09.05.1932
Efri deild: 70. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1801 í B-deild Alþingistíðinda. (1849)

35. mál, lækningaleyfi

Bjarni Snæbjörnsson:

það var ekki mikið, sem hv. frsm. vildi fara út í það að tala um læknana yfirleitt, eða ástæðurnar til þess, að hér skuli vera gerð áras á þessa stétt manna. Hv. þm. Snæf. hefir sýnt greinilega fram á það, að læknar eru ólíkt verr settir en t. d. verkamenn hvað snertir kaupgjald. Þeir geta ekki gert verkfall og hefir aldrei dottið slíkt í hug. Þótt það hafi verið sagt í opinberu stjórnmálablaði, sýndi réttarrannsókn, sem for fram út af slíkum ummælum á síðastl. ári, að ummæli blaðsins höfðu ekki við neitt að styðjast.

Viðvíkjandi þeim orðum mínum, að læknar mundu miða launakröfur sínar við efnahag sjúklinga, hafði hv. frsm. það að athuga, að læknar mundu ekki vera svo kunnugir fjárhag sjúklinga sinna, að þetta væri framkvæmanlegt. En ég veit, að engir menn, í hvaða stétt sem er, vita og komast að raun um kjör manna yfirleitt á borð við lækna. Þeir ganga stöðugt í hús manna og sjá allan aðbúnað sjúklingins og geta af því talsvert ráðið um efnahaginn.

Mér fannst það skrítin röksemd hjá hv. frsm., að af því að það gæti komið fyrir, að einhver einn læknir tæki of mikið fyrir vinnu sína, þyrfti að setja gjaldskrá fyrir alla lækna. Þá tók frsm. lyfsalana til dæmis og sagði, að þeim væri gert að skyldu að selja lyf ákveðnu verði. Þetta er rétt. En hinsvegar er það mikill fjöldi lyfja, sem lyfsalar selja, sem engin gjaldskrá nær yfir. Á þau mega lyfsalarnir leggja eftir vild. Þetta er hliðstætt því, að ákveðin væri gjaldskrá yfir helztu störf lækna, en stéttarfélag þeirra hefði svo leyfi til þess að setja gjaldskrá fyrir önnur verk þeirra. Þó að ég minnist á aðgerðir Dana í þessu efni, var það ekki meining mín, að við ættum að apa allt eftir þeim, og mér þykir fyrir, hafi ég sært sjálfstæðistilfinningar hv. frsm. með því að minnast á Dani, en ég hélt, að framsóknarmenn hneyksluðust ekki neitt sérstaklega á því að heyra nefnda Dani og Danmörku. En því minnist ég á Dani, að hér er verið að stofna til löggjafar, sem er beinlínis sniðin eftir þeirri, sem þessi nágrannaþjóð okkar er að hugsa um að lögleiða. Og því meiri ástæða var til þess að taka sérstaklega fram um ákvæði 13. gr., þar sem danska n. sá ekki ástæðu til þess að setja taxta á læknastéttina þar í landi.