15.04.1932
Neðri deild: 52. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1828 í B-deild Alþingistíðinda. (1895)

165. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Pétur Ottesen:

ég hefi satt að segja ekki athugað þetta frv. fyrr en nú rétt nýverið, en ég sé, að það er sami yfirgangsandinn, sem fram kemur í þessu, eins og þeim tilraunum, sem gerðar hafa verið á undanförnum þingum til að koma nágrenninu undir yfirráð Rvíkur. Eftir þessu frv., sem hér liggur fyrir, á Rvíkurhöfn að ná til Engeyjar og Viðeyjar og um allt svæðið þar innar af, inn í innstu voga. Ég held, að það snerti ekki svo lítið íbúa Kjósarsýslu, og þykir mér það harla undarlegt, ef þeir láta sig engu skipta þetta mál.