05.04.1932
Neðri deild: 43. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1861 í B-deild Alþingistíðinda. (1962)

294. mál, frystihús á kjötútflutningshöfnum

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég skal ekki þreyta hv. d. með langri ræðu fyrir þessu frv., enda hefir mér ekki unnizt tíma til að búa mig undir slíkt. Hefði það þó óneitanlega verið fróðlegt og vel til fallið í sambandi við þetta mál að gefa hér nokkurt yfirlit um sölu aðalútflutningsvöru landbúnaðarins á þessari öld, en ég læt mér um þetta nægja aðeins að drepa á það helzta, sem gerzt hefir á allra síðustu árum.

Eftir ágreininginn við Norðmenn, sem leiddi til kjöttollssamninganna 1924, var sjáanlegt, að við áttum of mikið í húfi til þess að geta átt allt að kalla undir norska kjötmarkaðinum einum, sem auk þess fór síþverrandi. Því var það og, að kæliskipsnefndin var skipuð árið 1924.

Í framhaldi af starfi hennar var svo það, að Eimskipafél. með aðstoð ríkisins eignaðist skipið Brúarfoss, með fullkomnum frystiútbúnaði, og var með því gerður mögulegur útflutningur á frosnu kjöti héðan á erlendan markað í allstórum stíl.

Jafnframt var þá ríkisstj. veitt heimild til að veita lán úr viðlagasjóði til frystihúsabygginga. Á þeim grundvelli voru síðan reist frystihúsin á Hvammstanga, Blönduósi, Sauðarkróki, Akureyri, Húsavík, Kópaskeri og Reyðarfirði.

Nú síðast hefir verið reist mikið frystihús hér í Rvík, að vísu fyrst og fremst til annara afnota, og víðar eru frystihús, sem nota má í þessu skyni, en nú eru notuð til annars, svo sem við Eyjafjörð, í Dalvík og Grenivík.

Vegna þessara ráðstafana hefir útflutningur á frystu kjöti smáaukizt. Af síðasta árs framleiðslu var alls flutt út 260 þús. fjár, þar af ca. 95 þús. fryst, en ca. 160 þús. saltað eða drjúgum meir en þriðjungur af frystu kjöti. Þetta má auka dálítið með því að nota frystihúsin meira. og sumpart með því að grípa til annara í viðbót, eins og t. d. frystihúsanna við Eyjafjörð, sem ég áður nefndi.

Reynslan er yfirleitt góð af sölu frysta kjötsins. En mest er um það vert, hve stórkostlega hún léttir undir með saltkjötsmarkaðinum, svo að hægt hefir verið að halda verðinu stórlega uppi í Noregi hjá því, sem annars hefði verið.

Nú er svo komið, að saltkjötsmarkaðurinn erlendis þrengist meir og meir meið hverju árinu, sem líður. Er afarerfitt um sölu saltkjötsins nú, og verður lítið selt nema í Noregi, en þar er sem annarsstaðar nú í kreppunni hafin öflug sókn í þá átt að nota sem mest innlendar vörur.

Norski landbúnaðurinn nálgast það nú meir og meir að fullnægja heimamarkaðinum og er smátt og smátt að útrýma okkar kjöti. Við þetta bætist, að nú hefir kjöttollssamningnum frá 1924 verið sagt upp, og enn hefir ekki tekizt að fá hann framlengdan. Í samráði við utanríkismálanefnd var sendiherra okkar í Kaupmannahöfn að vísu sendur í heim erindum til Noregs. En tíminn var óhagstæður, því að einmitt um það leyti voru að fara fram miklar breyt. á norsku stjórninni, og varð sendiherra af þeim ástæðum að fara, áður en hann hafði lokið erindum sínum. Hinsvegar lofaði norska stj. því, að gera honum viðvart, er hún væri tilbúin til viðtals um samninga, til þess að hann þá gæti komið á fund hennar til frekara samtals, og reynir nú á, hversu fer um það mál.

En norski markaðurinn einn er svo þröngur, að við verðum að vinna að því af öllum mæti að ná undir okkur markaði fyrir kjötið annarsstaðar, hvernig sem fer um framlenging samningsins.

Það, sem nú liggur fyrir fyrst og fremst í þessu efni, er að herða sem mest á byggingu frystihúsanna, svo að við verðum þess megnugir að hagnýta okkur enska markaðinn meira en nú er. Engin ástæða er til að óttast, að hann taki ekki á móti meira kjöti frá okkur en hann nú gerir. Viðlagasjóðsaðstoðin um þetta er nú ekki lengur fyrir hendi, og þess vegna höfum við, hv. þm. S.-Þ. og ég, borið fram þetta frv.

Í frv. er farið fram á það, að stj. verði heimilað að ábyrgjast allt að 400 þús. kr. lán til að koma upp frystihúsum á kjötútflutningshöfnum. Höfum við í 2. gr. frv. bundið ábyrgðina sömu skilyrðum og giltu á sínum tíma um viðlagasjóðslánin. Að því er upphæðina snertir, þá vil ég gera grein fyrir því, við hvað hún er miðuð. Þeir, sem kunnugastir eru þessum málum, álíta, að þörf sé að reisa frystihús þegar í sumar, einkum á 3 höfnum: Stykkishólmi, Borðeyri og Vopnafirði. Á öllum þessum stöðum eru hús fyrir, sem hægt er að nota í þessu skyni. Þarf því ekki að reisa húsin af stofni, en nóg að gera við þau. Er áætlað, að húsaðgerðin í Stykkishólmi muni kosta um 15000 kr. og vélarnar 40000 kr. Á Borðeyri er húsaaðgerðin áætluð 20000 kr. og vélar 50000 kr. Á Vopnafirði er gert ráð fyrir, að aðgerðin á húsinu þar muni kosta 20000 kr. og vélarnar 40000 kr.

Alls er þá á þessum þrem kjötútflutningshöfnum gert ráð fyrir 185000 kr. kostnaði vegna frystihúsanna. En auk þess eru aðrir staðir, sem einnig er nauðsynlegt að reisa frystihús á, ef ekki í sumar, þá a. m. k. ekki síðar en á næsta ári. Þessir staðir eru Djúpavogur, Þórshöfn, Hólmavík og Borgarnes. Loks þarf áður langt líður að reisa frystihús í Vík í Mýrdal og Höfn í Hornafirði.

Þó að þessir staðir séu nefndir til sérstaklega, sem ég nú hefi nefnt, ber engan veginn að líta svo á þetta, að það sé eingöngu gert fyrir þau héruð, sem að heim liggja. Ef hægt verður að koma upp þessum frystihúsum, sem ég nefndi, til viðbótar þeim, sem fyrir eru, er ekki vafi á því, að við getum komið megninu af útflutningskjöti okkar á enska markaðinn. Ætti þá að draga úr þeim vandræðum að mestu, sem nú eru á því að koma saltkjötinu út, því að með því að draga úr saltkjötsframleiðslunni yrði greitt fyrir sölu þess, sumpart innanlands og sumpart utanlands. Stafar því landbúnaðinum í heild sinni mikið gagn af slíkum ráðstöfunum.

Að svo mæltu vil ég leyfa mér að leggja til, að frv., verði, að lokinni umr., vísað til hv. landbn.