11.05.1932
Efri deild: 72. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1819 í B-deild Alþingistíðinda. (1865)

35. mál, lækningaleyfi

Bjarni Snæbjörnsson:

ég hefi leyft mér, ásamt hv. 4. landsk., að bera fram brtt. við 13. gr., í fyrsta lagi, að 4. málsgr. í þessari gr., sem fjallar um, að sérfræðingum sé settur sérstakur taxti, falli burt. Fyrst og fremst er það svo, að ég get ekki skilið, að 4. og 5. málsgr. þessarar gr. geti samrímazt. Í báðum málsgr. er verið að ræða um sérfræðinga, og ef þær ættu að geta samrímazt, þá hlyti að verða mismunandi hár taxti hjá þessum mönnum, sem þar ræðir um. Í 5. málsgr. er nefnilega svo fyrir mælt, að læknar, sem hafa á hendi opinber störf fyrir ríkið eða bæjar- eða sveitarfélög, skuli ekki hafa lægri laun fyrir það heldur en meðalhéraðslæknar eru launaðir. Nú er það vitanlegt, að t. d. yfirlæknarnir við landsspítalann eru sérfræðingar í sinni grein. Ef þessi málsliður væri samþ. óbreyttur, þá mundi þeim gert að skyldu, þótt sérfræðingar væru, að taka ekki hærri laun fyrir sín störf heldur en almennir héraðslæknar. Fyrir því hefir mér fundizt sjálfsagt að láta sérfræðingana vera lausa við taxtann. Mér virðist, að það ættu að vera samningar milli sérfræðinganna og landlæknis, eftir hvaða taxta þeir ættu að fara. Það er líka órétt að láta sérfræðinga búa við svipaðan taxta og aðra lækna. Starfssvið þeirra er nokkuð öðruvísi en annara lækna. Þeir hafa ekki aðrar lækningar með höndum en þær, sem eru viðkomandi þeirra sérgrein, og svo mun það oftast vera þannig, að þeir, sem til þeirra koma, þurfi á sérstaklega vandasamri og nákvæmri rannsókn að halda. Þar að auki verða sérfræðingar undir flestum kringumstæðum að fylgjast betur með í sinni sérgrein heldur en almennir læknar. Álít ég það því bæði varhugavert og óréttmætt að setja þeim taxta, varhugavert af því, að hætta yrði á, að sérfræðingar myndu frekar kasta til þess höndunum að rannsaka sjúkl. sína og ekki fylgjast jafnvel með og þeir annars myndu gera, og óréttmætt er það af því, að vitanlegt er, að taxti þeirra hefir hingað til ekki verið hærri en sanngirni er til. Það á því að vera samningsatriði milli sérfræðinganna og landlæknis, hvað þeim bæri fyrir verk sín.

Síðari brtt., við 13. gr., er um það, að aftan við síðasta málsl. þeirrar gr. bætist, að eftir heim taxta, sem landlæknir setur og ráðh. staðfestir, skuli farið í öllum viðskiptum við ríki, bæjar- og sveitarfélög, og ef ágreiningur verður milli læknis og sjúklings um greiðslu fyrir læknishjálp.

Það hefir verið þannig, að þessi taxti, sem nú gildir fyrir héraðslækna, hefir verið skoðaður einmitt frá þessu sjónarmiði. Það hefir verið álitið, að eftir honum bæri að fara, þegar það opinbera ætti hlut að máli, og einnig væri það lágmarkstaxti, sem læknar ættu ekki að fara niður fyrir og væri notaður til hliðsjónar, þegar ágreiningur yrði um borgun fyrir læknishjálp. Þessi brtt. er því borin fram í samræmi við þessar reglur.

Ég held líka, að það liggi í augum uppi, að rétt sé að hafa lágmarkstaxta í þessu tilliti, en svo sé læknum heimilt að taka hærra gjald fyrir sín verk, t. d. af þeim útlendingum, sem þurfa að fá hér læknishjálp. Það er mjög svo óviðkunnanlegt og ekki réttmætt, að útlendingar njóti að þessu leyti margfalt betri kjara hjá okkur heldur en við njótum hjá þeim, enda hafa ýmsir héraðslæknar, sem farið hafa eftir gamla taxtanum, rekið sig á það, að útlendingar hafa blátt áfram álitið þá skottulækna, ef þeir hafa ekki tekið hærra gjald en lögboðið var í gamla taxtanum. Þetta er líka eðlilegt, því að það hefir sýnt sig, að ef t. d. háseti af ísl. togara þarf að fá læknishjálp í Englandi, þá kostar það aldrei minna en eitt sterlingspund.

Þá höfum við hv. 4. landsk. borið fram brtt. við 15. gr., að 4. málsgr. skuli falla niður. Okkur flm. virðist algerður óþarfi að láta þessa málsgr. standa þar, af því að allt, sem þar er tekið fram, stendur í 6. gr. Það virðist því eðlilegt og sjálfsagt, að þessi málsliður falli niður.

Fleiri brtt. hefi ég ekki séð mér fært að bera hér fram til að fá samþykkt á hér í hv. d., þó að ég hefði gjarnan viljað breyta frv. á fleiri stöðum.