03.06.1932
Neðri deild: 92. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 556 í B-deild Alþingistíðinda. (186)

1. mál, fjárlög 1933

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

það er misskilningur hjá hv. þm. Seyðf., að sjóðeign ríkissjóðs um áramót og væntanl. tekjur á árinu nægi til þess, að staðið verði við verklegar framkvæmdir samkv. fjárl. Hv. þm. má vita, að það þurfa að vera upp undir 4 millj. kr. í sjóði um áramót til þess að mæta greiðslum ríkissjóðs fyrstu mánuði ársins, þó að um engan tekjuhalla sé að ræða.

Ég skil það vel, að hv. þm. Seyðf. hafi gert sér miklar áhyggjur út af afleiðingum þeirra gerða sinna að greiða atkv. á móti fjárl., ef það hefði ráðið úrslitum. En þar sem aðrir hafa nú orðið til þess að sporna við því og hjálpað til að afgreiða fjárl. nú í þinglokin, þá hygg ég, að hann ætti nú að láta huggast af þessu og spara sjálfum sér slíkar áhyggjur og óþarfar fyrirspurnir.