28.04.1932
Neðri deild: 62. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1836 í B-deild Alþingistíðinda. (1913)

165. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Jón Ólafsson:

Mér þykir lakara, að hv. þm. N.-Ísf. er hér ekki viðstaddur í þd. til þess að heyra mál mitt, því að ég ætlaði fyrst og fremst að mæla fyrir brtt. minni við brtt. hans á þskj. 535. Inn í till. hans hefir slæðzt sú meinloka, sem ekki fær staðizt; ég á við orðin í síðasta málsl. till. um: að skip, sem afgr. eru í Viðey skuli ekki vera gjaldskyld til Rvíkurhafnar. Þetta ákvæði er vitanlega byggt á misskilningi, því að fjöldi skipa, sem afgreidd eru í Viðey, eru einnig afgreidd í Rvíkurhöfn í sömu ferð, og skip, sem fyrst koma til Rvíkur og fara þaðan til Viðeyjar hljóta að vera gjaldskyld í Rvík. En ef skip koma beint til Viðeyjar og eru afgreidd þar, þá þurfa þau ekki að greiða gjöld til Rvíkurhafnar fremur en þau skip, sem eiga heima í Viðey. Þetta gæti valdið hrapallegum misskilningi og gengið í það óendanlega, ef setja ætti í lögin ákvæði um það, að skip, sem afgreidd eru hér eða þar á landinu, skuli ekki vera gjaldskyld til Rvíkurhafnar. Ég get því ekki getur séð en að það sé hreint og beint vansi að því að hafa slíkt ákvæði í lögum, sem er svo rúmt, að ætla má, að skip, sem hljóta afgreiðslu á öðrum höfnum, eigi ekki að greiða gjöld í Rvíkurhöfn, þó að þau komi þar við. Það mætti náttúrlega orða þessa gr. svo ljóst, að skip, sem afgreidd eru í Viðey, skuli ekki vera gjaldskyld til ytri hafnar Rvíkur. Ég vona, að hv. þdm. sjái, að þetta ákvæði er vegna misskilnings komið inn í brtt., og eftir því sem ég veit bezt, þá er tillögumaðurinn sjálfur eigi valdur að því beinlínis, heldur einhver kunnugur maður utanaðkomandi. Það sjá allir að er ekkert annað en fjarstæða að ætla skipum, sem koma á innri höfnina í Rvík, að vera undanþegin hafnargjöldum.

Hv. þm. Borgf. flytur brtt. á þskj. 558 við þetta frv., og veit ég ekki, hvað því veldur. Ég skil ekki, hvað hv. þm. gengur til með að slá þennan varnagla fyrir Viðey. Önnur brtt. hv. þm. N.-Ísf. veitir Viðey fullan rétt fyrir hafnarrekstri þar, og allt, sem þörf er á í sambandi við það, eftir samkomulagi við þá menn, sem eru fulltrúar fyrir Viðey og hafa þar eignarumráð. Þeir hafa og óskoraðan rétt til að ráðast þar í hverskonar hafnarmannvirki.

Ég held, að það hljóti að vera öllum ljóst, að það er skylda Alþ. að gæta þess, að ekki verði þrengt um of að þeim 30 þús. manna, sem búa í Rvík, og að þeir geti haldið óskertum sínum réttindum til starfrækslu hafnarinnar. Þegar athuguð er aðstaðan hér inni með vogunum og við sundin, þá eru engar líkur til, að þar verði reistar hafnarborgir á þeim slóðum og jafnvel ekki í Viðey. Það er auðséð á því, að undanfarið hefir reynzt of dýrt að reka fiskiveiðastöð í Viðey; það þarf að sækja flestar nauðsynjar yfir sundið til Rvíkur og með öllum þeim sendiferðum milli lands og eyjar hefir það sýnt sig, að reksturinn er dýrari í Viðey. Þar eru ekki við hendina þau tæki, sem á þarf að halda til aðgerða skipum o. fl. Þar eru engin iðnaðar- eða smíðaverkstæði, og verður því að sækja þá vinnu til Rvíkur. En hinsvegar er of dýrt að hafa slíkan rekstur þar, nema komið verði þar upp risafyrirtæki til útgerðar, sem getur veitt sér þau tæki sjálft. Jafnfjölmennur bær og Rvík er nú orðin á fullan kröfurétt á því, að hagur hennar verði tryggður með aðstöðu til hafnarinnar, ekki sízt þegar það er auðvelt, án þess að skerða réttindi eða aðstöðu þeirra, sem búa næst Rvík. Í brtt. hv. þm. N.-Ísf. er sleginn varnagli við þessu, og þeir, sem eiga hlut að máli að því er Viðey snertir eru fyllilega ánægðir með þær ákvarðanir.

Rvíkurbæ er nauðsyn að eiga hafnarréttindi fast að netalögum Engeyjar, vegna umferðar og athafna við dráttarbát, ísbrjót og annað, er hafnsögumaður Rvíkur hefir meðgjörð með. Hann verður oft að sækja skip út fyrir eyjar og þarf að hafa fullkomin umráð á svæðinu framan við hafnarmynnið, til þess að geta lagt skipunum á ytri höfninni, þangað til þau geta komizt að á innri höfninni. Allir hljóta að sjá, að það er óviðunandi fyrir bæinn, sem lagt hefir fleiri millj. kr. í hafnarmannvirki, að hafa ekki fullt frjálsræði til að nota þau. Ég vona, að jafnvel hv. þm. Borgf. láti sér skiljast það, að engin líkindi eru til þess að það rísi upp stór þorp hér inni með vogunum, sem byggi hafnarmannvirki út frá sínu landi, annarsstaðar en í Viðey, og þeir möguleikar eru tryggðir með brtt. hv. þm. N.-Ísf.

