03.06.1932
Neðri deild: 92. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 557 í B-deild Alþingistíðinda. (188)

1. mál, fjárlög 1933

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Mér þykir leitt, að hv. þm. Seyðf. skuli enn vera jafnáhyggjufullur og áður. Og mér þykir ennfremur leitt að geta ekki sagt fyrir um orðna hluti, sem hefðu leitt af því, ef hv. þm. og flokksbræðrum hans hefði tekizt að fella fjárlagafrv. En um hitt, hvernig hugarfar mitt hafi verið í þessu efni, þykir mér ekki ástæða til að gefa neina yfirlýsingu. Þó er útlátalaust fyrir mig að segja það, að ég hefði verið því fylgjandi að leggja til, að þingið yrði rofið. En hvað þá hefði komið á eftir, ef svo hefði farið við kosningar, sem útlit er fyrir, að sama afstaða hefði verið eins og nú á milli flokkanna í þinginu, það er erfitt að segja. Liggur þá næst fyrir mig að spyrja hv. þm., hvað honum sýndist, að rétt hefði verið að gera, ef fjárl. hefðu verið felld aftur á nýkosnu þingi. Þetta gat vitanlega endurtekizt þangað til ekki hefði orðið hjá því komizt að stjórna eftir bráðabirgðafjárlögum. En þar sem þessar óhjákvæmilegu afleiðingar hefðu aðeins orðið vegna framkomu hv. þm. og flokksbræðra hans, virðist fásinna af honum að varpa fram þessari fyrirspurn, eins og ábyrgðin hvíldi á öllum öðrum. Ég sé ekki ástæðu til, að hv. þm. spyrji, hvað hefði orðið, ef þetta eða hitt hefði átt sér stað. Ég hefði fremur kosið að heyra eitthvað, sem við kemur núverandi ástandi frá hv. þm., heldur en þær óhlutrænu fyrirspurnir, sem hann hefir varpað hér fram.