að ég hafi visvítandi farið rangt með, þegar ég skýrði frá því, að Guðm. Thoroddsen hefði verið á fundi heim í læknafél., er samþ. þessa áskorun til Alþ., sem ég hefi nú lesið upp. Ef Guðm. Thoroddsen segði sjálfur við mig, að hann hefði ekki verið þarna viðstaddur, þá mundi ég trúa því. En ég legg ekki mikið upp úr því, þó að hæstv. dómsmrh. segi það, og ég veit, að það eru margir fleiri en ég, sem taka hann ekki trúanlegan. En auk þessa læknis nefndi ég marga aðra lækna, sem voru viðstaddir á þessum fundi, þ. á m. flestir úr stj. Læknafél. Ísl. og flestir úr læknad. háskólans, nefnilega þeir aðilar, sem að lítt athuguðu máli mæltu með frv., en tjáðu sig mótfallna því eftir nánari athugun. Hver trúir því, að þessi maður hafi ekki spurt Guðm. Thoroddsen, hvort þessir læknar hafi ekki verið á fundinum, eða hvort þeir hafi verið þar og verið farnir, þegar samþykktin var gerð, eins og hann segir, að verið hafi með Guðm. Thoroddsen? Allir vita, að hann hefir spurt um þetta. Og allir vita, að fyrst hann hefir ekki nefnt það, þá hafa þeir verið þar. Það er alveg ljóst.

Ef hæstv. ráðh. er í vafa um, að ýmislegt í þessu frv. orki tvímælis, þá vil ég biðja hann að lesa 11. gr. frv. Þar stendur svo, með leyfi hæstv. forseta: „Nú verður læknir þess vísari vegna starfsemi sinnar sem læknir, að heilsufari manns er þannig háttað andlega eða líkamlega, að öðrum stafi bein lífshætta af honum eða yfirvofandi heilsutjón, og ber þá lækninum að afstýra hættunni með því að snúa sér til viðkomanda sjálfs, eða, ef nauðsyn krefur, til landlæknis“.

Ég álít þetta rétt, en það vantar þá líka í frv. ákvæði um, að læknir, sem innt hefir af hendi þessa skyldu, skuli verndaður fyrir ofsóknum fyrir það.

Þetta ætti ráðh. þó að skilja.