09.05.1932
Efri deild: 70. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1808 í B-deild Alþingistíðinda. (1853)

35. mál, lækningaleyfi

Jón Baldvinsson:

Af því að hv. þm. hafa gert sér svo tíðrætt um 13. gr. þessa frv. og borið hana saman við ýmislegt annað og talað um það fram og aftur, þá þykir mér líka rétt að fara um hana örfáum orðum. Það, sem er í 13. gr. og hneykslar suma hv. dm., er ákvæðið um, að sett skuli föst gjaldskrá fyrir praktiserandi lækna, ef ekki næst samkomulag. Fyrst er gert ráð fyrir að leita samninga við lækna, en ef samningar ekki nást, þá á að setja gjaldskrá með valdboði ráðh. nú er það svo um þessar sérstöku stéttir, lækna, apótekara og yfirsetukonur, að það þarf að tryggja almenningi, að hér geti ekki tekið of hátt gjald, og það er einmitt af því, að fólkið er nauðbeygt til að leita til þessara manna og borgar þá hvað, sem upp er sett. Það er líka auðvitað meginhlutinn af þessum mönnum, sem heimtar aðeins sanngjarna borgun, og t. d. eru sjálfsagt beztu praktiserandi læknarnir alltaf sanngjarnir og gefa fjölda fátæklinga eftir læknisverk sín að einhverju eða öllu leyti. En þó er almenningur gagnvart læknunum alveg varnarlaus, ef þeim dytti í hug, og maður veit, að þeir hafa oft gert það, að setja upp mjög stórar fjárhæðir fyrir læknisverk. Þess vegna eru læknar ósambærilegir við flestar aðrar stéttir. Gagnvart læknum er það nauðsynlegt, að sett séu einhver ákvæði til að tryggja sjúklingana, því að mjög margir sjúklingar, sem leita læknis, eru þannig skapi farnir, að læknirinn getur sett upp hvað sem honum sýnist.

Þetta er allt annað með ýmsar atvinnustéttir, sem teknar hafa verið hér til samanburðar, t. d. skipstjórastéttina. Ég álít alveg óþarft að vera að setja taxta fyrir þá, eins og verið var að reyna að koma inn í fjárl. um þá skipstjóra, sem vinna hjá Eimskipafél. Þessir menn semja við félag eða firma eins og t. d. Eimskipafél. Eins og skipstjóri og Eimskipafél. séu ekki ólíkt jafnari aðilar til að semja en sjúklingur og læknir! Það er ekkert sambærilegt.

Hv. 1. landsk. kom með apótekarana og talaði um, að þeir hefðu sérréttindi eða monopol. Mér skilst nú, að læknar hafi líka nokkurskonar monopol; þeir eru privilegeraðir. 2. gr. frv. veitir þeim ótakmarkað lækningaleyfi, ef þeir fullnægja ákveðnum skilyrðum. Lögin tryggja þeim þannig sinn rétt, en vilja svo hafa það á móti, að þeir vinni fyrir ákveðið kaup. Þetta er alveg ósambærilegt við flestar aðrar stéttir.

Hv. 1. landsk. var að bera saman vinnudóminn og 13. gr. frv., en þar er nú ólíku saman að jafna. Við skulum segja, að félag nokkurt hefði 1000 verkamenn í sinni þjónustu, og þingið setti á stofn vinnudóm til að skera úr kaupdeilu milli þeirra og firmans. Það, sem þingið væri þá að gera með heim vinnudómi, væri að tryggja það, að 1 firma fengi 1000 menn dæmda til þess með vinnudómi að vinna fyrir þetta kaup eða hitt, sem honum þóknaðist að dæma, sem jafnan yrði atvinnurekandanum í vil, eins og þessir vinnudómar yrðu vafalaust skipaðir. Eða læknir, sem hefir 1000 sjúklinga, sem hann einn á að taka borgun af. Nei, ég get með góðri samvizku verið með 13. gr. þó ég væri á móti vinnudómnum og takmörkuninni í fjárl.

Ég held, að í ljósmæðralögunum sé yfirsetukonum ætlað að vinna eftir gjaldskrá, líka praktiserandi yfirsetukonum. Þetta er ha orðið fast í lögum, og rétt, að það sama gildi fyrir lækna og yfirsetukonur í þessu efni.

Hv. 1. landsk. var að tala um það, að það mætti bera saman læknislist og málaralist, og það ætti ha eins að setja fast verð á málverk. Þetta hefir nú áður komið fram hér í umr., og einn ágætur læknir (VJ), sem hlutaði á þetta, svaraði því til, að ef það væri nauðsynlegt fyrir konu, sem væri að fæða barn, að fá listaverk frá Kjarval til að stöðva blóðrás, þá væri hann með því að setja gjaldskrá fyrir listmálara. Mér sýnist því, að þessi samanburður geti ekki vel staðizt.

Hv. sessunautur minn, 2. þm. Árn., hefir bent mér á mállýti í 13. gr., og þykir mér rétt að leiðrétta þau. Það stendur þar, í 3. málsgr.: „sem menn með takmörkuðu lækningaleyfi fremja“. Þetta er dálítið óviðkunnanlegt orðalag, að tala um, að menn fremji lækningar, og ég held, að það væri heppilegra að orða þetta svo: „manna með takmörkuðu lækningaleyfi“; það fer betur í máli, og ég ætla því að bera fram skriflega brtt. um það, og vona, að hún komist að með afbrigðum. (JónÞ: Má hún ekki bíða til 3. umr.?). Það er aðeins orðabreyt., og sparar endurprentun á frv. að samþ. hana nú.