28.04.1932
Neðri deild: 62. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1848 í B-deild Alþingistíðinda. (1919)

165. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Pétur Ottesen:

Ég skal strax svara hv. þm. Barð. Hann skauzt hér inn og sagði frá, að hann hefði talað við bæjarfógetann í Hafnarfirði og kvað hann ekki hafa mótmælt f. h. Kjósarsyslu þeim takmörkum Rvíkurhafnar, sem í frv. eru ákveðin. Því er þá fyrst til að svara, að bæjarfógetinn hafði ekki borið þetta undir sýslunefndina í Kjósarsýslu og ekki heldur undir viðkomandi hreppsfélag, sem þetta snertir sérstaklega. Hinsvegar liggur hér fyrir bréf frá hreppstjóra Mosfellshrepps, sem í felast ströng mótmæli gegn þeirri breyt. á takmörkum hafnarinnar, sem hér um ræðir. Ennfremur eru á leiðinni skjalleg mótmæli frá oddvita Seltjarnarneshrepps, sem ég vona, að geti komið hér fram áður en umr. er lokið. Það er því ekki ofmælt hjá mér, að þeir réttu aðilar, sem hér eiga hlut að máli og mest kemur þetta við, hafi allir mótmælt þeim yfirgangi og ásælni Rvíkur, sem hér kemur fram, eins og sömu aðilar hafa áður mótmælt, þegar Rvík hefir verið að seilast til landa í nágrenni við sig. Nú nægir henni ekki lengur að ná undir sig landinu, heldur þarf hún að fá sjóinn líka.

Þá skal ég svara hv. 1. þm. Rang. nokkrum orðum. Hann talaði um, að Rvík ætti eiginlega allt landið, sem höfnin ætti að liggja að og til mála kæmi að nota. Þetta er ekki nema að nokkru leyti rétt. Þó gert sé ráð fyrir, að hafnarsvæðið nái ekki nema að netalögum fram af landi Keldna og Grafar, þá hagar nú svo til, að ekki yrði hægt að komast inn á Grafarvog eða að löndum Keldna og Grafar, nema fara yfir Rvíkurhöfn, ef hún er takmörkuð eins og frv. gerir ráð fyrir. Þeir, sem vildu nota strandlengjuna þar, gætu það því ekki nema með því móti að fara um Rvíkurhöfn og yrðu þá um leið að sæta þeim kvöðum, sanngjörnum eða ósanngörnum, sem yfirstjórn Rvíkurhafnar þóknast að setja. Og hv. þm. gaf glögga skýringu á því, hvað fyrir Rvík vekti. Hann sagði blátt áfram, að það væri meiningin að koma í veg fyrir, að hér risu upp bæir í nágrenninu, sem svo kæmu til með að keppa við Rvík. Hér er þá komin bein yfirlýsing um það, hvað yfirgangur og ásælni Rvíkinga á að þýða. Þeir ætla sér að hrifsa undir sig alla möguleika, sem til þess eru hér nærlendis að koma upp höfnum eða hafnarmannvirkjum. Það er vitanlega af því, að hér á höfninni verða menn að sæta þeim afarkostum hvað hafnargjöld snertir, að menn myndu miklu vilja til kosta til þess að geta afgreitt skip sín hér annarsstaðar, bara til þess að komast undan því okri, sem er að sliga útgerðina og aðra, sem hér þurfa að koma að landi.

Hv. þm. var eitthvað að tala um, að það þyrfti svæði til þess að geyma skipin á. Já, það er líka stórt svæði, sem Rvík hefir yfir að ráða með þeirri nýju aðstöðu, sem hún hefir nú fengið við Skerjafjörð. Það er því ekki annað en yfirdrepsástæða, að Rvíkurhöfn þurfi að færa meira út kvíarnar vegna þrengsla.

Hv. þm. var mjög hneykslaður á því, að ég talaði um möguleikann til þess, að farið yrði að skattleggja veiði hérna í –sundunum. En ég held, að það sé nú engin fjarstæða að láta sér detta slíkt í hug, því yfirleitt eru notaðir allir möguleikar, sem fyrir hendi eru, til þess að ná gjöldum af þeim, sem upp á það þurfa að vera komnir að nota höfnina hérna.