15.04.1932
Neðri deild: 52. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1832 í B-deild Alþingistíðinda. (1901)

165. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Jón Ólafsson:

Hv. þm. G.-K, hefir aflað sér allra nauðsynlegra upplýsinga um þetta mál, svo að ljóst er, að ekki er verið að ganga á rétt neins eða taka neitt frá neinum. Um rétt Rvíkur fyrir landi Skildinganess og Þormóðsstaða efast enginn, og þarf því ekki um hann að tala.

Eftir núg. hafnarlögum takmarkast norðurhluti hafnarsvæðisins af línu í mið sundin og beinni línu rétt fyrir sunnan netalögin. Nú þarf að draga línuna fyrir Gufunes, Eiðsvík og Geldinganes. Þetta er umhirðulaust pláss. Skip hafa lagzt þarna og Gufunesbóndi ekki ráðið við, þótt þau sykkju. Síðan Rvík eignaðist Gufunes, hafa tvö skip sokkið þar, en engum ber skylda til að koma skrokkunum burtu. Ef Rvík tekur hinsvegar þetta svæði að sér, verður hún að annast hreinsunina. Ef þarna kynni að rísa upp kaupstaður, er hann tryggður með ákvæðum um lögnámsheimild fyrir bæjar- eða sveitarfélög, og þeir, sem eiga eyjarnar, eru tryggðir með brtt. hv. 2. þm. Reykv. Ég veit, að fyrirhafnarlítið er að leita umsagnar sýslumannsins í G.-K. um þetta mál, og þykist ég vita, að hann muni fremur fagna því en vera því andvígur.