Hv. þm. Borgf. þykir ófært, að Rvík sé að seilast eftir hafnarréttindum út af Geldinganesi. En ég hefi áður lýst þeirri nauðsyn, að Rvík fái ráð yfir Eiðsvík, til þess að sporna við því, að hinir og aðrir geti lagt þar ónýtum skipum, sem þeir vilja ekki nota lengur, og er komið þangað í síðustu höfn. Og útkoman af þessu hefir orðið sú, að 5–6 skip eru komin þar á botninn, svo að þetta ágæta skipalægi, sem var öruggasta vetrarhöfn hér í grenndinni, er nú með öllu ófært. Af þessum ástæðum er það óhjákvæmileg nauðsyn, að Rvík fái yfirráð yfir sundunum, en vitanlega án þess að skerða réttindi Viðeyjar, og ég vil fullyrða, að hafnaraðstaða í Viðey verður miklu verðmætari, ef Eiðsvík yrði hreinsuð, þannig að hún geti orðið öruggt skjól fyrir hvaða skip, sem leitar þar hafnar. Ef hv. þm. litu yfir Eiðsvík um stórstraumsfjöru, þá mundu þeir sjá þar 4–6 skipsskrokka og ekki telja álitlegt að nota hana sem höfn. Áður var hún hið öruggasta vetrarlægi, og verður að hreinsa hana til þess að skip geti legið þar aftur tíma úr vetrinum.

Það virtist koma fram í ræðu hv. þm. Borgf., að Rvík okraði á afnotum annara á ytri höfninni, en ég get fullvissað hv. þm. um, að Rvíkurbær tekur engin hafnargjöld fyrir skip á ytri höfninni. Að vísu eru þau gjaldskyld til innri hafnarinnar, ef vöruuppskipun fer þar fram, eða hvar sem er annarsstaðar á hafnarsvæði Rvíkur, enda er það sjálfsagt, til þess að aðstaðan verði ekki misnotuð og reynt að smokra skipunum undan því að greiða lögtmæt gjöld til hinna dýru hafnarmannvirkja hér. Það, sem verið er að tryggja með þessu frv., er hið sama og þegar jarðirnar Skildinganes og Þormóðsstaðir voru lagðar undir Rvíkurlögsagnarumdæmi.

Ég geri ráð fyrir, að ef hv. þm. Borgf. liti yfir staðhætti hér inni með vogunum, hætti honum ótrúlegt, að nokkur mundi leggja í það að skipa vörum á land utan við innri höfn Rvíkur, því að það mundi ekki borga sig á nokkurn hátt. Hinsvegar á Rvík allar fjörur inn meðfram Grafarvogi utanverðum, og það gæti ekki komið til mála, að þar yrðu reist hafnarmannvirki eða byggðar bryggjur, nema áður verði þar stofnað til einhvers stórrekstrar, og fyrir því eru engar líkur, því að frá sjónum er yfir klungur og vegleysur að fara með vörur og þessháttar.

Hv. 3. þm. Reykv. flutti hér frv. viðvíkjandi hafnarmálum Rvíkur, sem útbýtt var hér í hv. d. 1. apríl, en hefir ekki verið tekið til umr. Nú sé ég, að það er endurflutt af honum og hv. 2. þm. Reykv. sem brtt. við þetta frv. Ég verð nú að segja, að ég get ekki aðhyllzt þessa málsmeðferð, að heilt frv. komi í þessu formi inn í hafnarlög Rvíkur, þó ég telji hinsvegar ekki illa farið, að ýms atriði í þessum brtt. verði lögfest. Ég vil þó benda á, að í 1. brtt., um að 6. gr. orðist eins og þar hermir, er ætlazt til, að þeir 2 menn, sem kjósa á í hafnarstj. Rvíkur utan bæjarstjórnar, skuli kosnir leynilega með hlutfallskosningu út af fyrir sig. Skal annar vera verzlunarlærður, en hinn kunnugur útgerð og siglingum. Mér er ekki alveg ljóst, hvernig hægt er að kjósa þessa tvo fagmenn með hlutfallskosningu, þegar þeir eru sinn úr hvoru fagi. Mér virðist það verði að kjósa hvorn fyrir sig til þess að tryggja það, að þeir verði hver úr sinni sérgrein, og þá er hlutfallskosning þýðingarlaus, því að meiri hl. ræður þeim úrslitum.

Þá er c.-liður 1. brtt., um að 8. gr. orðist þannig, að eigum hafnarsjóðs megi aðeins verja í þarfir hafnarinnar. En á þessum erfiðu tímum hefir útkoman orðið sú, að hafnarsjóður er betur megandi en bæjarsjóður og hefir því stundum verið látinn hlaupa undir bagga við aðrar þarfir bæjarins. T. d. þegar bæjarsjóð hefir skort fé til atvinnubóta, þá hefir verið gripið til fjár úr hafnarsjóði. Ég er í raun og veru á sömu skoðun og hv. flm. brtt. um það, að ótækt sé, að bæjarsjóður geti vaðið í fé hafnarinnar, en þó verður tæplega hjá því komizt á þessum tímum, að hver höndin styðji aðra. Ef þetta ákvæði verður að lögum, býst ég við, að hafnarnefnd telji, að hún megi ekki láta fé af hendi til bæjarsjóðs, og að með því verði útilokuð nauðsynleg samvinna í málefnum bæjarins. Ég vil því sem hafnarnefndarmaður óska eftir, að þetta verði ekki fastskorðað, nema það verði áður borið undir hafnarnefnd.

Ég hefi svo ekki ástæðu til að segja fleira um þetta fyrr en hv. flm. brtt. hafa talað fyrir þeim.