19.04.1932
Neðri deild: 55. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1783 í B-deild Alþingistíðinda. (1833)

35. mál, lækningaleyfi

Ólafur Thors:

Mér þykir hv. flm. deila nokkuð fast á stéttarbræður sína í Læknafél. Rvíkur. Og hygg ég, að flestum muni þykja það óþarft og óviðeigandi af honum að gera þeim slíkar getsakir, að þeir hafi tjáð sig andvíga því, að þetta frv. yrði nú gert að lögum, aðeins vegna ákvæðanna um gjaldskrána. Það er alveg ósæmilegt af hv. flm. að bregða læknafél. um þetta, þegar það hefir sagt, að frv. væri yfirleitt illa undirbúið, og bent á mörg önnur atriði því til sönnunar. Eins og ég hefi áður lýst yfir, er ég ekkert sérstaklega fróður um þessi mál og get því ekki skorið úr því, hvað þetta frv. er steypt upp úr mörgum eldri lögum, eða hvað muni vera nýtt í því. En þó bendi ég á, að í grg. frv. er tekið fram, að með lögum þessum séu úr gildi numin: lög nr. 38 1911, um lækningaleyfi, lög nr. 36 1929 og ýms önnur ákvæði. Hv. flm. játar því í grg. það, sem hann neitar nú í ræðu sinni.

Ég skal aftur minna á, að þær ákúrur, sem hv. flm. beinir til læknastéttarinnar, bitna á mönnum eins og Guðm. Hannessyni, Matth. Einarssyni, Halldóri Hansen, Helga Tómassyni, Gunnl. Claessen, og ég get gjarnan hætt við Jóni Hj. Sigurðssyni og Guðm. Thoroddsen. Ef Guðm. Thoroddsen er meðmæltur þessu frv., eins og hv. flm. vill vera láta, því gengur hann þá burt af læknafélagsfundinum? Hann fer burt af fundinum af því, að hann hefir fundið andúð félaga sinna gegn málinu og hefir ekki viljað skilja við þá né taka að sér að styðja frv. Það er óviðfelldið, að dómsmrh. skuli ekki þora að koma hér inn í Þd. til þess að taka þátt í umr. fyrr en andstæðingar hans eru búnir að nota sinn ræðutíma samkv. þingsköpum. Ráðh. talaði eitthvað um, að ég hefði sent flugumann til höfuðs honum. Ég þykist vita, að hann eigi við dr. Helga Tómasson.

Mér dettur ekki í hug að efast um, að dr. H. T. hafi haft fulla ástæðu til að gera það, sem hann gerði, eða að hann hafi haft rétt fyrir sér, en það var alls ekki af mínum völdum, að hann fór heim til ráðherrans. En af því að ráðh. var alltaf að bregða mér um þetta, þá dró ég hann fyrir lög og dóm fyrir meiðyrði í minn garð. Björn Þórðarson lögmaður dæmdi meiðyrðin dauð og ómerk, og ennfremur dæmdi hann ráðh. til að greiða háa sekt fyrir þau. Síðan var málinu vísað til hæstaréttar, er staðfesti dóm undirréttar um meiðyrðin, en hækkaði sektina upp í 300 kr. Og nú kemur ráðh. hér enn inn í þd. með þessar sömu rakalausu ásakanir, einungis af því að það er eini staðurinn, þar sem hann þorir að tala um þetta mál, af því að hann veit, að þar er ekki hægt að sækja hann til sekta fyrir ummæli hans. Það er blettur á Alþingi, að maður eins og ráðherrann skuli fá þar skjól til að bera fram svívirðingar á þjóðfræga ágætis- og merkismenn eins og dr. Helga Tómasson. Það má ekki þolast, að þinghelgin sé svívirt með illmælum, sem mundu valda þeim, sem þau viðhefði, fjársekta á hverjum öðrum vettvangi, sem þau væru fram borin á.