09.05.1932
Efri deild: 70. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1812 í B-deild Alþingistíðinda. (1859)

35. mál, lækningaleyfi

Einar Árnason:

Það kemur ljóst fram í umr., að hv. þm. þykir mikils við þurfa gagnvart 13. gr. frv., því ekki færri en 5 hv. sjálfstæðismenn hafa nú staðið á fætur til þess að andmæla þessari gr, í sjálfu sér geri ég ráð fyrir, að það komi nokkuð í sama stað niður, hvort þeir tala 5 eða þó ekki hefði talað nema einn þeirra, því ég hefi ekki heyrt neinn mun á ræðum þeirra, hvorki að skoðunum né rökum.

Úr því ég stóð á fætur, get ég ekki látið vera að benda hv. þm. Snæf. á, að það er víst um að ræða dálítið misminni hjá honum, þegar hann heldur því fram, að engin verkfallshótun hafi komið frá læknunum árið 1919. Ég var þá á þingi eins og hann og vissi vel, hvað gerðist í þeim efnum. Ég skal líka benda á það, að það gekk ekki nærri því eins greiðlega og hv. þm. hélt fram að semja lögin um laun læknanna, og það stafaði einmitt af því, að kröfur þeirra voru mun harðari en kröfur annara stétta embættismanna. Annars sé ég ekki ástæðu til að svara ýtarlega ræðum þessara hv. þm. Það hefir ýmislegt verið sagt um læknana og sanngirni þeirra. Alþýða manna þekkir þetta mál af eigin reynd og hún getur náttúrlega brosað góðlátlega að fullyrðingunum. Það hefir verið sagt, að praktiserandi læknar hafi aldrei sýnt ósanngirni í verkasölu sinni, og að þeir hefðu enga aðstöðu til þess að sýna ósanngirni í þeim efnum. Ég ætla ekki að fara að leggja neina dóma á læknana yfirleitt, ég býst við, að í hópi þeirra séu góðir menn eins og annarsstaðar, en að það komi aldrei fyrir, að þeir fari fram úr sanngirni í kröfum sínum, býst ég ekki við, að hægt sé að halda fram. Um það hefir fólkið sínar skoðanir, sem ekki verða hraktar með neinum yfirlýsingum hv. þm.

Hv. 1. landsk. sagði, að lyfsölunum væri sett gjaldskrá, af því að þeir væru svo fáir, en það má raunar segja það sama um héraðslæknana, þeir eru fáir, samanborið við stærð landsins og fólksfjölda þjóðarinnar. Ég geri ráð fyrir, ef eins væri háttað um störf prestanna og störf læknanna, að þá mundu yfirleitt ekki nota presta nema efnamenn og þess vegna þyrfti ekki að setja farandprestum, ef þeir væru til, neina gjaldskrá, að almenningur mundi frekar sneiða hjá þeim heldur en þola ósanngjarnar kröfur frá þeirra hendi. En það stendur allt öðruvísi á með læknana og hina veiku, þeirra viðskipti grípa inn á svið tilfinninganna. Það er dálítið broslegt, þegar hv. 1. landsk. er að setja störf læknanna í samband við listir, svo sem tónsmíðar og málverk. Það sýnist nokkuð fjarstæð samlíking.

Þá benti hv. 1. landsk. á það, að vel mætti leita úrskurðar um greiðslu til læknis frá sjúklingi, ef krafan þætti of há. En ég vil aðeins spyrja, hve margir sjúklingar mundu gera það? Ég er viss um, að það dytti engum sjúklingi til hugar að gera slíkt. Viðskiptum læknis og sjúklings er nú einu sinni svo farið, enda veit hv. 1. landsk. það vel, að til slíks mundi aldrei koma. Það er nú svo, þegar sjúklingur þarf að leita læknis, að þá er ekki verið að spyrja fyrirfram um kostnaðarhliðina, því hún getur ekki ráðið neinum úrslitum. Annars er ég ekki að halda því fram, að læknar yfirleitt noti eða muni nota sér þá aðstöðu, sem þeir ómótmælanlega hafa, en það er dálítið undarlegt þetta kapp, sem á það er lagt hér í hv. d. að vinna móti gjaldskránni. Úr því að læknarnir eru jafnsanngjarnir og þeim er lýst, þá er sjálfsagt ekki hætt við því, að ekki fáist samkomulag við þá um að ganga inn á sanngjarna gjaldskrá. Annars býst ég ekki við, að umr. um málið fram úr þessu breyti nokkru um úrslit þess.