03.06.1932
Neðri deild: 92. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 559 í B-deild Alþingistíðinda. (190)

1. mál, fjárlög 1933

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Ég verð að segja það, að ég hafði búizt við, að hv. fjvn. mundi bera fram till. til lagfæringar á fjárlfrv., eins og það kom frá hv. Ed. eftir meðferðina þar. Ég kann því illa, að sú hefð komist á, að Ed. sé látin vera einráð um afgreiðslu fjárl. og að hún geti sett sinn svip á þau. Ég hafði einnig búizt við því, að hv. fjvn. mundi áætla einhverja fjárupphæð í fjárl. til kreppuráðstafana, hvort sem það væri kallað til atvinnubóta eða einhvers annars. Hv. frsm. gerði ráð fyrir því í ræðu sinni, að nýir skattar yrðu lagðir á til viðbótar þeim, sem fyrir eru, og þá finnst mér það ekki verjandi af hv. fjvn. og hv. hd. að afgreiða fjárl. án þess að gerðar séu nokkrar raðstafanir til þess að hlaupa undir baggann og hjálpa almenningi í kreppunni. Ég hefi áður getið þess, að þetta er að vísu ekki æskileg aðferð, en það getur verið bráðnauðsynlegt þessum erfiðu tímum, og þýðir ekki að loka augunum fyrir því.

Hv. þm. Seyðf. skýrði frá því, hvernig stj. hefði farið með þá heimild, sem henni er veitt í núgildandi fjárl., til þess að létta undir með kaupstaðarbúum í atvinnuleysinu. Sú skýrsla sýnir, að henni hafa verið mislagðar hendur, þar sem einstöku bæjarfélög hafa hlotið talsverðan atvinnubótastyrk, en önnur ekki neitt, þó að ástæður þeirra væru mjög líkar. Vegna þess að ég er mjög óánægður yfir því, að hv. fjvn. skuli ekki bera fram neinar till. til lagfæringar á fjárlfrv., mun ég fallast á brtt. hv. þm. Seyðf. og greiða atkv. með henni.