15.04.1932
Neðri deild: 52. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1830 í B-deild Alþingistíðinda. (1898)

165. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Frsm. (Einar Arnórsson):

Ég get verið fáorður út af ræðu hv. þm. Borgf. Það er eins og gripi hann jafnan eitthvert krampakennt „hysteri“, þegar um er að ræða rétt og hagsmuni Rvíkur gagnvart Mosfellssveit og Seltjarnarnesi. Þessi veikleiki hefir einnig gripið hann nú. Þó gat hann ekki bent á, að gengið væri á rétt þessara aðilja í einu einasta atriði. Hefði þó mátt búast við, að hann kæmi með einhverja atyllu, ef hún hefði verið til. Eins og hv. 1. þm. Rang. sagði, er með þessu verið að létta byrði af Kjósarsýslu. Á Eiðsvík eru skipsskrokkar, sem sýslunni er lögum samkv. skylt að sprengja eða færa burt. Það þýðir ekki að tala um að snúa sér til eigendanna um greiðslu á kostnaði, því að þeir eru dauðir, gjaldþrota eða farnir. Annars er ómaklegt að bregða Rvík um ásælni til landa. Með lögum um lögreglu- og tollstjórn í Rvík 1928 var Skildinganes lagt undir Rvík að því leyti sem lögreglu- og tollmál snertir, án þess að Rvík óskaði þess. Það sem á eftir fór, var aðeins eðlileg afleiðing.

Ég get ekki seð, eftir að brtt. mín er komin fram, að neinum sé mein gert, þótt frv. Þetta verði að lögum. Ef hægt er að sýna mér fram á það, skal ég manna fúsastur koma með nýja brtt.

Eins og menn vita, fylgja netalög hverri jörð, 60 faðma frá landi. Svo er því hér um Viðey, Engey, Gröf og Keldur. En Gufunes er hinsvegar eign Rvíkurbæjar, þótt netalögin þar falli undir hafnarstj. Rvíkur, er engin ágengni í því, því ef Mosfellssveit eða sýslufél. þyrfti á þessu landi að halda, mætti taka það lögnámi, ef ekki nást samningar. Undir eins og hv. þm. Borgf. sýnir mér fram á, að sé verið að ganga á rétt einhvers, skal ég koma með brtt. En meðan það er ekki gert, breyti ég ekki skoðun minni.