09.05.1932
Efri deild: 70. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1803 í B-deild Alþingistíðinda. (1851)

35. mál, lækningaleyfi

Frsm. (Jón Jónsson):

Hér hefir nú komið fram ný skoðun í þessu máli frá hv. þm. Snæf., og er á þá leið, að gjaldskrá eigi ekki einu sinni að setja á héraðslækna. Hv. 4. landsk. virðist vera á því, að rétt sé að setja opinberum embættismönnum taxta, enda hafa þeir verið settir fyrir fleiri stéttir en lækna, t. d. presta. Ég skil ekki í því, að læknar kæri sig um að vera lausir við taxta. Ef þeir fylgja taxtanum, getur aldrei komið upp sá grunur, að þeir okri á starfi sínu.

Þá var það hv. þm. Hafnf., sem var að tala um, að þetta væri að gera ósæmilega áras á sérstaka stétt manna. En hér er ekki að tala um neitt slíkt eða neitt í þá átt, heldur bara um það að setja ákvæði um gjaldskrá, og verður þá að ganga út frá, að þeir menn, sem um lækningaleyfi sækja, viti það, að um leið og þeir fá lækningaleyfi, verða þeir að ganga undir þau skilyrði, sem login setja, og hlíta þeirri gjaldskrá, sem stj. hefir sett, annaðhvort með samkomulagi við lækna, eða þá með valdboði, ef samkomulag ekki næst. Það er svo algerlega fjarri því, að þetta sé ósæmileg áras á sérstaka stétt manna, að það eru margar fleiri stéttir, sem hefir verið settur taxti. Og um það, sem þeir hafa báðir verið að tala um, að ef settur væri taxti fyrir praktiserandi lækna, þá ætti hann aðeins að vera fyrir það, sem þeir vinna fyrir það opinbera, þá sé ég enga ástæðu til þess, hvert á móti. Það er einmitt síður þörf á að vernda það opinbera gegn okri læknanna en einstaka menn, því að ríkið ætti að geta séð um sig, svo að það er miklu meiri ástæða til að vernda einstaklingana.

Þá voru þeir báðir að tala um, að þetta væri alveg óþarft, því læknastéttinni dytti aldrei í hug að beita verkfalli. Ég man þó ekki betur en að árið 1918 eða 1919 segði einn háttsettur læknir við mig, að hann væri með bréf í vasanum, undirritað af flestum læknum landsins, þar sem því væri lýst yfir, að þeir neituðu að starfa, ef þeir fengju ekki laun sín hækkuð svona og svona mikið. Ég veit þá ekki, hvað er hótun um verkfall, ef þetta er það ekki.

Þá var hann að tala um, hv. þm. Hafnf., að þeir hefðu betri þekkingu á því en aðrir menn, læknarnir, hvernig ástæður manna væru. Ég veit nú ekki, hversu ábyggilegt það mat þeirra er, a. m. k. í fjölmenni, eins og er hér í Rvík, þar sem varla er hægt fyrir þá að þekkja fjárhagsástæður manna almennt, því það eitt, hvort maður hefir fínt í rúminu eða ekki, er Varla óábyggilegt mat, því margur býr nú finna en hann hefir ráð á, en svo bera þeir sig oft verst, sem bezt eru staddir.

Þá var hv. þm. að minnast á það, sem ég hafði sagt viðvíkjandi lyfsölunum, og sagði, að það væri ekki hliðstætt, því þeim væri settur lyfsölutaxti á viss lyf, en ekki á önnur, sem þeir þá gætu selt eins og þeim sýndist. En þetta er þá af því, að lyfsöluskráin er ekki eins fullkomin og hún getur orðið, og ég býst nú við, að það verði eins með gjaldskrána, a. m. k. fyrst í stað, að hún taki ekki yfir allt það, sem læknar gera, svo þetta er því að nokkru leyti hliðstætt.

Þá var hv. þm. Hafnf. að tala um, að það væri einkennilegt að vera að tala um þörf á að setja taxta, þó það gæti komið fyrir, að læknar seldu verk sín of dýrt, ef það væri viðurkennt, að þeir gerðu það ekki. Ég held, að það sé nú ekki hægt að hafa neitt á móti því að setja strax undir þann leka, sem maður getur búizt við. enda er það vitanlegt, að ýmsir læknar hafa selt óhæfilega dýrt sín verk, þó ýmsir aðrir hafi gefið sín verk, þar sem fátækir áttu í hlut, eða einhvern hluta af þeim. Þess vegna er það ekki óviðfelldið að setja eftirlit með þessu, um leið og mönnum er veitt lækningaleyfi.

Þá var hv. þm. að tala um, að það mundi hafa sært sjálfstæðiskennd mína, að verið var að vitna til Dana í þessu máli, en um það hafði ég nú ekkert sagt. En ég var að halda því fram, að það væri ekki sjálfsagt fyrir okkur að laga allt eftir Dönum. Og það get ég sagt þessum hv. þm., úr því að hann minnist á þetta, að það er ekki minni sjálfstæðiskennd gagnvart Dönum hjá framsóknarmönnum en hjá sjálfstæðismönnum, þó þeir kenni sig við sjálfstæði, enda var mikill hluti af þeim mönnum, sem framarlega standa í framsóknarflokknum, áður í gamla sjálfstæðisflokknum.

Þá var hv. 4. landsk. að tala um, að ég hefði sagt, að gjaldskrá hafi verið sett fyrir héraðslækna fyrir 20–30 árum, og að alltaf hefði verið farið eftir henni. Nei, það er nú öðru nær en að ég hafi nokkurn tíma haldið því fram, að það hafi alltaf verið farið eftir gjaldskrá héraðslækna um greiðslur til þeirra, því mér er vel kunnugt um það, að þeir hafa oft og tíðum selt verk sín margfalt dýrara en gjaldskrá heimilar, og það er kannske nokkur vorkunn, því hún er fyrir löngu orðin alltof lág, því það hefir verið dregið óþægilega lengi að endurskoða hana.

Sami hv. þm. var líka eitthvað að tala um þá viðleitni, sem kæmi fram í frv. í þá átt að jafna á milli snillinganna og klaufanna. En ég býst nú ekki við, að það verði gert, þó þessi gjaldskrá verði sett. Snillingarnir munu alltaf hafa betri aðstöðu en klaufarnir, vegna þess að þeir hafa miklu meiri aðsókn, af því að fólk treystir þeim betur, en ég geri ráð fyrir, að klaufarnir fari á mis við alla aðsókn.

Ég tel sjálfsagt að samþ. 13. gr. frv.