09.05.1932
Efri deild: 70. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1790 í B-deild Alþingistíðinda. (1844)

35. mál, lækningaleyfi

Pétur Magnússon:

Ég er sammála hv. samnm. um það, að þetta frv. sé yfirleitt framför frá gildandi löggjöf. Vil ég því eins og þeir, að frv. í aðalatriðum nái fram að ganga. En í frv. er eitt nýmæli, sem ég, a. m. k. að svo vöxnu máli, get ekki gefið atkvæði. Það nýmæli er í 13. gr. frv. Gr. þessi mælir svo fyrir, að ríkisstj. skuli leita samninga við stéttarfélag lækna um greiðslu fyrir störf embættislausra lækna. Gert er ráð fyrir, að gjaldskrá héraðslækna verði lögð til grundvallar við samningaumleitanir þessar, en hún hækkuð þannig, að ætla megi, að meðaltekjur embættislausra lækna verði svipaðar og meðaltekjur héraðslækna. Á sama hátt á svo að semja við þá er takmarkað lækningaleyfi hafa, og við sérfræðinga. Takist samningar ekki, setur ráðh. eftir till. landlæknis þessum mönnum gjaldskrá, sem þeim virðist skilyrðislaust skylt að fara eftir, alveg án tillits til, hvort ágreiningur verður milli sjúklings og læknis eða eigi, og án tillits til, hvort hið opinbera á í hlut eða eigi.

Her er nú sýnilega verið að leggja inn á alveg nýja braut í löggjöfinni. Hingað til hefir loggjafarvaldið látið afskiptalausar kaupkröfur þeirra stétta og einstaklinga, er ekki hafa annaðhvort beinlínis verið í þjónustu hins opinbera, eða verið ætlað að leysa af hendi ákveðin, tiltekin störf í þágu þess. Því hefir verið haldið fram og stundum allhávært, að hver maður eigi að ráða yfir starfsafli sínu og vera sjálfráður um, hverju verði hann vill selja vinnu sína. Með því er þó vitanlega ekki sagt, að svo framarlega sem ekki hefir fyrirfram verið samið, hafi sá, er starfann selur, alveg óbundnar hendur. Ef svo stendur á, verður sá, er starfann selur, að fara eftir venju og sanngirni, og geri hann það ekki, getur verkkaupandinn leitað verndar dómstólanna. En hér er algjörlega vikið frá þessari reglu um sjálfræði manna yfir vinnu sinni. Eftir 8. og 9. gr. þessa lagafrv. er lækni yfirleitt skylt að gegna sjúkravitjunum, hvenær sem til hans er leitað, þó ekki sé hann embættislæknir. En hann hefir ekki einu sinni neinn tillögurétt um það, hvað hann á að fá fyrir þessi störf sín. Það skammtar heilbrigðisstj. honum algerlega eftir eigin vild. mér er ómögulegt að koma auga á, hvaða rök verða færð fyrir því að taka þannig læknastéttina eina út úr og leggja þessar hömlur á atvinnufrelsi hennar. Ég sé ekki, að hún hafi neina sérstöðu fram yfir ýmsar aðrar stéttir þjóðfélagsins, sem réttlætir slíkt. Á það hefir að vísu verið bent, að löggjöfin veitti læknum nokkur sérréttindi, þar sem öllum utan stéttarinnar er bannað að fara inn á þeirra verksvið. En það er ekkert einsdæmi um þau störf, sem sérþekkingu þarf til, það má benda á skipstjóra og vélstjóra, sem sérréttindi hafa til þess að stunda sína grein. Eða t. d. húsasmiðirnir hér í Rvík; þeir þurfa sérstaka viðurkenningu bæjarstjórnar til þess að mega standa fyrir byggingum í bænum, og öðrum en þeim, er þá viðurkenningu fá, er sú atvinna óheimil. Og þessi sérréttindi einstakra stétta verða vitanlega víðtækari og víðtækari eftir því sem atvinnulíf þjóðarinnar verður fjölbreyttara. Ég get ekki seð, að það væri neitt óeðlilegra heldur en það, sem með þessu frv. er farið fram á að gera gagnvart læknastéttinni, þó sagt væri við menn, sem uppfylla öll skilyrði til þess að verða skipstjórar: þið getið ekki fengið skírteini til þess að vera skipstjórar, nema þið skuldbindið ykkur til að vinna eftir ákveðnum kauptaxta, sem ríkissjóður setur, og með því að leggja nógu víðtækar hömlur á atvinnufrelsi manna, mætti á sama hátt setja öllum stéttum kauptaxta. Vaki það hinsvegar fyrir heim, sem beita sér fyrir ákvæðum 13. gr., að setja gjaldskrá fyrir allar stéttir þjóðarinnar, þá skilst mér, að ákvæði um það ættu frekar heima í almennri atvinnulöggjöf heldur en að fara að dreifa þeim inn í ýmiskonar sérlöggjöf. Ég ætla ekki að fyrra bragði að fara að rökræða um, hvort heppilegt væri að fara almennt inn á þá braut; get þó látið í ljós, að ég teldi slíkt mjög viðsjárvert, enda mun það hvergi vera gert nema e. t. v. í Rússlandi. Hitt er ég ekki í neinum vafa um, að það er rangt að skapa einni ákveðinni stétt þjóðarinnar sérstöðu í þessu efni. Það eina, sem í mínum augum gæti réttlátt slíka ráðstöfun, væri það, ef hlutaðeigandi stétt hefði gert sig seka í einhverri sérstakri óbilgirni í viðskiptum sínum við almenning eða hið opinbera. Slík óbilgirni gæti naumast átt sér stað nema með mjög víðtækum stéttarsamtökum, eða einskonar hringmyndun. Þá væri lögbundinn kauptaxti einskonar neyðarvörn þjóðfél. gegn þeirri áreitni, sem það yrði fyrir. En ég hygg óhætt að fullyrða, að hér er engu slíku til að dreifa. Ég býst við, að það sé ekki ofmælt, að læknastéttin sé ein vinsælasta stétt þjóðarinnar, og að það sé almannamál, að ísl. læknarnir hafi, a. m. k. samanborið við stéttarbræður sína erlendis, verið mjög ódýrir á verkum sínum. Mér finnst reynslan hafa sýnt, að ég fer hér rétt með. Við vitum, að læknar hér hafa yfirleitt ekki safnað auði. Það eru aðeins undantekningar, hafi þeir komizt í dálítil efni. Og þeir læknar, sem hafa haft allra mest að gera, og þeir hafa meira starf og erfiðara heldur en flestir aðrir í þjóðfélaginu, hafa ekki haft meiri tekjur heldur en það, sem þeir rétt hafa getað lifað sæmilega vel af. Og það sýnist ekki ósanngjarnt um menn, sem vinna annað eins hlutverk og mest eftirsóttu læknarnir gera.

