28.04.1932
Neðri deild: 62. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1840 í B-deild Alþingistíðinda. (1914)

165. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Héðinn Valdimarsson:

Hv. 2. þm. Reykv. og ég berum fram brtt. við þetta frv. á þskj. 432, sem hv. 1. þm. Rang. var nú að tala um. Ástæðan fyrir því er sú, að þegar síðast var gerð breyt. á skipun bæjarstj. með lögum frá 1930, gleymdist að setja ákvæði um, að hafnarnefnd skyldi kosin með hlutfallskosningu eins og aðrar nefndir í bæjarstj. Hv. 1. þm. Rang. sagði, að það mundi vera erfitt, af því að hér væri um að ræða 2 fagmenn sinn úr hvorri sérfræðigrein. Því er eins varið um byggingarnefnd, í henni eiga að vera múrari og trésmiður, og hún er kosin með hlutfallskosningu, þannig að þessum skilyrðum er þó fullnægt. Eins og hafnarnefnd er nú skipuð, þá er hún ekki í samræmi við aðrar nefndir. Borgarstjóri er sjálfkjörinn form. hennar, en þá er hann ekki í öðrum nefndum. Í brtt. okkar er lagt til, að þessu verði breytt þannig, að hafnarnefnd eigi að kjósa sér form., en þó getur borgarstjóri verið í nefndinni. Nú ræður hafnarstjórn alla fasta starfsmenn, nema hafnargjaldkera. Hér er lagt til, að hafnarstjórn velji þennan mann sem aðra, enda virðist það sjálfsagt.

Þá á fjárhald og fjárhagur hafnarinnar að verða sjálfstæðari en áður. Hv. 1. þm. Rang. fann að því ákvæði, að hafnarsjóði mætti aðeins verja til þarfa hafnarinnar. Það hefir þótt brenna við, að borgarstjórinn í Rvík notaði hafnarsjóð sem varasjóð bæjarsjóðs, en slíkt er auðvitað með öllu óverjandi að festa peninga hafnarsjóðs á þennan hátt.

Þá er eitt nýmæli um það, að vilji bæjarstjórn ráðstafa eignum hafnarinnar, hafi hafnarnefnd neitunarvald, en nefndin er kosin árlega, svo að bæjarstjórn getur kosið aðra nefnd næsta ár, ef hafnarnefnd er í andstöðu við meiri hl. bæjarstjórnar og gildir neitunarvald hafnarn. aldrei lengur en eitt ár á þennan hátt.

Ég vil geta þess, að þessar brtt., sem ég bar upphaflega fram í frv.-formi, hafa verið lagðar fyrir hafnarnefnd af allshn., og leggur hún til, að þær verði samþ. Hv. 1. þm. Rang. mun þá að vísu ekki hafa verið á fundi.

Viðvíkjandi öðrum brtt. hér hefi ég lítið að segja, nema ég vil taka í sama streng og hv. 1. þm. Rang. út af brtt. á þskj. 538 frá hv. þm. Borgf., að það geti ekki verið til gagns fyrir neinn, að Eiðsvík verði dregin undan hafnarsvæði Rvíkur. Þvert á móti tel ég nauðsynlegt, að einhver hafi þar umráð og eftirlit, og þá liggur auðvitað næst, að það sé hafnarstjórn Rvíkur. Viðvíkjandi brtt. frá hv. þm. N.- Ísf. vil ég geta þess, að ég er meðmæltur fyrri hl. hennar, enda hefir ekki verið til þess ætlazt, að skip, afgreidd í Viðey, yrðu skattskyld í Rvík, ef þau athöfnuðu sig ekki að öðru leyti á Rvíkurhöfn en að varpa akkerum á ytri höfninni.