15.04.1932
Neðri deild: 52. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1829 í B-deild Alþingistíðinda. (1897)

165. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Pétur Ottesen:

Ég vil spyrja að því, hvort álits þeirra héraðsstjórna, sem hér eiga hlut að máli, hreppsnefnda og sýslunefndar, hafi verið leitað. Ef svo er ekki. vil ég benda á það, að ég tel með öllu rangt af þinginu að taka ákvörðun um þetta mál. Aðilar þessir eiga hinn fyllsta rétt til að segja álit sitt og að það álít verði tekið til greina. Rvík er hér ekki í fyrsta sinn að seilast til yfirráða utan lögsagnarumdæmis síns. Má vera, að ekki sé rétt, að hafnarlög þessi eigi að ná til Viðeyjar og Engeyjar, en þó er talað um, að þau nái að netalogum, sem ná aðeins 60 faðma frá landi. Hinsvegar er svæðið í kringum Geldinganes og Eiðsvík lagt undir hafnarlögin. Þegar um slíka ásælni er að ræða, virðist það vera hið minnsta, sem hægt er að gera, að lofa þeim aðilja, sem fyrir ásælninni verður, að láta álit sitt í ljós. Rvík hefir verið áleitin um að færa út takmörk sín, og þrátt fyrir mikla mótspyrnu á Alþ. hefir henni orðið allmikið ágengt í þessu efni. Á síðasta þingi tókst Rvík að ná undir sig Skildinganesi, og áður hafði hún sölsað undir sig jarðir í Mosfellssveit.