Ég er ekki með þessu að koma með neinar getsakir um, að það sé tilætlunin að skammta læknum svo lítil laun fyrir verk sín, að þeim verði ókleift að lifa af þeim. Ég veit ekki, hvað þeir menn, sem að þessu standa, hafa hugsað sér, en ég skal ekki fara að væna þá um það að fyrra bragði, að þeir ætli ekki læknunum viðunandi kjör. En hér er í grundvallaratriðum farið inn á mjög óvanalega, varasama og ósanngjarna braut. Og aðallega af þeirri ástæðu mun ég greiða atkv. á móti 13. gr., þó ég að öðru leyti sé því samþykkur, að frv. nái fram að ganga.

Það hafa sumir viljað hreyfa því, að ákvæði 13. gr. um gjaldskrá fyrir praktiserandi lækna færi í bága við stjskr. Ég fyrir mitt leyti er ekki trúaður á, að svo sé, a. m. k. ekki að því er snertir þá lækna, sem öðlast lækningaleyfi eftir að þessi lög koma í gildi. það getur e. t. v. orkað tvímælis, hvort það megi setja heim læknum, sem nú eru, slík skilyrði, en um þá, sem seinna koma, orkar það ekki tvímælis. Hitt er annað mál, að ég held, að það yrði mjög erfitt að hafa eftirlit með því, að gjaldskránni væri fylgt, og að þeim, sem á annað borð vildu fara í kringum þessi lagaákvæði, yrði það tiltölulega auðvelt. Það má nú segja, að það séu út af fyrir sig engin rök á móti nýmælum í lögum, að bæta geti verið á, að þau verði brotin. En hinsvegar verður þó að gæta þess, að vera ekki að ástæðu litlu að búa til lagaákvæði, sem fyrirsjáanlegt er, að ekki verða annað en pappírsgagn. Þau gera ekkert gagn, en ógagn að því leyti, að þau minnka þá virðingu, sem þegnunum er ætlað að bera fyrir löggjöf þjóðar sinnar.