22.04.1932
Efri deild: 57. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1788 í B-deild Alþingistíðinda. (1840)

35. mál, lækningaleyfi

1840Jón Baldvinsson:

Út af ræðu hv. þm. Hafnf. vil ég aðeins benda á það, sem hv. þm. reyndar tók fram, að frv. var sent til umsagnar stj. Læknafél. Ísl., sem athugaði frv. og gerði sínar brtt. við það, sem flestar voru teknar til greina af flm. frv., en í Læknafél. Ísl. eru sem kunnugt er allir hinir sömu læknar og eru í Læknafél. Rvíkur, enda var þessu ekki mótmælt af hv. þm. Hafnf., og er því engin ástæða til að fara að senda frv. aftur til umsagnar sömu mannanna og áður hafa um það fjallað og lagt með því. Hinsvegar er frv. um mjög margt til mikilla bóta á læknalöggjöfinni, eins og líka hv. þm. Hafnf. viðurkenndi beinum orðum í ræðu sinni, og þær aths., sem hann gerði við frv., voru svo smávægilegar, að þær ættu ekki að geta gefið neinum ástæðu til að setja sig upp á móti því. Ég álít og, að rétt sé að hraða framgangi þessa máls, og að engin ástæða sé til að vera að fresta því til næsta þings, eins og einhverjir virðast óska nú upp á síðkastið.